Fólksfjölgun er fyrst og fremst fátæktarvandamál. En ekki bara það. Eins og ég skýri frá í bók minni Heimurinn eins og hann er blasir við flóknari vandi sem tengist mörgum öðrum álíka flóknum vandamálum. Pælum í þessu:
-Við höfum aldrei framleitt jafn mikið af mat,
-aldrei sóað jafn miklu,
-aldrei gengið jafn freklega á vatn og jörð og aldrei spúð jafn miklu af óhollum efnum út í vistkerfin vegna fæðuframleiðslu,
-aldrei skaðað umhverfi og dýralíf jafn mikið og nú …
… og
-aldrei áður hefur mannkyn þurft að auka framleiðslu matar um helming á örfáum áratugum!
Þessi fullyrðing að tvöfalda þurfi matvælaframleiðslu á stuttum tíma er algeng og virðist byggð á því að matarsóun í ýmsum birtingarmyndum verði viðvarandi. Ef við nýtum betur það sem framleitt er þarf auðvitað ekki alla þessa aukningu. En til að þræða sig gegnum allt það sem fer úrskeiðis í matvælakerfum heimsins þarf einstaka ratsjá. Spáið aðeins í þetta hér:
Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna segir í skýrslu vorið 2021 að mannkyn sói 900 milljónum tonna af matvælum árlega. Svo vill til að heildartala yfir þá sem taldir eru alvarlega vannærðir í heiminum á sama tíma er – nákvæmlega sú sama – 900 milljónir.
TONNI sóað á hvern hungraðan mann!!! Þriðji hver matarbiti sem framleiddur er fer í súginn.
Nóg handa öllum
Við vitum að það er nægur matur í heiminum handa öllum nú þegar: 2.500–2.900 hitaeiningar á mann ef skipt væri jafnt. Aukinn þrýstingur kemur með þeim 2–3 milljörðum sem eiga eftir að bætast við á næstu áratugum (næstum allir í Afríku). Í undirbúningsskjölum fyrir heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um matvælakerfin 2021 sé ég að fjárhagslegt tjón vegna matarsóunar er á bilinu 400 milljarðar dollara til 1.000 milljarðar dollara árlega. Sem er 10–20 sinnum meira en sérfræðingarnir segja að kosti að enda hungur í heiminum.
Aftur horfum við á algjörlega galið dæmi.
Stór hluti af matarsóun fer fram á heimilum þeirra ríku. Stjörnukokkar á alþjóðlegum sjónvarpsstöðvum koma fram og kenna fólki að borða AFGANGA! Annars er þeim yfirleitt fleygt, 80–120 kílóum á hvern einstakling árlega í ríku löndunum að meðaltali.
Heilsuspillandi sóunardæmi
Svo bætist þetta við: Röng fæða og slæm samsetning næringarefna drepur fleiri á hverju ári en áfengi, tóbak, önnur fíkniefni [1] og hættulegt kynlíf – samanlagt. Fyrir þetta fyrirkomulag greiðum við gríðarlegan umhverfiskostnað sem engin leið er að sjá fram úr.
Er fólksfjölgun þá vandinn?
Nei, ekki vandinn, heldur hluti af vandanum. Fjölgun næstu áratugi verður nær einvörðungu í fátækustu löndunum, enda löngu vitað að beint samband er á milli barnafjölda og fátæktar í fjölskyldum (sem ég útskýri í bók minni). En þetta er ekki fólkið sem sóar mestu af matnum, spillir umhverfinu, gengur á vatnsbirgðir og blæs út gróðurhúsalofttegundum - í sama mæli og við. Í ríku löndunum sjáum við alveg um sóun án aðstoðar. Það væri auðvitað betra að ekki fjölgaði úr átta milljörðum í tíu á næstu 30 árum eða svo, en best væri að taka á verulega á innbyggðum skekkjum í matvælakerfunum.
Spurningin um of margt fólk og meiri mat er því röng. Hún er um hvernig mat og hvernig hans er aflað, handa hverjum.
Um höfundinn: Stefán Jón Hafstein hefur um árabil starfað í utanríkisþjónustunni, m.a. í Afríku og verið fastafulltrúi Íslands hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna.
Greinaskrif hans byggja á niðurstöðum hans úr nýútkominni bók, Heimurinn eins og hann er. Myndir eru úr bókinni.