Bandaríska verslanakeðjan Costco ku hafa raunverulegan áhuga á að hasla sér völl á Íslandi. Fréttir af áhuga smásölurisans fóru sem eldur um sinu í fjölmiðlum landsins þegar af honum fréttist, enda renna margir hýru auga til aukinnar samkeppni á smásölumarkaðnum hér á landi og meira frelsis í viðskiptum.
Costco vill nefnilega ekki bara selja okkur grillaða kjúklinga, barbecue-sósur í tveggja lítra flöskum eða golfsett, heldur sömuleiðis áfengi, lyf, eldsneyti og ferskt innflutt kjöt frá Bandaríkjunum. Fyrirætlanir, eða öllu heldur langanir, fyrirtækisins urðu til þess að margir beinlínis hváðu. Þeim fannst skiljanlega algjörlega óhugsandi, með tilliti til sögunnar, að þjóðin sem byggir þetta litla kreppta land myndi nokkru sinni láta hvarfla að sér að slaka á reglufarganinu. En til þess að áform bandarísku verslanakeðjunnar geti gengið eftir þarf að ráðast í umtalsverðar og löngu tímabærar breytingar á áfengis-, lyfja- og matvælalöggjöfinni og landbúnaðarkerfinu.
Það er ekki laust við að maður hafi fyllst barnalegri bjartsýni þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði í sjónvarpsfréttum RÚV í síðustu viku: „...það eru augljóslega atriði sem þarf að greiða úr, en á meðan þeir (Costco) sýna þessu eins mikinn áhuga og mér finnst þeir gera, þá erum við á þessum enda tilbúin til að gera það sem í okkar valdi stendur til að greiða úr þeim úrlausnarefnum sem fyrir hendi eru.“
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_10/4[/embed]
Ógeðslega hráa kjötið frá útlöndum
Maður gat heyrt langar leiðir hvernig gömlu og skilvirku áróðursvélarnar voru gangsettar, eins og alltaf þegar talið berst að mögulegum innflutningi á ferskum kjötvörum til landsins. Eins og þeirra er von og vísa kappkosta „vélarnar“ við að hamra á því að kjötið frá útlöndum sé hrátt, ekki ferskt, enda hrátt kjöt mun ólystugra kjöt í hugum neytenda en ferskt kjöt. Þetta vita vélarnar, alveg eins og þær vita mæta vel að kjötið sem við flytjum út í stórum stíl til útlanda er sömuleiðis hrátt og sömuleiðis ferskt. Svo virðist andstaða við hrátt kjöt vera háð duttlungum, því að stundum finnst mönnum ekkert að því að flytja það inn, pakka í íslenskar umbúðir og selja sem ferskt íslenskt kjöt.
Það hefði verið gaman ef maður hefði haft vit á því að setja skeiðklukkuna í gang, eftir að fréttist af áhuga Costco, til að mæla viðbragðsflýti hagsmunaaðila. Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, lét að því liggja að innflutningur á fersku kjöti til landsins gæti beinlínis orðið þjóðinni aldurtilla. Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 sagði hún: „...viljum við fórna því, að spara kannski einhverjar krónur í hráu innfluttu kjöti, gegn heilsuleysi síðar á ævinni? Ég segi nei takk.“ Þegar fréttamaðurinn spurði Sigrúnu hvort það ætti ekki bara að leyfa neytendum að hafa sitt val um það var svar hennar einfalt og ósjokkerandi: „Nei.“ Enda hefur Framsóknarflokkurinn fyrir löngu öðlast svart belti í hræðsluáróðri hvers háttar.
Auk þessa skrifaði þingflokksformaðurinn grein í Fréttablaðið þar sem hún kveðst lafhrædd við smitsjúkdómahættu vegna óhefts innflutnings á „hráu“ kjöti frá löndum sem allir vita að meðhöndli dýr með allt öðrum hætti en sé gert hér á landi? Er Íslendingum ómögulegt að ráðast í breytingar á stöðnuðu kerfi án þess að hér fari allt til andskotans? Er ekki hægt að liðka til án þess að slaka á gæðakröfum?
Bjartsýni sem ekki reyndist innistæða fyrir
Eins og við var að búast hefur iðnaðar- og nýsköpunarráðherra síðan dregið í land, enda fátt nýtt í því að Sjálfstæðisflokkinn skorti þor til að gera þarfar og löngu tímabærar breytingar á lögum hérlendis, neytendum til hagsbóta.
En ekki sáu allir yfirvofandi skammlífi og hörmungar fyrir íslenska þjóð samfara Costco. Samtök verslunar og þjónustu fögnuðu mögulegum lagabreytingum með tilkomu smásölurisans, enda hafa samtökin lengi barist fyrir nauðsynlegum breytingum á lagaumhverfi smásölunnar.
Það olli hins vegar töluverðum vonbrigðum að heyra Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann Samtaka iðnaðarins, stilla málinu þannig upp að það væri furðulegt ef íslensk stjórnvöld væru allt í einu reiðubúin að kollvarpa „kerfinu“ um leið og bandarísk verslanakeðja bankaði upp á. Auðvitað felast tækifæri fyrir alla á íslenskum markaði ef ráðist verður í breytingar á starfsumhverfi smásala. Málið snýst líka ekkert bara um Costco, heldur þarfar breytingar sem ráðast þarf í fyrir alla sem sinna smásölu í landinu.
Því miður er Ísland gróðrarstía fákeppni, frændhygli, þjóðernisgorgeirs, hagsmunagæslu og kunningjanudds. Það er óþolandi að við völd í landinu séu annars vegar flokkur sem kennir sig við frjálshyggju, sem skortir allt þor til breytinga í átt að auknu frelsi, og hins vegar stjórnmálaflokkur sem komst til valda með því að lofa kjósendum peningum sem þeir áttu ekkert tilkall til. En við það búum við í dag. Stjórnmálamenn munu áfram verja hagsmuni fárra á kostnað margra.
Miðað við viðbrögð ráðamanna við umleitunum Costco er í það minnsta ekki hyggilegt að veðja háum fjárhæðum á að breytingar séu í nánd.