Lögvarin einokun, ríkisafskipti að verslun með löglegar vörur og fáránleiki slíkra kerfa í nútímasamfélagi eru ofarlega á baugi í íslenskri umræðu nú um stundir. Fókusinn hefur auðvitað verið á landbúnaðarkerfið eftir að upp komst um atferli Mjólkursamsölunnar við að knésetja samkeppnisaðila sína, í þágu Auðhumlu og Kaupfélags Skagfirðinga á kostnað neytenda, og niðurstöðu Eftirlitsstofnunnar EFTA þess efnis að bann við innflutningi á fersku kjöti til landsins væri andstætt EES-samningnum.
Það sem gerir slíkt bann auðvitað enn fáránlegra er að það er skortur á nautakjöti í landinu, vegna þess að eigendur nautgripa vilja frekar nota þá við mjólkurframleiðslu fyrir einokunarrisann Mjólkursamsöluna en til steikargerðar. Vandamálin tvö tala því saman.
Áfengisverslun ríkisins
En sérkennilegheit einokunar einokunar vegna hefur fleiri birtingarmyndir en íslenska landbúnaðarkerfið. Einkasala íslenska ríkisins á áfengi, sem staðið hefur yfir í 92 ár og er nú, vonandi, ógnað meira en nokkru sinni áður, er ekki síður einkennileg ráðstöfun.
Áfengi er lögleg vara. Misnotkun vörunnar veldur vissulega miklum samfélagslegum skaða og nauðsynlegt er að aðgengi að vörunni sé takmarkað með aldursviðmiðum. Það er raunar eitt af þremur markmiðum laga um verslun með áfengi, sem sett voru árið 2011, að „takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu“.
Nú skulum við skoða hvernig þessu markmiði er framfylgt. ÁTVR rekur 48 vínbúðir um land allt. Það eru 19 fleiri verslanir en Bónus, langstærsta matvörukeðja landsins, rekur á landsvísu. Frá árinu 1986 hefur verslunum ÁTVR fjölgað um 35. Á síðustu árum hefur opnunartími flaggskipsverslanna verið lengdur til klukkan 20 á völdum virkum dögum og til klukkan 18 um helgar. ÁTVR auglýsir auk þess verslanir sínar grimmt í völdum íslenskum fjölmiðlum undir því yfirskini að um sé að ræða hvatningu til landsmanna um að muna eftir skilríkjunum þegar þeir mæta í ríkið.
„ÁTVR rekur 48 vínbúðir um land allt. Það eru 19 fleiri verslanir en Bónus, langstærsta matvörukeðja landsins, rekur á landsvísu. Frá árinu 1986 hefur verslunum ÁTVR fjölgað um 35.“
Það er fjarstæðukennd röksemdarfærsla. Lög segja skýrt að einstaklingar þurfi að vera 20 ára gamlir til að mega kaupa áfengi í vínbúð. Þetta vita nær allir landsmenn og ef svo ólíklega vill til að þessi staðreynd komi einhverjum á óvart þá mun viðkomandi einfaldlega komast að því þegar hann reynir að kaupa sér drykkjarföng, hafi hann ekki aldur til. Þessar auglýsingar, sem ÁTVR viðurkennir í ársskýrslu sinni að séu í „léttum dúr“, eru ekkert annað en auglýsingar fyrir vínbúðirnar til að vekja athygli á tilurð þeirra. Það að fyrirtæki í eigu ríkisins geri slíkt undir fölsku flaggi, og í andstöðu við meginmarkmið laga um starfsemi þess, er ótrúlega sérstakt.
Allir mega auglýsa... nema íslensk fyrirtæki
Það eru nefnilega lög í landinu sem banna áfengisauglýsingar. Þau eru samin í anda þeirrar samfélagsgerðar sem var við lýði á eftirstríðsárunum og taka ekki tillit til hluta eins og alþjóðavæðingar og internetsins. Hver einn og einasti nútímamaður sér aragrúa áfengisauglýsinga á hverjum einasta degi. Hann sér þær þegar hann fylgist með erlendum fótboltaleik, flakkar um internetið, spilar leiki í snjallsímanum sínum, les erlend tímarit/dagblöð eða horfir bara á einhverjar þeirra erlendu sjónvarpsstöðva sem íslensk fjarskiptafyrirtæki selja aðgang að og skipta tugum.
„Bannið kemur líka í veg fyrir að þeir frábæru framleiðendur íslensks gæðabjórs, sem sprottið hafa upp eins og gorkúlur undanfarin misseri samhliða bættri áfengisneyslumenningu Íslendinga, geti auglýst, og þar af leiðandi keppt, á jafnréttisgrundvelli við bragðlitlu þunnildin sem alþjóðlegir bjórrisar auglýsa í gríð og erg allstaðar þar sem athygli íslenskra neytenda er utan íslenskra fjölmiðla.“
Það sem áfengisauglýsingabannið gerir er að láta stærstu innlendu framleiðendur áfengis framleiða áfengislausa bjóra í alveg eins umbúðum og hina áfengu, sem grunlausir túristar kaupa síðan í misgripum fyrir alvöru, svo þeir geti auglýst bjórinn sem áfengislausan og komist þannig framhjá lögunum. Bannið kemur líka í veg fyrir að þeir frábæru framleiðendur íslensks gæðabjórs, sem sprottið hafa upp eins og gorkúlur undanfarin misseri samhliða bættri áfengisneyslumenningu Íslendinga, geti auglýst, og þar af leiðandi keppt, á jafnréttisgrundvelli við bragðlitlu þunnildin sem alþjóðlegir bjórrisar auglýsa í gríð og erg allstaðar þar sem athygli íslenskra neytenda er utan íslenskra fjölmiðla. Og bannið kemur auðvitað í veg fyrir að íslenskir fjölmiðlar hafi af því tekjur að auglýsa löglega vöru.
Tóbakið borgar fyrir vínbúðirnar
Til hvers er þá einokun á áfengissölu ef ÁTVR er hvorki að draga úr aðgengi né að stuðla að forvörnum? Er það kannski vegna þess að ríkisverslanirnar skila svo miklum hagnaði í ríkiskassann? Nei, það stenst heldur ekki skoðun.
Á árinu 2013 fékk ríkissjóður 22,5 milljarða króna vegna áfengis- og tóbakssölu. Þar af runnu 21,5 milljarðar króna, brúttó, í ríkissjóð vegna áfengisgjalds, magngjalds tóbaks og virðisaukaskatts þeirra vara sem ÁTVR selur. Um einn milljarður króna er arðgreiðsla frá ÁTVR vegna rekstrarafgangs fyrirtækisins.
„Kjarninn leitaði í sumar eftir upplýsingum hjá ÁTVR um hver kostnaður fyrirtækisins af tóbakssölu sé. Stjórnendur fyrirtækisins, sem er í eigu skattgreiðenda, vildu ekki gefa það upp.“
Fyrir mörgum væru þetta nægjanleg rök. Betra væri að þessi milljarður lendi hjá ríkinu en smásölukeðjunum sem myndu taka við sölu á þorra áfengis ef sala þess yrði gefin frjáls. En svo virðist sem þessi milljarður króna sé alls ekkert tilkominn vegna áfengissölu, heldur vegna tóbakssölu. Langstærstur hluti kostnaðar ÁTVR er vegna áfengissölu, enda kostar skildinginn að reka 48 verslanir um allt land og ráða starfsfólk í þær allar. Tóbakssalan útheimtir hins vegar nánast ekkert umstang. Öll tóbaksdreifingin er á sama stað og miðlæg. Kjarninn leitaði í sumar eftir upplýsingum hjá ÁTVR um hver kostnaður fyrirtækisins af tóbakssölu sé. Stjórnendur fyrirtækisins, sem er í eigu skattgreiðenda, vildu ekki gefa það upp.
Einfaldur hugarreikningur sýnir þó að vörunotkun tóbaks var 7,7 milljarðar í fyrra. Uppistaðan í þeirri greiðslu er tóbaksgjald, 5,5 milljarðar króna, sem fara beint til ríkisins. Þegar vörugjald tóbaks er dregið frá tekjum fyrirtækisins sitja 1,4 milljarðar króna eftir, sem er hærri upphæð en ÁTVR greiddi ríkinu í arð í fyrra. Því virðist liggja fyrir að sá hagnaður sem ÁTVR sýnir fram á sé allur vegna sölu á tóbaki og að sala á áfengi líkt og ÁTVR framkvæmdir hana sé ekki arðbær. Raunar niðurgreiðir tóbaksbisnessinn áfengissöluna til viðbótar við að borga allan arð til ríkisins vegna starfsemi ÁTVR.
Ríki í ríkinu
Það kostar 2,8 milljarða króna á ári að reka ÁTVR. Þorri þess kostnaðar er húsnæðis- og launakostnaður. Til viðbótar eyðir fyrirtækið um 200 milljónum króna í dreifingar- og markaðskostnað, 259 milljónum í stjórnunar- og skrifstofukostnað og 54 milljónum í „annan kostnað“. Starfsmenn ÁTVR fóru í 46 utanlandsferðir í fyrra (náms- og kynningarferðir starfsfólks, ráðstefnur ofl.)og ferðakostnaður þess var 19,8 milljónir króna . Auk þess eyddi ÁTVR 15,3 milljónum króna í „gjafir og risnu“. Það er því skiljanlegt að þeir sem stýra þessum rekstri vilji halda partýinu áfram.
Sérstaklega þar sem það er engin stjórn yfir stofnuninni (ÁTVR er skilgreind sem stofnun í lögum). Slík stjórn hefur ekki verið til staðar í nokkur ár heldur heyrir fyrirtækið beint undir fjármálaráðherra. Yfirstjórn ÁTVR, sem samanstendur af forstjóra og framkvæmdastjórum, tekur þess í stað allar ákvarðanir tengdar rekstri ÁTVR. Þetta fyrirkomulag er ekki fyrir hendi í neinu öðru ríkisfyrirtæki. Ríkið er sannarlega ríki í ríkinu.
Kerfið er til fyrir kerfið
Í ljósi alls þessa er rökrétt að spyrja fyrir hvern þetta fyrirkomulag er? Það er að minnsta kosti ekki til þess að minnka aðgengi, í forvarnartilgangi, fyrir íslenska framleiðendur, fjölmiðla eða vegna þess að enginn annar getur sinnt þessu söluhlutverki. Það er ekki til fyrir ríkissjóð vegna þess að það er ekki einu sinni arðbært.
Eina sýnilega niðurstaðan er sú að kerfið sé til fyrir þá sem starfa innan þess og þann kredduhóp innan stjórnmálastéttarinnar sem lítur niður á getu almennings til að taka vitrænar ákvarðanir.