Í gær var tillaga alþjóðastjórnar Amnesty International um að aflétta refsingum af kaupum og sölu á vændi samþykkt á heimsþingi samtakanna. Vændi barna, fórnarlamba mansals eða annarrar nauðungar á að vera undanskilið afglæpavæðingu, samkvæmt tillögunni.
Þetta skref Amnesty hefur, vægast sagt, gert allt vitlaust. Það ástand er fjarri því bundið við Ísland því umræður um hvort samtökin hafi með þessu stigið langt út fyrir tilgang sinn og upphaflegt erindi er að finna í fjölmiðlum flestra vestrænna ríkja.
Í grófum dráttum skiptist umræðan upp í tvo skóla. Annar, sem er mun fjölmennari, er drifinn áfram af réttlætishugsjón og tilfinningarökum um að vændi eigi að vera bannað og að það sé beinlínis andstætt mannréttindum að vera annarrar skoðunar. Það er mjög auðvelt að skilja hvaðan þeir sem þessari hlið tilheyra eru að koma.
Hinn skólinn ber fyrir sig einföld, og jafnvel barnaleg, rök um að bann við vændi feli í sér skerðingu á sjálfsögðu atvinnufrelsi og fylgni við bann sé því nánast kvenfjandsamlegt (80 prósent þeirra sem stunda vændi eru konur). Það þarf þó að vera með afskaplega skerta raunveruleikatengingu til að halda þessu fram.
Inn á milli þessarra tveggja skóla, og skotgrafahernaðar þeirra á milli, eru síðan flest allir aðrir fastir.
Vill Amnesty auka aðgengi að vændi?
En hvað var Amnesty raunverulega að segja? Voru samtökin að reyna að gera kaupendum vændis eða þriðju aðilum sem hagnast á því auðveldara fyrir með að svala fýsnum sínum eða græða peninga? Voru þau að innleiða persónufrelsis-nýfrjálshyggju inn í stefnu sína? Nei, það er alls ekki rökstuðningurinn fyrir því að samtökin ákváðu að stíga það stóra skref að marka sér afstöðu í þessu máli. Þau vilja beita sér fyrir því að kaup og sala á vændi, sem er ekki tilkomið vegna nauðungar, verði ekki lengur refsivert til að tryggja að kynlífsstarfsmenn (e. sex workers) njóti sömu lagalegu verndar frá misnotkun, mansali og ofbeldi og aðrir.
Í tilkynningu vegna ákvörðunarinnar er eftirfarandi haft eftir Salil Shetty, framkvæmdastjóra Amnesty International: „Kynlífsstarfsmenn eru einn mesti jaðarhópur í heiminum sem í flestum tilfellum stendur frammi fyrir stöðugri ógn um mismunun, ofbeldi og misnotkun. Alþjóðastjórn okkar hefur greitt götu þess að taka upp stefnu til að vernda mannréttindi kynlífsstarfsmanna sem mun hjálpa til við að móta framtíðarvinnu Amnesty International í þessum mikilvæga málaflokki.“
Áhugi rekur ekki fólk í vændi
Það má, og á að, deila um hvort þetta sé rétt skref hjá Amnesty, og á viðbrögðunum er ljóst að samtökin munu líkast til líða fyrir að hafa stigið skrefið. Fjöldi fólks mun hætta stuðningi við samtökin. En það er erfitt að efast um að tilgangurinn sé einungis sá að reyna að standa aukin vörð um mannréttindi þeirra sem stunda vændi.
Flest skynsamt og upplýst fólk getur verið sammála um að afar fáir leiðist út í vændi af áhuga á starfinu. Þeir sem stunda vændi selja aðgang að líkama sínum á hátt sem enginn annar gerir. Líkamlegar og andlegar afleiðingar þess geta verið sambærilegar því sem þolendur kynferðisofbeldis verða fyrir. Með örfáum undantekningartilvikum þá er það því neyð eða nauðung sem rekur fólk í að stunda vændi.
