Þegar Katrín Jakobsdóttir ákvað að efna til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn árið 2017 litu margir á það sem svik við kjósendur VG. Katrín hafði enda sagt fyrir kosningar að Sjálfstæðisflokkurinn væri höfuðandstæðingur sinnar hreyfingar og að þau boðuðu nýja nálgun á stjórnmál og allt aðra en þá sem ráðið hafði ríkjum á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hélt um stjórnartaumana.
Eftir kosningar gripu Katrín og flokksfélagar hennar til ýmissa útskýringa til að réttlæta þessi sinnaskipti, þar á meðal að þau hafi nú aldrei beinlínis lofað því að fara ekki í ríkisstjórnarsamstarf með yfirlýstum höfuðandstæðingi sínum í stjórnmálum.
Helsta réttlæting Katrínar og félaga fyrir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda var á þá leið að tilgangurinn helgaði meðalið – því með samstarfinu stæði til að byggja upp traust í samfélaginu og efla innviði ásamt því að tryggja pólitískan, félagslegan og efnahagslegan stöðugleika.
Sáttmálinn sem réttlætti samstarfið
Stjórnarsáttmálinn fékk titilinn „Sáttmáli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis“ sem Katrín sagði til marks um að hann snerist ekki einungis um framkvæmdarvaldið heldur einnig um einbeittan vilja þessara stærstu flokka á þingi til að efla Alþingi, auka hlutverk þess og aðkomu að málum sem mikilvægt er að skapa þverpólitíska sátt um.
Í stjórnarsáttmálanum var samstarf flokkanna þriggja sagt „spanna hið pólitíska litróf“ og með því yrði freistað að „slá nýjan tón“ í ríkisstjórn sem myndi nálgast verkefni sín „[…] með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess.“ Þessi nýju vinnubrögð áttu meðal annars að felast í auknu samráði, bættum samskiptum og auknu samstarfi milli flokka á Alþingi. Sérstaklega var tekið fram að auka ætti sjálfstæði þingsins.
Nú þegar nýtt kjörtímabil er hafið kveður við nýjan tón í stjórnarsáttmála flokkanna þriggja. Öll fyrirheit um eflingu Alþingis, aukna samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu og markmið um að byggja upp traust á stjórnsýslunni og stjórnmálum eru horfin. Sem kallar óhjákvæmilega á spurninguna, hvers vegna?
Efling trausts á stjórnmálum
Eitt af fyrstu verkum Katrínar Jakobsdóttur sem forsætisráðherra var að skipa starfshóp um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Hópnum var ætlað að kortleggja „hvaða þættir hafa áhrif á traust á stjórnmálum og stjórnsýslu og hvernig hægt sé að vinna markvisst að því að auka það.“
Skýrsla starfshópsins kom út um mitt ár 2018 og þar mátti finna margvíslegar tillögur um aðgerðir sem grípa mætti til svo auka mætti traust á stjórnmálum og stjórnsýslu á Íslandi. Þegar Katrín Jakobsdóttir kynnti skýrsluna á Alþingi lýsti hún forgangstillögu starfshópsins um að setja þyrfti svokallaðan heilindaramma sem fæli í sér að ríkisstjórnin og stjórnsýslan „setji sér tiltekinn ramma um viðmið um heilindi í því hvernig við störfum.“ Þannig ætti ríkisstjórnin að setja sér heildarramma um varnir gegn spillingu, viðmið um heilindi og viðurlög við óheilindum til þess að tryggja að almannahagsmunir réðu alltaf för við alla ákvarðanatöku stjórnvalda. Katrín vísaði í umfangsmikla vinnu OECD á þessu sviði sem telur samkomulag um og skilgreiningu á heilindaramma fyrir störf stjórnmálamanna og stjórnsýslu vera lykilatriði í lýðærðissamfélagi.
