Stefán Rafn Sigurbjörnsson, fyrrverandi formaður Ungra jafnaðarmanna.
Í síðustu viku var sagt frá því í Pælingu dagsins í Kjarnanum að Samfylkingin eyði miklu púðri í Evrópusambandið og standi ekki með fólki í kjarabaráttu sinni. Þessi fullyrðing stenst ekki. Það sem af er þessu þingi hafa þingmenn Samfylkingarinnar lítið talað um málefni Evrópusambandsins, nema í tengslum við innleiðingarmál tengdum EES samningnum. Síðastliðinn þingvetur var mikið talað um Evrópusambandið þegar ríkisstjórnin ætlaði að slíta aðildarviðræðum við ESB, þvert á gefin loforð sem tóku málið af dagskrá í síðustu kosningabaráttu árið 2013. Þá var það Samfylkingunni ljúft og skylt að standa í fremstu víglínu gegn viðræðuslitum. 55 þúsund undirskriftir söfnuðust gegn þessum áformum ríkisstjórnarinnar.
Talað fyrir réttlátri tekjudreifingu
Þrátt fyrir umræður um Evrópusambandið á vorþingi þýddi það ekki að Samfylkingin talaði ekki fyrir hagsmunum launafólks líkt og ritstjórn Kjarnans heldur fram í Pælingu dagsins. Fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að lækka veiðgjöld sem Samfylkingin talaði á móti. 35 þúsund undirskriftir söfnuðust gegn þeim breytingum. Við gerð fyrstu fjárlaga ríkisstjórnarinnar var talað gegn þeim undir kjörorðunum: Veikir borga veiðigjöld. Þá átti að taka upp sjúklingaskatt þegar sjúklingar legðust inn á spítala. Í aðdraganda jóla fékkst í gegn að atvinnulausir fengju desemberuppbót, þvert á áform ríkisstjórnarinnar. Lagðar voru til breytingar þannig að tekjuhæsta fólk landsins fengi ekki mestar skattalækkanir. Ef breytingarnar hefðu náð í gegn hefði 5 milljarða skattalækkanir farið í auknu mæli til lág- og millitekjuhópa.
Hærri húsaleigubætur og sanngjarnari skuldaniðurfelling
Á vorþinginu beitti Samfylkingin sér fyrir því að ný lög um umhverfisvernd yrðu ekki felld úr gildi. Að skuldaniðurfellingum yrði dreift með sanngjarnari hætti. Að ríkasta fólk landsins, sem margt hvert hefur hagnast vel á húsnæðiskaupum, fengi minni niðurfellingar. Að niðurfellingarnar myndu í staðinn ná til öryrkja og námsmanna og annarra sem leigja í lokuðum leigufélögum, búseturéttarhafa og til þeirra sem búa í félagslegu húsnæði sveitarfélaga.
Allan síðasta þingvetur var áhersla Samfylkingarinnar á húsnæðismál. Þar fór fremst áhersla á hærri húsaleigubætur (upptaka húsnæðisbóta) og aukið framboð af leiguíbúðum. Þingmenn Samfylkingarinnar spurðu ráðherra ríkisstjórnarinnar ítrekað hvað ætti að gera fyrir þá hópa sem ekki fá niðurfellingar og hvort hækka ætti húsaleigubætur. Var þá sagt að von væri á aðgerðum sem því miður ekkert bólar á.
ESB þvælist ekki fyrir
Í upphafi vetrar lagði þingflokkur Samfylkingarinnar fram þingsályktanir um aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði, fjármögnun nýs Landspítala og bráðaaðgerðir í byggðamálum. Hann bað um skýrslu um stöðu kvenna á vinnumarkaði.
Í ræðu formanns á flokksstjórnarfundi fyrir rúmri viku var lítið fjallað um ESB, en drýgstur hluti þess var þó um þann mikilvæga þátt stéttabaráttunnar að fá laun í gjaldgengum gjaldmiðli. Allt annað efni ræðunnar snerist um kjaramál, jafnt lækna og annarra stétta, stöðu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og frjálsa samkeppni, leikreglur í atvinnulífi og mikilvægi lýðræðislegrar þátttöku.
Það má ekki skilja þessa grein sem svo að Samfylkingin hafi verið ein í þeirri baráttu sem hér er farið yfir. En hún lagði sitt af mörkum. Þrátt fyrir að vera eitt mikilvægasta stefnumál Samfylkingarinnar var ESB ekki að þvælast fyrir kjarabaráttunni þrátt fyrir að Morgunblaðið, og núna Kjarninn, hafi verið duglegt að halda öðru fram.