Tæp tvö ár eru nú frá upphafi kórónuveirufaraldursins sem vissulega hefur gert okkur lífið leitt. Um fimm og hálf milljón manns hafa látist vegna COVID-19 sem er meira en tífaldur fjöldi þeirra sem látast úr árlegum inflúensufaraldri. Margt hefur þó áunnist. Umtalsverðar rannsóknir hafa farið fram á öllum hliðum faraldursins víða í heiminum og fjöldi vísindagreina sem hafa birst er kominn vel yfir 200.000. Þekking okkar byggir á rannsóknum og vísindum og sú þekking getur leitt til framfara.
Bólusetningar gegn COVID-19
Í upphafi faraldursins greip um sig talsverður uggur; óljóst var hvernig mögulegt væri að bregðast við. Lyf sem virka á veirur eru fá, með misgóða virkni og ekki voru til nein lyf gegn kórónaveirunni. Miklar vonir voru því bundnar við bólusetningar – en óttast var að framleiðsla þeirra gæti tekið langan tíma. Til samanburðar má t.d. nefna að framleiðsla á árlegum inflúensubóluefnum tekur um hálft ár. Bóluefnið er framleitt á þann hátt að veiran er ræktuð og úr þessum ræktuðu veirum má gera bóluefni. Það tekur hins vegar langan tíma og magnið er af verulega skornum skammti. Þannig er ekki til bóluefni gegn inflúensu nema fyrir hluta heimsbyggðarinnar.
Um nokkurra áratuga skeið hefur verið unnið á ýmsum rannsóknarstofum að nýrri tækni til að örva ónæmiskerfið, svokallaðri mRNA tækni. Þessar rannsóknir á mRNA höfðu þegar skilað afar áhugaverðum niðurstöðum áður en faraldurinn skall á. Ljóst var að með þessari tækni mætti framleiða bóluefni hraðar, ódýrar og í mun meira mæli en áður þekktist. Aðrar aðferðir við bóluefnaframleiðslu voru vissulega einnig nýttar. Nú eru framleidd bóluefni gegn kórónaveirunni víða um heim, þ.m.t. Bandaríkjunum, víða í Evrópu, Kína, Rússlandi, Indlandi, Kóreu, Japan og Suður Ameríku. Yfir 100 bóluefni eru í klínískum rannsóknum og fleiri eru væntanleg. Í heiminum hafa verið framleiddir nærri 10 milljarðar skammta og rúmlega helmingur mannkyns hefur fengið a.m.k. einn skammt.
Faraldurinn á Íslandi
Færa má fyrir því rök að baráttan við faraldurinn hafi gengið vel á Íslandi. Dauðsföll hafa nú verið rúmlega 40 vegna COVID-19 eða 120 miðað við milljón íbúa. Það er lægsta dánarhlutfall Norðurlanda, í Noregi er þetta hlutfall 250, í Finnlandi 300, í Danmörku 580 og í Svíþjóð1500. Hefði dánarhlutfallið á Íslandi verið svipað og í Svíþjóð væri fjöldi látinna ekki rúmlega 40 heldur um 500 einstaklingar. Því má segja að vel hafi tekist að halda faraldrinum í skefjum á Íslandi; heilbrigðiskerfið nær enn að glíma við vandann, þó álagið sé mikið og dauðsföll eru ekki mörg. Samstaða hefur verið mjög almenn, umræðan opinská og stjórnmálamenn oftast haft þekkingu og álit sérfræðinga að leiðarljósi. Þetta hefur skilað árangri en vissulega ekki verið átakalaust.
Bólusetningar á Íslandi
Bólusetningar gegn COVID-19 hafa gengið afar vel á Íslandi og almenn þátttaka verið mjög góð. Líklegt verður að telja að þetta eigi drjúgan þátt í þeim árangri sem nefndur er hér að ofan. Bólusetningar barna eldri en fimm ára eru nú hafnar, eftir að rannsóknir og reynsla hafi sýnt fram á bæði virkni og öryggi þeirra.
Við undirritaðir höfum gert tvær rannsóknir til að meta afstöðu foreldra til bólusetninga barna gegn COVID-19. Í fyrri rannsókninni spurðum við rúmlega 3000 foreldra barna yngri en 16 ára um afstöðu þeirra til bólusetninga barna gegn COVID-19. Afgerandi meirihluti þeirra var jákvæður fyrir slíkum bólusetningum eða um 80%. Í seinni rannsókninni spurðum við foreldra barna undir fjögurra ára aldri. Niðurstaðan var svipuð þó eðlilega væru fleiri óákveðnir (já: 68,3%, óákveðnir: 24,9%, nei: 6,8%).
Rök fyrir bólusetningum barna eru mörg að okkar mati. Meðal þeirra eru eftirfarandi:
- Ný afbrigði veirunnar smita börn meira en fyrri afbrigði. Þó börn smitast enn þá minna en fullorðnir og verða síður alvarlega veik er þessi staða breytt. Ný afbrigði veirunnar leggjast á börn, þau geta vissulega glímt við umtalsverð einkenni og orðið alvarlega veik. Einkenni COVID-19 hjá börnum geta þannig verið alvarleg.
- Rannsóknir hafa sýnt að langtímaeinkenni eftir sýkingu með kórónaveirunni koma fyrir hjá börnum, ekki síður en unglingum og fullorðnum. Einkenni „long COVID“ geta m.a. verið þreyta, höfuðverkur, hjartsláttartruflanir, slappleiki og svefntruflanir ásamt einbeitingarskorti.
- Rannsóknir á virkni bóluefnisins hjá börnum liggja fyrir. Börn eldri en fimm ára svara bóluefninu vel og mynda góð mótefni, a.m.k. sambærileg við mótefnamyndun unglinga.
- Rannsóknir hafa sýnt að alvarlegar aukaverkanir bóluefna gegn COVID-19 hjá börnum eru mjög sjaldgæfar. Aukaverkanir bólusetningarinnar eru oft af sama toga og einkenni COVID-19 sjúkdómsins – en miklu sjaldgæfari og minni.
- Miðað við stöðu faraldursins nú, er líklegt að flestir sem ekki eru bólusettir muni smitast á næstu mánuðum og getur það leitt til fjölda innlagna á Barnaspítala Hringsins vegna COVID-19 sjúkdómsins.
- Reynsla af notkun bóluefnisins fyrir börn eldri en fimm ára nær nú til milljóna barna um allan heim og hefur reynslan verið góð. Þrátt fyrir náið eftirlit með aukaverkunum hafa engar upplýsingar komið fram sem kalla á breyttar ráðleggingar. Mörg Evrópulönd hafa einnig tekið upp bólusetningar fyrir þennan aldurshóp.
- Fullorðnum einstaklingum á Íslandi er boðin vörn gegn COVID-19. Við teljum að börn eigi sama rétt.
Baráttan við kórónaveirufaraldurinn hefur gengið betur á Íslandi en víða annars staðar. Að okkar mati byggir það á góðu samstarfi yfirvalda og almennings, góðum upplýsingum og skynsamri afstöðu til bólusetninga og annarra forvarna gegn veirunni. Við getum varist veirunni, það gildir einnig fyrir börn. Við hvetjum alla til að láta rannsóknir og þekkingu leiða okkur áfram.
Höfundar eru barnalæknar á Barnaspítala Hringsins með ónæmisfræði barna og smitsjúkdóma barna sem sérgreinar.