Mig langar að ranta ábyrgðarlaust um kosningarnar, sagði ég við ábyrgðarfullan ritstjóra Kjarnans og fannst ég sjá á honum að heppilegra væri að segja: Mig langar að ranta á ábyrgan hátt um kosningarnar.
Hér með hefst rantið!
Um daginn var Gunnar Smári Egilsson hankaður á því að hafa haft frjálshyggju-lega skoðun í grein árið 2004 sem þykir ekki samræmast sósíalisma-legum skoðunum hans í dag. Eins og svo oft áður var Gunnar Smári fljótur að vinda sér úr snörunni, að minnsta kosti andspænis stuðningsfólki sínu. Eins og listdansari á skautum í orðfimi, ef haldnir væru Ólympíuleikar fyrir slíka kappa, þá yrði hann sendur fyrir hönd Íslands. Gott ef hann sá sér ekki færi á að vara fólk við að taka mark á þessum Gunnari Smára 2004.
Raunar tengdi ég við eftirfarandi varnarorð Gunnars Smára: „Ég bara man þetta ekki, síðan hvenær er þetta?“ sagði hann sem kvaðst ekki vita í hvaða samhengi greinin hefði verið skrifuð.
Og hann sagði líka: „Alveg eins og Stalín er ekki hérna eins og þú varst að spyrja áðan, þá er bara Gunnar Smári 2004 ekki í framboði. Ég hef skrifað heilu herbergin eftir Gunnar Smára 2004, sem stangast á, og ég hef leyft mér sem pistlahöfundur og blaðamaður að vera svolítið svona ólíkindatól og brugðið fyrir mig hæðni og alls konar hlutum.“
Og hvert er ég að fara með þessu ranti?
Yfirlætislegt menningarauðmagn
Erlendur í Unuhúsi sagði eitthvað á þá leið að helst ætti maður að skipta um skoðun á hverjum degi. Ég er sjálf þeirrar skoðunar að kona – sumum finnst réttara að segja maður – þurfi ekkert endilega að vera lengi sammála sjálfri sér. Sú eða sá sem hefur verið sammála öllum sínum gildisdómum og viðhorfum síðan 2004 – eða þess vegna 1974 – á líklega í einhvers konar vandræðum árið 2021 við að finna svörun í umhverfi dagsins í dag. Þess utan, og þetta er smá útúrdúr, þá man ég eftir að hafa dýrkað svo pistla Gunnars Smára sem unglingur að ég átti mér enga ósk heitari en að geta hljómað álíka ósvífinn skríbent og hann. Mér hefur ekki tekist það.
Ég hef oft verið skeptísk á ýmislegt og ósammála öðru í umbrotasömum málflutningi Gunnars Smára í pólitíkinni; sumt sem komið hefur frá flokki hans hefur jafnvel tendrað hugrenningartengsl við aðferðafræði popúlisma, einhver orð einhverra þar jaðrað við að beina huganum að annars konar aðferðafræði í miður lýðræðislegum ríkjum. Samt sem áður er þessi rödd bæði þörf og bráðhressandi og inn á milli óþægilega sönn. Í henni felst svo margt sem er orðið löngu tímabært að einhver segi og lýsi upp. Jú, þetta er glannaleg rödd, stundum ósvífin, skeikul og alhæfingaglöð, en líka krítísk, sterk, greinandi og óvenju frjó. Og hún virðist aldeilis hafa hleypt enn meiri áræðni í Ingu Sæland.
En kannski þarf maður – lesist kona – að hafa unnið í leikhúsi til fagna dramatúrgíunni sem þessi rödd (eins og fleiri raddir) hefur skapað í kosningaslagnum þetta árið. Og það eitt að segja akkúrat þessa allra síðustu setningu í ranti um Gunnar Smára fær mig til skammast mín smá yfir að galgopast yfirlætislega menningarauðmagnslega. Gott ef mér líður ekki eins og dómkirkju hinnar frjálslyndu miðju – eins og hann kallaði fastakúnna í Kaffifélaginu á einhverjum miðlinum, en þar fáum við sonur minn okkur stundum hressingu. Samt ekki með latte og trefil.
Auðvitað má segja að svona fullyrðing sé gamalkunnugt trikk, meðal annars lýðskrumara, til að skilja að okkur (alþýðuna) og hina (óvininn) – ég þá síðarnefnt í þessu tilviki. En! Ég fagna líka ögrandi statusum. Þeir fá mig til að róta upp í stundum sjálfborulegri hugsun minni. Það er hollt að velta mögulegum forréttindum sínum fyrir sér, stundum erum við jú blind á þau – og forréttindi birtast í ýmsum myndum, m.a. félagsauðmagni og menningarlegum statusi. En forréttindi hafa verið mér nokkuð hugleikin í þessari kosningabaráttu, umfram annað.
Klassíski pólitíkusinn
Eins og ég skil það er popúlismi í rauninni aðferðafræði, brúkleg á ólíkum vettvangi, í ólíkum málum. Þannig má til dæmis tala um popúlískan áróður í umhverfismálum, rétt eins og popúlískan áróður öfgafullra þjóðernissinna. Kannski má þá að einhverju leyti útskýra uppgang popúlisma, hist og her um heiminum, með þörf hinna valdalausu fyrir aðferð til að öðlast rödd og vægi. Þörf allra sem standa á einn eða annan hátt fyrir utan valdamiðju samfélags. Og þeir verða sífellt fleiri sem þora að hafa rödd.