Þeir sem stunda vændi selja aðgang að líkama sínum á hátt sem enginn annar gerir. Líkamlegar og andlegar afleiðingar þess geta verið sambærilegar því sem þolendur kynferðisofbeldis verða fyrir. Með örfáum undantekningartilvikum þá er það því neyð eða nauðung sem rekur fólk í að stunda vændi.
Því miður er bæði eftirspurn eftir, og mikil gróðravon í, vændisstarfsemi. Þess vegna stunda tugir milljóna manna, aðallega konur, vændi. Uppræting þess væri óskandi, en því miður ekki raunhæf nema að það finnist leið til að eyða þeim félagslega ömurleika sem neyðir þorra þeirra sem stunda þessa iðju til að gera það. Sú töfralausn virðist ekki á næsta leyti.
Hvernig tekið er á vændi er því mjög flókið úrlausnarefni og það eru ekki til allsherjarskyndilausnir á því. Þótt fólk hafi megna andstyggð á starfseminni þá leysir það ekki vanda þeirra sem eru fastir í viðjum hennar að lögfesta þá tilfinningu.
Ömurð hverfur ekki við bann
Það hefur nefnilega lengi verið reynt að banna vændið í burtu, án þess að það hafi skilað tilætluðum árangri. Á Íslandi og nokkrum öðrum Norðurlöndum hefur verið tekin upp svokölluð sænsk leið þar sem sala á vændi er lögleg en kaup ekki. Engin rannsókn hefur verið gerð hérlendis til að sýna fram á hvernig innleiðing þeirrar leiðar hefur gengið. Þ.e. hvort hún hafi skilað einhverjum árangri öðrum en þeim að fá kaupendur vændis dæmda.
Tilgangurinn hlýtur að vera sá að gera aðstæður þeirra sem eru fastir í þeim ömurlegu aðstæðum sem vændi er þannig að þeir verði fyrir sem minnstum skaða og geti liðið sem bærilegast. Þangað til að það hefur verið kannað almennilega er ekki hægt að taka afstöðu til þess hvort lagabreytingin hafi verið góð eða ekki.
Hitt sem fólk verður að muna er að allur heimurinn er ekki Skandinavía. Norðurlandabúum, óháð því hvort þeir séu bankastarfsmenn eða vændiskonur, eru tryggð grundvallarmannréttindi og þjónusta sem stendur þorra heimsins ekki til boða. Það sem okkur þykir sjálfsagt, og er fest í lög og/eða stjórnarskrá, er það ekki fyrir flesta aðra. Og alþjóðasamtök eins og Amnesty eiga skjólstæðinga alls staðar. Þess vegna leggja þau fram tillögur líkt og þá sem samþykkt var um helgina.
Glatað tækifæri
Út frá þeim upplýsingum sem mér standa til boða þá get ég ekki tekið afstöðu til þess hvort ákvörðun Amnesty International um að styðja afglæpavæðingu vændis sé rétt eða ekki. Ég finn fyrir sömu réttlætistilfinningu og þeir sem eru reiðastir út í samtökin, vegna þess að ég myndi vilja banna burt allt vændi sem er sprottið af neyð eða nauðung. Ég held hins vegar að það sé óskhyggja og því skil ég líka þau sjónarmið að reyna að fara leiðir í lagasetningu sem miða að því að vernda mannréttindi þeirra sem eru fastir í viðjum vændis og lágmarka það tjón sem þeir verði fyrir.
Flestir geta verið sammála um að vændi er meinsemd sem ber að reyna að uppræta. Tillaga Amnesty International bauð því upp á að það væri hægt að eiga mjög innihaldsríka og mikilvæga samræðu, byggða á rökum og staðreyndum, um þessa meinsemd. Því miður virðast tilfinningarnar hafa borið okkur það mikið ofurliði í þetta skiptið eins og svo oft áður.
Og samræðan á sér því stað á milli skotgrafa.