Nýlega las ég áhugaverða grein í Financial Times þar sem vakin var athygli á þeirri staðreynd að í fyrsta sinn á heimsvísu verða þau sem eru eldri en 65 ára fjölmennari en þau sem eru yngri en fimm ára. Í greininni kom fram að umbætur og jákvæð þróun í lýðheilsu, ásamt bættum lyfjum hefur valdið því að fólk lifir lengur og því ber að fagna. Á móti kemur að fæðingartíðni í heiminum hefur lækkað mikið undanfarin 30 ár sem hefur haft áhrif á þróunina. Í greininni er fjallað um hvaða áhrif þessi breyting á aldurssamsetningu hefur haft og muni hafa í framtíðinni. Álag, sem í dag er mikið, mun aukast enn frekar á heilbrigðis-, félags- og lífeyriskerfi en á móti eru færri og færri á vinnumarkaði til að standa undir auknum kostnaði á umrædd kerfi.
Eftir lestur greinarinnar ákvað ég að kanna hvernig þessi mál væru hér á landi. Árið 1980 breyttist aldurssamsetning þjóðarinnar þannig að þau sem voru 65 ára og eldri voru orðin jafnmörg og þau sem voru yngri en fimm ára. Það var fyrir 42 árum síðan. Síðan þá hefur hlutfallið lifandi fædd börn á ævi hverrar konu lækkað töluvert. Það var um 2,5 árið 1980 en á síðasta ári var það komið niður í 1,8. Hlutfall fyrrnefndra aldurshópa árið 1980 var 9,2% af mannfjölda landsins en í árslok 2021 var hlutfallið mjög breytt. Þau sem voru 65 ára og eldri voru um 14% mannfjöldans en þau sem voru yngri en fimm ára voru 6% af mannfjölda landsins.
Ísland sker sig ekki úr hvað varðar þróun aldurssamsetningar, hvorki Evrópu né Bandaríkjunum. Hér á landi var tekið jákvætt skref í kringum 1980 þegar lífeyrissjóðakerfi sett á laggirnar þar sem hver manneskja á vinnumarkaði byggir upp sinn lífeyrissjóð. Í mörgum löndum er hins vegar svo kallað gegnumstreymiskerfi, þ.e. öll á vinnumarkaði greiða lífeyri þeirra sem eru hætt að vinna. Slík kerfi eru að sliga efnahag margra þjóða í Evrópu, t.d. í Frakklandi.
Það breytir því ekki að á næstu áratugum stöndum við frammi fyrir því að þau sem eru á vinnumarkaði þurfa að greiða meira í skatta til að halda upp velferðarkerfi fyrir þau sem eldri eru og sá kostnaður eykst með hverju ári. Eins og málin líta út í dag eru þau sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði að horfa fram á íþyngjandi skattahækkanir á sínum vinnualdri til að mæta þeim tilkostnaði sem fellur til vegna þess að þjóðin er að eldast.
Það væri verðugt að kanna ástæðu þess að fæðingartíðni á Íslandi fer stöðugt lækkandi. Snýst þessi þróun um áherslubreytingar eða getur verið að það skorti ákveðinn stuðning við barnafjölskyldur? Ef seinna atriðið er hluti af þessari þróun væri hægt að styðja við foreldra með nokkrum aðgerðum:
- Lengja fæðingarorlof í 18 mánuði.
- Skylda sveitarfélög með lögum að tryggja öllum 18 mánaða börnum leikskólapláss.
- Lækka kostnað foreldra vegna barna, eins og leikskólagjöld og gjöld vegna skólahalds (matarskostnaður).
- Gera kostnað vegna heilbrigðisþjónustu barna gjaldfrjálsan.
- Stórauka framboð íbúða fyrir barnafjölskyldur til að búa í öruggu húsnæði.
Höfundur er heilsuhagfræðingur.