Í ræðu sinni sagðist Katrín ætla að hlusta vel á þingmenn sem tjáðu sig um efni skýrslunnar því það snerist ekki um að „einhver einn leggi fram tillögur sem síðan eru samþykktar eða þeim hafnað af meiri hluta eða minni hluta heldur snýst þetta verkefni um það að við sem hér störfum saman komum okkur saman um það hvaða ramma við eigum að hafa um okkar störf.“
Fögur fyrirheit vissulega en efndirnar létu á sér standa. Heilindaramminn var aldrei kláraður og raunar hefur ekkert frést af honum frá því 2019 þrátt fyrir að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands telji setningu hans vera „mikilvæga forsendu þess að hægt verði að meta árangur þessarar vinnu með fullnægjandi hætti“
Óvirk hlustun
Kannski hlustaði forsætisráðherrann með mikilli athygli á þær ræður sem eftir komu en með þeim lauk aðkomu stjórnarandstöðunnar að undirbúningi vinnunnar við framkvæmd tillagna starfshópsins.
Stjórnarandstöðunni var aldrei boðið að koma að mótun á þeim tillögum nefndarinnar sem þó urðu að lögum, svo sem lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands eða lög um vernd uppljóstrara. Þá var lítið sem ekkert gert til þess að koma til móts við þær tillögur sem stjórnarandstaðan lagði áherslu á við vinnslu frumvarpanna á þingi og allar breytingartillögur stjórnarandstöðunnar felldar.
Tillögur minnihlutans fólust meðal annars í því að sett yrði á fót sjálfstætt eftirlit með hagsmunaskráningu ráðherra en niðurstaða forsætisráðherrans var að rétt væri að ekkert eftirlit yrði haft með því hvort ráðherrar í ríkisstjórn greindu satt og rétt frá hagsmunum sínum. Og þar við sat.
Nýju vinnubrögðin voru gömlu vinnubrögðin
Stjórnarsáttmálinn 2017 innihélt þó nokkrar málsgreinar yfirfullar af loforðum um stóraukið samráð og samstarf við stjórnarandstöðuna og glæný og fín vinnubrögð sem aldrei hefðu áður sést í íslenskum stjórnmálum. Það kom þó á daginn áður en langt um leið að samráð þýddi að kannski fengi stjórnarandstaðan stuttan fund með tilkynningu um hvað stæði til að gera í hinu eða þessu málinu rétt áður en formenn ríkisstjórnarflokkanna örkuðu af stað á blaðamannafund til þess að tilkynna herlegheitin.
Meirihlutinn lagði sig ekki fram um að fá fram sjónarmið stjórnarandstöðunnar til þess að taka mið af þeim við mótun tillagna sinna. Stjórnarandstaðan fékk aldrei raunverulega aðkomu að ákvarðanatöku stjórnarmeirihlutans. Samráðið breyttist í tilkynningarskyldu sem stundum var staðið við og stundum ekki. Samvinnan breyttist í klassíska sandkassapólitík þar sem aldrei, undir nokkrum kringumstæðum, mátti samþykkja eina einustu tillögu frá stjórnarandstöðunni.
Sorglegustu og jafnframt skýrustu birtingarmynd þessara gamaldags vinnubragða er að finna í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við heimsfaraldri kórónuveirunnar. Ríkisstjórnin óskaði ekki eftir neinni aðkomu stjórnarandstöðunnar, samráði eða samstarfi í því mikilvæga verkefni, hvorki varðandi efnahagslegar aðgerðir stjórnarinnar né vegna sóttvarnarráðstafana, þrátt fyrir augljósan og margítrekaðan samstarfsvilja minnihlutans.
Kannski var það raunverulegur vilji Katrínar að auka samvinnu á milli stjórnar og stjórnarandstöðu þegar stjórnarsáttmálinn var skrifaður. Upplifun okkar sem sátum í stjórnarandstöðu var oft sú að ríkisstjórnarflokkarnir þrír væru sjálfir svo innbyrðis ósammála um hin ýmsu mál að þegar þeim loksins tókst að komast að samkomulagi um hvernig þeim skyldi háttað var nákvæmlega ekkert svigrúm eftir til að hlusta á sjónarmið stjórnarandstöðunnar. Svo brothætt var samkomulagið þeirra á milli á köflum að ekki mátti einu sinni laga augljósa galla á lagasetningu sem stjórnarandstaðan benti á, því þá færi allt úr skorðum sem samið hafði verið um stjórnarmegin.
Efling Alþingis
Á síðasta kjörtímabili var Katrín Jakobsdóttir dugleg að minna á að ríkisstjórninni væri svo mikil alvara með loforði sínu um að efla Alþingi og sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu að loforðið hafi ratað í sjálfan titil stjórnarsáttmálans. En í raun var lítið sem ekkert gert til þess að efla þingið annað en að fjölga starfsmönnum þingflokka og þingnefnda um nokkur stöðugildi. Það var vissulega mikilvægur stuðningur við þingstörfin en hvergi nærri því nóg til þess að styrkja sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu að neinu ráði. Þetta var svolítið eins og að lofa unglingnum á heimilinu að hann fái að ráða sér sjálfur á næsta ári en segja honum síðan að loforðið hafi í raun og veru þýtt að vasapeningurinn hans hækki um þúsundkall, sem gefi honum jú aukið frelsi til athafna.
Ekki voru lagðar fram tillögur að neinum breytingum á þingsköpum til að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar gagnvart stjórninni eða auka getu þingsins til þess að hafa eftirlit og aðhald með framkvæmdarvaldinu. Þvert á móti kvörtuðu ráðherrar og stjórnarliðar sáran yfir fyrirspurnum, skýrslubeiðnum og frumkvæðisathugunum stjórnarandstöðunnar sem miðuðu að þessu, og héldu reglulega ræður um að það yrði að koma einhverjum böndum á allt þetta endemis eftirlit og aðhald. Einn stjórnarliði gekk svo langt að leggja sjálfur fram fjölda fyrirspurna til ráðherra til þess að fá fram hvað allar þessar bölvuðu fyrirspurnir frá stjórnarandstöðunni kostuðu nú mikið af tíma og peningum.
Aðför að eftirlitshlutverki þingsins
Ég var formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á árunum 2019 – 2020 og er því í hópi þeirra sem liggja undir grun um að hafa valdið óánægju meðal stjórnarliða á síðasta kjörtímabili ef marka má orð forsætisráðherra um óánægju með störf nefndarformanna stjórnarandstöðunnar. Raunar er þetta rökstuddur grunur þar sem meirihlutinn bókaði óánægju sína með störf mín endurtekið í formannstíð minni í nefndinni. Ég nefni þetta persónulega dæmi í þessari almennu yfirferð minni vegna þess að þar er að finna eitt ljótasta dæmið um aðför meirihlutans að sjálfstæði þingsins og eftirlitshlutverki þess með framkvæmdarvaldinu.
Í kjölfar Samherjamálsins svokallaða lagði ég til að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd myndi hefja frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, vegna náinna tengsla hans við Samherja og forsvarsmenn þess fyrirtækis. Ráðherrann hafði áður gengist við því að mögulega væri hann vanhæfur til þess að taka ákvarðanir er vörðuðu Samherja vegna náins vinskapar við Þorstein Má Baldvinsson, framkvæmdastjóra og þáverandi höfuðeiganda Samherja. Í kjölfar uppljóstrana fréttaskýringaþáttarins Kveiks um meintar stórfelldar mútugreiðslur og aðra ólögmæta háttsemi kom í ljós að fyrsta verk ráðherrans var að athuga hvernig Þorsteinn Már hefði það og hvað hann vildi eiginlega gera í þessu máli öllu saman.
Tillaga mín um frumkvæðisathugun hlaut stuðning tveggja nefndarmanna í stjórnarandstöðu sem er nóg til þess að hefja slíka rannsókn. Ástæðan fyrir því að ekki þarf samþykki meirihluta nefndarmanna til þess að hrinda frumkvæðisathugun af stað er sú að þannig á að tryggja getu stjórnarandstöðunnar til þess að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu þrátt fyrir að framkvæmdarvaldið vilji helst ekki að slíkt eftirlit fari fram. Andstaðan við rannsóknina meðal stjórnarliða var enda gríðarleg og óvægin og efni í nokkrar greinar í viðbót. En endalok rannsóknarinnar voru ekkert minna en aðför að eftirlitshlutverki Alþingis og varð til þess að ég sagði af mér formennsku í mótmælaskyni. Meirihlutinn tók sig einfaldlega til og bókaði að honum þætti tilgangslaust að halda rannsókninni áfram og hótaði því að beita meirihlutavaldi sínu til þess að stöðva allar tilraunir okkar til þess ljúka henni.
