Grein þessi er rituð sem viðbragð við áætlunum sérkennslustjóra í fleiri en einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Starfsfólk leikskóla er oftar en ekki með litla reynslu af því að annast ung börn enda einkennir gríðarleg starfsmannavelta þessa mikilvægu vinnustaði. Dæmi eru um leiðbeiningar til starfsfólks um viðbrögð við reglubundnum skapofsaköstum tiltekins barns, sem jafnvel eru hengdar upp á vegg og barnið nafngreint. Þar er mælt með jákvæðri styrkingu hegðunar með því að hrósa og sýna ástúð og athygli aðeins þegar barn á það skilið. Þegar barnið hins vegar sýni óæskilega hegðun beri starfsfólki að halda aftur af athygli sinni og viðbrögðum og senda barnið í einveru í tiltekinn tíma. Sem dæmi um orðalag er: „Ekki sýna honum frekari athygli eða segja neitt meira við hann.“ „Ekki segja neitt þegar time-out lýkur, bara „nú skulum við koma inn“. Ekki tala neitt um hvort hann sé tilbúinn eða ræða atvikið sem átti sér stað.“
Það er ekki að undra að starfsmannavelta sé mikil þegar ungu starfsfólki er leiðbeint á þennan hátt. Stórt sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu hefur að auki stefnu sem er á þessa lund, með SMT-skólafærni svokallaðri og jafnframt er einvera kennd foreldrum sem eru oftar en ekki á barmi örvæntingar í leit að styrkingu og góðum ráðum og leita til heilsugæslunnar í PMTO-foreldrafræðslu. Til að taka það strax fram er þessum aðferðum mótmælt með öllu sem ómannúðlegum og vísindalega órökstuddum. Förum nánar yfir það.
Einvera, eða „time-out”, er stytting á orðalaginu „time-out from positive reinforcement.“ Aðferðin varð til eftir rannsóknir á tilraunadýrum og B.F. Skinner var hugmyndasmiðurinn. Stundum var dúfum refsað með því að fá ekki lengur mat eða með því að slökkva ljósin til að sjá hvort það myndi útrýma óæskilegri hegðun að mati rannsakenda á borð við að gogga. Fljótt var þessari aðferð beitt alveg án aðgreiningar. Jafnvel uppeldisfræðingar sem hefðu hryllt sig við tilhugsunina um að beita börn sömu aðferðum og dýrum á rannsóknarstofum mæltu með þessari aðferð við foreldra af offorsi – og margir gera það enn í dag – þrátt fyrir að eiga að heita menntaðir og vera með gráður í að annast börn.
Hegðunarsérfræðingar á borð við B.F. Skinner töldu börn vera alveg eins og dýr og að hegðun væri yfirborðskennd. Grundvallarreglur lærdóms hjá börnum væru alveg þær sömu og hjá dýrum. Og kallar það á að beita grunnhyggnum og skaðlegum aðferðum? Vísindalega er sannað að barn lærir hraðast í leik, þarf aðeins 10-20 endurtekningar, á meðan annar lærdómur krefst um 400 endurtekninga. Og grunnskilyrði leiks er tilfinningalegt öryggi. Það er því grundvallarskilyrði að barn upplifi öryggi á vinnustað sínum og heimili.
Margir myndu spyrja sig: Virkar time-out aðferðin? En þá þarf að spyrja sig: Virkar til hvers? Skammtímaafleiðingar eru eitt og langtímaafleiðingar eru annað. Ef við horfum á óttann í augum barns sem er hótað að vera sent afsíðis eða skilið eftir eitt, þá sjáum við að þetta er refsing, sama hvað hver segir. Grunnþörf barns – og fullorðinna – er að tilheyra.
Leið barnsins til að tengja við umheiminn, eða frumspekileg stefnumörkun, mótast að mestu áður en barnið verður fimm ára gamalt. Barn sem er alið upp í atferlisstefnu, svo sem að það fari í time-out ef það slær annað barn, lærir ekki á aðstæður heldur lærir það einna helst á viðbrögð þeirra fullorðnu. Vilji barnið forðast sársauka þurfi það að læra inn á og ná tökum á að standast væntingar fullorðna fólksins.
Nútíma rannsóknir – og reyndar miklu mun eldri einnig – sýna svart á hvítu skaðsemi refsiviðurlaga þar sem barni er neitað um athygli og umhyggju ef hegðunin þóknast ekki þeim sem öllu ráða: fullorðna fólkinu.
Dr. Gabor Maté segir: „Þú verður ekki fyrir áfalli af því að særast, þú verður fyrir áfalli því þú ert einn með sársaukann.“
Barn er mjög ungt þegar það getur gert greinarmun á réttri og rangri hegðun. Barn veit þegar það er ekki að hegða sér á „réttan máta”. Það getur þó ekki betur á tilteknum augnablikum og nútíma rannsóknir á heilaþroska útskýra það fullkomlega, því barn er með afar lítinn framheilaþroska og starfar því mest í gamla heilanum – krókódílaheilanum svonefnda, þar sem ótti/flótti er grunnviðbragð og tilfinningar ráða för.
