Fyrir nokkrum vikum var Staffan Bergström, sænskur læknir og fyrrum formaður sænska félagsins um dánaraðstoð, sviptur læknaleyfinu. Ástæðan var sú að árið 2020 aðstoðaði hann einstakling með langt genginn MND sjúkdóm við að binda enda á líf sitt. Á vefsíðu MND félagsins kemur fram að MND sé banvænn sjúkdómur sem ágerist venjulega hratt og herjar á hreyfitaugar líkamans sem flytja boð til vöðvanna. Af honum leiðir máttleysi og lömun í handleggjum, fótleggjum, munni, hálsi o.s.fv. Einstaklingurinn hafði ætlað að binda enda á þjáningar sínar hjá Dignitas, samtökum sem veita dánaraðstoð í Sviss, en kórónufaraldurinn kom í veg fyrir það. Þegar hann var látinn tilkynnti Staffan, sem á að baki 50 ára flekklausan starfsferil sem læknir, andlátið til lögreglu og óskaði eftir að úr því yrði skorið hvort hann hefði framið lögbrot með aðstoð sinni. Hann var sýknaður en eftirlitsnefnd heilbrigðismála ákvað þrátt fyrir það að svipta hann læknaleyfinu. Staffan mun áfrýja niðurstöðunni.
Þurfum að tala um dauðann
Við tölum of lítið um dauðann, kannski vegna þess að það fyllir okkur kvíða. Kvíðinn varðar tilvist okkar, hvað gerist þegar við deyjum og hvað gerist eftir það? Er þetta þá virkilega allt búið? Við fáum ekki svör við þeim spurningum og stöndum frammi fyrir ákveðinni óvissu. En hvernig við lifum okkar síðustu dögum og hvort hægt sé að enda lífið á sómasamlegan hátt eru spurningar sem við getum leyst í samfélaginu.
Tvöfalt siðferði
Það er sorglegt að hluti læknastéttarinnar skuli hafa neikvætt viðhorf til dánaraðstoðar. Læknar sinna nú þegar daglega alvarlega veikum einstaklingum. Allir vita að slökkt er á öndunarvélum og að deyjandi sjúklingar fá slævandi lyf sem geta haft þær afleiðingar að þeir sofna fyrir fullt og allt. En það má ekki kalla það dánaraðstoð og einstaklingurinn fær ekki að ráða eigin lífslokum heldur er það oft í höndum lækna og aðstandenda að taka ákvörðun um lífslokameðferð. Segja má að það sé tvöfalt siðferði í íslenskri umönnun í dag.
Þetta tvöfalda siðferði er m.a. til staðar vegna þess að stjórnmálamenn, með örfáum undantekningum, hafa ekki þorað að taka umræðuna um dánaraðstoð. Á Spáni, sem er mjög kaþólkst land, var hart deilt um dánaraðstoð fyrir nokkrum árum, en nú er hún orðin lögleg. Austurríki lögleyfði dánaraðstoð fyrr á þessu ári. Auk þess er hún leyfð í Hollandi, Belgíu, Lúxemborg, Sviss, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Kanada, Kólumbíu og fjölmörgum fylkjum Bandaríkjanna.
Hér á landi er svarið gjarnan að líknandi meðferð hafi þróast það mikið undanfarin ár að ekki sé þörf á dánaraðstoð. En þó að líknarmeðferð hafi batnað og sé framúrskarandi linar hún ekki allar þjáningar. Hún er heldur ekki svar við beiðni sjúklingsins um að fá að ráða eigin lífslokum.
Skiljum heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga eftir í limbói milli lífs og dauða
Það skýtur skökku við að ætlast er til af okkur að við tökum ákvarðanir um flesta hluti í lífi okkar, en þegar kemur að dauðanum höfum við ekki sjálfsákvörðunarrétt. Að skilja bæði heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga eftir í ákveðnu limbói milli lífs og dauða er langt frá því ábyrgt. Stjórnmálamenn verða að þora að ræða þetta mikilvæga mál, þó að það kunni að vera erfitt.
Þegar þjáningin ein er eftir ætti rétturinn til að velja sína hinstu stund að vera sjálfsagður hlutur í siðmenntuðu samfélagi.
Greinarhöfundur er formaður Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð.