Sjálfstæðisflokkurinn setur fram nokkuð ítarlega stefnu í umhverfismálum. Þar er tekið á nýtingu náttúruauðlinda, rammaáætlun, sorpmál og skipulagsmál. Lítið fjallað um annað.
Í byrjun er upptalning á málaflokkum en lítið bitastætt um hvað flokkurinn vill gera í málunum. Fram kemur að það þurfi að auka rannsóknir varðandi loftgæði og draga úr svifryksmengun. Maður skyldi halda að það væri vitað nokkuð vel hvað veldur svifryksmengun og það mætti ráðast gegn orsökunum. Hið sama má segja um að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Það væri meira traustvekjandi ef hugað væri að uppsprettu vandans og eitthvað nefnt hvað ætti að gera. Því eins og Ása Þór sagði hér forðum. Á skal að ósi stemma. Þó flokkurinn hæfi ekki það sem kastað er til eiga kjósendur rétt á að vita á hvað er miðað.
Talað er um að setja stefnu um nýtingu vindorku. Í svona stefnuskjali ætti flokkurinn að mínu mati að leggja fram einhver drög að stefnu svo kjósendur geti valið þær hugmyndir eða aðrar.
Staðhæft er að ráðast þurfi í markvissar aðgerðir til að draga úr plastmengun. En,hvaða aðgerðir og að hvaða uppruna á að ráðast að og hvernig. Er það sogrör af drykkjarfernum eða veiðarfæri togara sem á að koma böndum á? Eða eitthvað annað?
Umfjöllun um loftslagsvá er fremur yfirborðskennd. Leiðir til úrbóta eru nefndar, að draga úr bruna og auka skógrækt og landgræðslu. Í sjálfu sér ágætt, en þessi stóri málaflokkur fær ákaflega lítið púður í stefnuskránni.
Lesa
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu í sinni stefnu á að virða eignar og nýtingarrétt á lögvernduðum auðlindum. Það er ekki skilgreint nánar hvað átt er við með lögvernduðum auðlindum, en það er e.t.v. eitthvað sem ekki á að tala um upphátt. Hættan af þessari stefnu er sú að það komi upp einhvers konar aðalsstétt sem á „lögverndaðan nýtingarrétt“ á öllum náttúruauðlindum landsins. Þá kemur að því að einhverjir utan aðalsins vilja með sínu framtaki nýta auðlindirnar. En nei. Þá eru þær fráteknar fyrir þá sem hafa erft þær. Er þetta framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins? Er þetta ástæðan fyrir hatrammri baráttu flokksins gegn nýrri stjórnarskrá með ákvæðum um að náttúruauðlindir séu í eigu þjóðarinnar? Er flokkurinn að berjast fyrir því að aðalsstétt sé fest í sessi?
Samantekt
Pólitískt gæti stefna Sjálfstæðisflokks um einkarekstur steytt á andstöðu annarra flokka. Það kemur ekki í veg fyrir einkarekstur en hætt við að skautað verði framhjá setningu æskilegra laga og reglugerða. Kjósendahópur flokksins er hins vegar mjög fylgjandi.
Efnahagsleg áhrif þessarar stefnu gætu auðveldlega orðið aukin misskipting og auðsöfnun fárra. Sú stefna er reyndar nánast grímulaus í stefnunni.
Samfélagslega gæti stefnan orsakað slæma hluti. Bilið milli þeirra sem eiga og eiga ekki getur breikkað verulega og það veldur ástandi sem a.m.k. stór hluti kjósenda vill ekki.
Tæknilegar lausnir eru tæplega nefndar. Einkaframtakinu er ætlað að bjarga öllu.
Þegar stefnan er skoðuð í heild er fátt sem hönd á festir nema ákveðin stefna um einkaframtak sem geranda í umhverfis og auðlindamálum. Að öðru leyti er tæpt á því að það skuli bregðast við þeim vanda sem blasir við öllum. Það verður því að segjast eins og er, að stefna Sjálfstæðisflokksins er ekki sérstaklega traustvekjandi og væri hægt samkvæmt henni að fara nánast í allar áttir.
Höfundur er meðlimur í grasrótarhópi Landverndar í loftslagsmálum.