Og hvað virkar þá í staðinn?
Tengsl – athygli – ástúð og stuðningur – og heilbrigð mörk
Ef barn er að leika sér á óhentugan máta við önnur börn gæti verið ráð að segja: „Jón, ég get ekki leyft þér að slá vin þinn. Komdu og sestu hérna hjá mér. Við skulum taka okkur smá pásu saman, þú og ég.“
Þá eru skilaboðin: Ég er með þér í liði, við erum saman að taka pásu. Ekkert sem þú gerir slær mig út af laginu. Mér líkar alltaf vel við þig.
Við þetta, sem má nefna „time-in,“ situr hinn fullorðni hjá barninu og sýnir samkennd annað hvort með þöglu augnsambandi, með því að tala mjúklega við barnið og viðurkenna tilfinningar þess eða ræða upplifun barnsins. Barninu er boðið knús og þiggur það ef til vill þegar það hefur jafnað sig. Þegar á þann tímapunkt er komið er dásamlegt að sjá inn í augu barnsins sem lýsa einlægu þakklæti yfir stuðningnum sem það upplifir.
Svo er það að nefna að undir óæskilegri hegðun býr alltaf tilfinning og/eða skortur á færni. Börn gera vel þegar þau geta, ekki þegar þau vilja. Ef það væri spurning um hið síðarnefnda myndi barn aldrei velja einveru fram yfir að tilheyra hópnum.
Þá er mikilvægt að bregðast ekki of sterkt við hegðun sem við metum óæskilega, því sterk viðbrögð okkar eru ógnvekjandi frá sjónarhóli barns. Börn skynja vel reiði, pirring og óþolinmæði fullorðinna og lesa mun meira úr svipbrigðum og raddblæ en orðavali. Þess vegna er mikilvægt að breyta hugarfari sínu og gott að hugleiða möntrurnar: „Börn gera vel þegar þau geta” og „Barnið er ekki að reyna að gera mér erfitt fyrir, barnið á erfitt” og anda djúpt áður en farið er í hvers konar inngrip. Ef barnið fær of sterk viðbrögð við óæskilegri hegðun gæti það styrkt hegðunina jafnvel þótt viðbrögðin séu neikvæð.
Aldrei skal láta barn afskipt í miðju æðiskasti heldur halda áfram að vera hjá því og jafnvel staðfesta að því líði illa og jafnvel hvers vegna svo sé: „Þú ert mjög reiður,“ „það er mikilvægt fyrir þig að....“
Barn lærir að hemja tilfinningar sínar með því að láta einhvern annan hemja þær fyrir sig, einhvern sem skilur, einhvern sem getur haldið ró sinni, einhvern sem skammar það ekki fyrir að líða og láta eins og því líður og einhvern sem þykir tilfinningar þess aldrei vera of miklar eða stórar.
Og hvað gerist í framhaldinu? Barninu fer að líða betur í umhverfi sínu heima fyrir og/eða á leikskólanum og fer sjaldnar í ótta/flótta hugarástand. Það veit að það fær hlustun og skilning hjá fullorðna fólkinu og getur leikið sér betur og meira og látið sér lynda betur við vini sína.
Mikið væri nú ágætt ef foreldrar eða starfsfólk sem ekki vill láta svona verklag yfir börnin ganga þyrfti ekki að heyja baráttur við skólayfirvöld. Við viljum geta treyst því að sérkennslustjórar, skólastjórar, deildarstjórar og allir sem koma að því að fræða foreldra og starfsfólk leikskóla og skóla til að styrkjast í hlutverki sínu leiti ávallt að virðingarríkustu og best rannsökuðu leiðinni sem fær er hverju sinni. Við erum nú þegar búin að ákveða með lögum að börn eiga að njóta vafans. Tökum það alla leið, sem samfélag sem hlúir að og gætir hagsmuna barna á mikilvægustu æviárum þeirra.
Höfundar sjá meðal annarra um hlaðvarpið Virðing í uppeldi.
Byggt á:
Alfie Kohn - Unconditional Parenting
Dr. Ross Greene - The Explosive Child
Joanna Faber, Julie King - How To Talk So Little Kids Will Listen and Listen So Little Kids Will Talk
Dr. Gabor Maté, dr. Gordon Neufeld - Hold On To Your Kids
Rosslyn Ross - The Objectivist Parenting
Dr. Daniel Siegel - The Whole Brain Child
Philippa Perry - The Book You Wish Your Parents Had Read
Dr. Stephen Porges - The Polyvagal Theory