Forsætisráðherra gerði engar athugasemdir við þessa málsmeðferð þrátt fyrir það augljósa og vonda fordæmi sem sett var með þessari bókun. Stjórnarandstaðan leggur til og samþykkir frumkvæðisathugun og stjórnarmeirihlutinn bókar um hæl að honum finnist tilgangslaust að halda henni áfram og þar við situr! Fái þetta rugl að standa, sem það hefur gert hingað til, þýðir það að stjórnarmeirihlutinn hverju sinni getur kæft allt eftirlit í fæðingu.
Kannski, ef það hentar mér, aldrei ef það er óþægilegt
Staðreyndin er sú að öll loforð um ný vinnubrögð, aukin heilindi, eflingu trausts, samráð og samstarf fá að fjúka ef efndirnar skyggja á stjórnarsamstarfið. Dæmin um þetta eru grátlega mörg.
Þegar vantrauststillaga á þáverandi dómsmálaráðherra Sigríði Á. Andersen var lögð fram af stjórnarandstöðunni vegna niðurstöðu Hæstaréttar um ólögmæta skipan dómara í Landsrétt sögðu flokksfélagar Katrínar Jakobsdóttur að forsætisráðherrastóll hennar væri mikilvægari en sannfæring þeirra um að ráðherrann hefði brotið lög og sett heilt dómstig í uppnám.
Þegar Bjarni Benediktsson þverbraut strangar sóttvarnarreglur sem almenningi var gert að gangast undir á jólunum í fyrra sagði Katrín að ríkisstjórnin væri að ná svo góðum árangri saman og því væri ekki hægt að gera kröfu um að Bjarni segði af sér.
Þegar eitt stærsta kosningahneyksli Íslandssögunnar kom til afgreiðslu á Alþingi komst Katrín Jakobsdóttir að þeirri niðurstöðu að styðja hvorki uppkosningu í Norðvesturkjördæmi né á landinu öllu eins og flokkssystir hennar Svandís Svavarsdóttir og hluti stjórnarandstöðunnar lögðu til en ítrekaði mikilvægi þess að „við sem hér sitjum á Alþingi Íslendinga drögum lærdóm af þessu ferli öllu, ekki síst þegar kemur að breytingum á kosningalögum og stjórnarskrá.“
Nýtt upphaf, ný vinnubrögð
Nú þegar ríkisstjórnin hefur endurnýjað heitin eru öll merki um sáttastjórnmál Katrínar Jakobsdóttur endanlega fokin út í veður og vind. Samstarf og samráð við þingið er hvergi að finna í nýjum stjórnarsáttmála. Ný vinnubrögð við eflingu þingsins þjóðinni allri til heilla eru felld út og við blasir nýr og heiðarlegri tónn: Ég á þetta, ég má þetta.
Stjórnarandstaðan fær formennsku í laskaðri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en fleiri fær hún ekki því það er víst „ekkert launungamál“ að ekki hafi ríkt mikil ánægja meðal stjórnarflokkanna með hvernig nefndarstörf gengu fyrir sig í nokkrum nefndum sem stjórnarandstaðan hefði farið með formennsku í. Hvernig þessar dylgjur forsætisráðherra ríma við fyrri yfirlýsingar hennar um mikilvægi samvinnu og sátta er svo rannsóknarefni fyrir bókmenntafræðinga.
Auðvitað getur stjórnarmeirihlutinn tekið sér allar formennskur í nefndum ef hann svo kýs, hann má það vissulega. Hann má líka nota sinn fulla þingstyrk til þess að taka sér aukinn meirihluta í helmingi fastanefnda Alþingis þó enginn annar meirihluti hafi haft geð í sér til þess í nokkra áratugi. Hann má troða heilum þremur sjálfstæðismönnum í Velferðarnefnd. Ríkisstjórnin mátti líka alveg ákveða að hanga aðeins lengur á valdastólunum og halda kosningar að hausti samkvæmt laganna bókstaf þrátt fyrir augljósa og stórkostlega ókosti við slíkt fyrirkomulag.
En það er nákvæmlega ekkert nýtt við þau vinnubrögð.
Höfundur er þingmaður Pírata