Með aðferðum hins ábyrgðarlausa rants verður manni þá hugsað til klassísku leiðarinnar í íslenskri pólitík. Að fara í lögfræði eða hagfræði, eða eitthvað fag í virðulegri kantinum, og um leið í annað hvort Röskvu eða Vöku, verða aktívur í ungliðapólítík, koma sér upp ákveðnu félagsauðmagni, dvelja helst bara á Íslandi til að byggja upp feril og sverja einhverjum af rótgrónustu flokkunum ævarandi hollustu. En hljóta þess í stað tækifæri innan voldugs félagsnets, í það minnsta velvild og samsvörun. Sá sem fetar kræklóttari leið hættir á að verða stimplaður aðeins of róttækur, tækifærissinnaður, unggæðingslegur eða ruglingslegur.
Félagsnet flokks með djúpar rætur í samfélaginu hvíslar: Allt sem þú vilt skaltu fá, ef þú fellur fram og tilbiður mig (lesist: efast ekki um inntak mitt).
Svona má maður skrifa – ef maður rantar ábygðarlaust. Því í rantinu talar skynjunin óhindruð, án of mikillar truflunar frá kröfu um smásmuguleg rök. Skynjun rantsins segir: Þessar kosningar núna eru skemmtilega lífrænar því þær ólga af óhefðbundnum pólitíkusum. Ólga af ólíkum röddum utan rótgrónustu flokkanna. Sumar raddirnar höfða til sumra, stundum sumt í sumum, annað ekki, en allar þessar raddir búa til eitthvað safaríkt, ögrandi og margróma. Þær krefjast breytinga, þó á ólíkan hátt og með ólíkum aðferðum. En þær standa utan við góðborgaralega hugmynd um að ein leið að valdastólum sé réttari en aðrar. Leið klassíska stjórnmálamannsins.
Óheiðarlegt en öflugt
Einmitt þess vegna rís varðmaður hins klassíska stjórnmálamanns upp og segir: Orð Gunnars Smára er ómarktæk því hann flaug einu sinni í einkaþotu og hlýtur því að vera tækifærissinnaður. Orð Þorgerðar Katrínar eru ómarktæk því hún fór úr Sjálfstæðisflokknum og hlýtur þá að vera tækifærissinnuð. Orð Þórhildar Sunnu eru ómarktæk því hún er dónaleg. Af hverju? Nú, hún á leðurjakka og spyr of ögrandi spurninga til að það sé boðlegt að bjóða henni í boð (lesist: hún er klár og beinskeytt). Og þannig má halda áfram.
Vitaskuld er gott og þarft að spyrja stjórnmálafólk sem býður sig fram til þings út í fortíðina. En! Svo oft hef ég heyrt sömu innantómu frasana notaða um sama fólkið að ég efast ekki um að þeir hafi verið matreiddir sérstaklega í því skyni að klekkja á óþægilega frjóum röddum sem gætu ógnað. Síðustu árin hef ég heyrt þá notaða svo grunsamlega oft og klént um Þorgerði Katrínu, þá hugrökku stjórnmálakonu, að ég er sannfærð um að slíkir PR-frasar verði til í samkrullspartíi ríkjandi stabilítets og vætli inn í skynjun annarra eins og gömul hugmynd um guð. Hugsaðir sem tæki til smættunar. Óheiðarlegt en öflugt.
En allar þessar raddir, eins ólíkar og þær eru, eiga sameiginlegt að knýja á um hinar og þessar kerfisbreytingar. Uppstokkun. Jafnvel nýja stjórnarskrá.
Þrýstingurinn ágerist
Þetta eru ekki popúlistar, þó að stundum megi greina popúlíska orðræðu í málflutningi einhvers. Heldur ekki pönkarar eða einhverjir að maka krókinn. Þetta eru fjölbreyttar raddir samfélagsins, eins ólíkar og þær eru margar, og þær verða sífellt fleiri og sterkari þessar raddir sem eru ákall nýrra tíma. Já, þetta er gjörólíkt fólk sem stendur fyrir gjörólíkar stefnur. Samt! – þetta er fólkið sem þorði að skipta um skoðun. Þorði að hugsa eitthvað annað í dag en það gerði í gær. Efast. Viðurkenna og endurskoða eigin forréttindi og annarra. Taka sér vald utan viðtekinna hefða. Varpa ljósi á valdaleysi þeirra sem fengu ónýtustu forréttindaspilin. Mæta gagnrýni við að feta nýja leið. Gagnrýna djúpstæða sérhagsmuni. Búa til eitthvað nýtt og ófyrirsjáanlegt. Trúa á nýjar aðferðir, hvort sem er til hægri, vinstri ... eða á íhaldsnótum eða frjálslyndisnótum. Hugsa slík hugtök upp á nýtt. Trúa á rödd sína. Hugsa sjálfstætt, ólíkt mörgum sem kenna sig hvað ákafast við frelsi einstaklingsins.
Í öllum þessum röddum búa nýjar hugmyndir, frjóar pælingar, ögrandi gagnrýni, svo margt sem fær okkur til að hugsa upp á nýtt – þó að við getum auðvitað ekki verið sammála öllum, hvað þá alltaf. Auðvitað finnst manni sumt algjör vitleysa, forheimskun og allt það versta. Eða ekki! Og samt! Í ögrandi röddum búa spurningar morgundagsins, stundum svo knýjandi að þær fá vélræn svör makindalegri stjórnmálamanna til að hljóma hallærislega yfirlætisleg. En allar þessar margróma raddir eru orðnar svo margar að ef stjórn svokallaðra íhaldsflokka nær aftur völdum á þrýstingurinn úr öllum áttum aðeins eftir að ágerast. Allavega, það er fullt af góðu fólki í framboði og helst vildi ég geta kosið í persónukjöri. Hina og þessa, úr hinum og þessum flokkum.