Úti er nístandi kalt og rok, það má líkja veðrinu við starfsskilyrði íslenskra blaðamanna.
Þá sérstaklega blaðamanna á sjálfstætt starfandi, einkareknu miðlunum Kjarnanum og Stundinni; miðlum sem eru ekki reknir af hagsmunaöflum en fá þó ólíkt minna af opinberum fjölmiðlastyrkjum en stærri fjölmiðlar. Og spjótin hafa líka beinst að ákveðnum frétta- og þáttargerðamönnum hjá RÚV – sem þurft hafa að sitja undir ásökunum, aðdróttunum og hótunum. Sem linnir ekki fyrr en þeir hætta ... og samfélagið missir enn einn reynda blaðamanninn á miðli með mikilvæga útbreiðslu.
Þessir blaðamenn lýsa upp heiminn fyrir okkur, á hverjum degi, og gera það af heilindum og heiðarleika, knúnir áfram af engu nema köllun starfs síns. Vinna samkvæmt siðareglum fags síns sem þýðir, eðli málsins samkvæmt, að þeir geta ekki sneitt hjá óþægilegum fréttum eða efni sem getur sett tilveru þeirra í hættu. Starf þeirra felst að miklu leyti í því að benda á það sem miður fer í samfélaginu. Þeir elta staðreyndirnar.
Síðustu árin, frá Hruninu, hefur verið stunduð svo öflug blaðamennska á Íslandi að hún hefur umbreytt heimsmynd okkar á eins ólíkum sviðum og í kynferðismálum, pólitískum spillingarmálum, siðlausum viðskiptaháttum, umhverfismálum, samskiptamenningu okkar, heilbrigðis- jafnt sem hamfaramálum – og svo má lengi upp telja.
Það sem sá voldugi veit
Þessir þrír áðurnefndu fjölmiðlar hafa átt stóran þátt í lýsa upp hvert stóra fréttamálið á fætur öðru og greina það fyrir okkur. Sum þessara mála hafa kallað á afsagnir valdamikils fólks, önnur þeirra haft dramatísk áhrif á skilning samfélagsins á menningu sinni. Og einmitt þess vegna sitja þessir sömu miðlar undir stöðugum árásum af ýmsum toga. Ærumeiðandi aðdróttunum, tilraunum til þöggunar, hótunum um stefnur ... og oft er þeim stefnt, jafnvel þó sá sem viti að stefnan hafi ekki annað upp á sig en að sjúga úr blaðamönnunum þrek, tíma og peninga. Því oftar sem þeim er stefnt, því þreyttari verða þeir, hugsar sá sem á nóga peninga til að finna ekki fyrir málarekstrinum sjálfur.
Sá veit líka að almennt er starf fjölmiðlamanns er bæði illa greitt, miðað við alla ábyrgðina og álagið, og óöruggt. Hann veit, hafi hann lesið fjölmiðla, að það hefur verið hættulega mikill flótti úr stétt fjölmiðlafólks síðustu árin. Veit að það margborgar sig fyrir fjölskyldufólk að vera hinum megin borðsins. Þar sem er engin hætta á að hálaunað pr-fólk fari að bisast við að hafa af því æruna eða að stefna berist með jólakortunum á Þorláksmessu.
Bara af því að blaðamaðurinn birti staðreyndir. Birti það ... sem er.
Lungu lýðræðisins
Í samfélagi á að heita frjálslynt lýðræði þykir okkur sjálfsagt að geta lesið fréttir og fréttaskýringar á hverjum morgni. Sjálfsagt að hafa aðgang að upplýsingum nógu traustum til að við getum fabúlerað út frá þeim á samskiptamiðlum og speglað skoðanir okkar. Upplýsingum sem fagmannlegar ritstjórnir eru búnar að afla, greina og staðsetja í allri upplýsingaóreiðunni. Út frá þeim getum staðsett okkur sjálf, veruleika dagsins í flóknu samhengi. Svo lengi sem það er sjálfsagt, þá búum við í frjálslyndu lýðræði. Daginn sem við hættum að geta treyst því, þá er virkni lýðræðisins ekki lengur sú sem hún á að vera.
Fjölmiðlar eru æðri okkur af því að þeir eru lungu lýðræðisins. Þess vegna eru starfsreglur þeirra, prinsipp og fagmannleg virkni eitthvað sem við þurfum öll að virða, skilja og stuðla að. Þeir hagsmunir eru, og verða að vera, ofar öðrum. Og það verður stjórnmálafólk að muna. Að pólitískir hagsmunir þess mega ekki yfirskyggja hagsmuni samfélagsins. Heilbrigða og margslungna fjölmiðlun.
Það er leiðinleg lenska margra íslenskra stjórnmálamanna, bæði til vinstri og hægri og þar á milli, að tala niður fjölmiðla sem eru þeim ekki þóknanlegir. Og hættuleg. Hún ber vott um bæði grunnhyggni og skilningsleysi sem ráðamenn geta ekki leyft sér. Í fordæmisgefandi valdastöðu.
Stjórnmálafólk verður að muna að mikilvægi þess er aðeins tímabundið en gildi tjáningar- og fjölmiðlafrelsis er eilíft.
Á Hallgrímur Teslu?
Það er ekki líðandi, í lýðræðislegu samfélagi, að voldugt útgerðarfyrirtæki borgi pr-fólki fyrir að fara í áróðursherferðir gagnvart borgurunum. Eins og að njósna um hvort Hallgrímur Helgason eigi Teslu svo hann geti þá skammast sín fyrir að hafa þegið starfslaun rithöfunda ... eða plotta að draugapennar matreiði opinberlega efasemdir um andlegt heilbrigði fréttamanna. Eða að það sé njósnað um Helga Seljan.
Það er árás á friðhelgi einkalífsins. Og um leið árás á lýðræðið.
Svo lengi sem voldugir aðilar borga lukkuriddurum meira en nokkur blaðamaður fær fyrir erfiða rannsóknarvinnu ágerist flóttinn úr fjölmiðlastéttinni og pr-ið síast inn í kerfið. Inn í stjórnmálin. Inn í veruleikann. Um leið og staðreyndirnar mást út. Og upplýsingaóreiðan bíður upp á upplýsingaval. Allsherjar skrumskælingu.
Skrumskælingu eins og að horfa upp á fjóra þrautreynda blaðamenn með stöðu sakbornings, þrátt fyrir mikilvæg ákvæði í lögum sem eiga að vernda andrými þeirra til að afla upplýsinga og vernda heimildarmenn sína. Sökin: Að hafa unnið úr upplýsingum sem eiga erindi til almennings og birt þær.
Já, þetta er vanþakklátt starf, laun samfélagsins þessi.
Að sofa hjá í síðasta skipti
Þú veist ekki hvenær þú sefur hjá í síðasta skipti.
Og þú veist ekki hvenær þú kýst í síðasta sinn í raunverulega frjálsum kosningum – skrifaði bandaríski prófessorinn Timothy Snyder í bókinni Um harðstjórn – sem hefur að geyma tuttugu ráð fyrir hinn almenna borgara til að halda lífi í frjálslyndu lýðræði. Eitt ráðið – eða siðferðislega skyldan – er að leggja sitt af mörkum til að vernda frjálsa fjölmiðlun. Styrkja og kaupa sjálfstæða, einkarekna fjölmiðla. Verja starfsköllun- og skyldur fréttamanna, hvort sem þeir eru á einkareknum miðlum eða á RUV.
Þegar þú leggur þitt að mörkum til að vernda frjálsa fjölmiðlun þá ertu að vernda þig. Börnin þín. Samfélagið okkar. Lýðræðið.
Ég enda þetta með að vitna í bókina Harðstjórn, kaflann Trúið á sannleikann. „Þegar maður varpar staðreyndum fyrir róða varpar maður frelsinu fyrir róða. Ef ekkert er satt getur enginn gagnrýnt vald, því að þá er enginn grundvöllur fyrir því að gera það. Ef ekkert er satt er allt tómt sjónarspil. Stærsta veskið borgar fyrir skærustu ljósin.“
Pistillinn er ræða sem flutt var í mótmælum gegn ofsóknum gagnvart fjölmiðlafólki á Austurvelli laugardaginn 19. febrúar.