Það er auðvelt að tala upp rómantíkina við Ísland. Hreina náttúruna, öryggið, nálægðina við fjölskyldu og vini, orkusjálfbærnina, heitu pottana og lága atvinnuleysið. Þetta eru allt hlutir sem margir Íslendingar sakna þegar þeir eru annars staðar í lengri tíma.
Hins vegar er eðlilegt að velta fyrir sér hvort samfélagið sem við höfum búið til hérna passi við þær væntingar sem þegnar þess gera.
Iðnbyltingin og upplýsingin hafa nefnilega búið til kröfur um gott líf. Það á að vera fagnaðarefni og síðustu kynslóðir hafa allar upplifað það að þær sem heild hafi haft það betra en kynslóð foreldra sinna. Framþróunin hefur verið stöðug í hinum vestræna heimi. En nú eru blikur á lofti. Eru síðustu kynslóðir mögulega búnar að taka svo mikinn lúxus út í kredit að það leiði af sér afturför fyrir þær næstu?
Og hvað á allt þetta metnaðarfulla unga fólk, sem gerir ríkar kröfur um lífsgæði og tækifæri, þá að gera á Íslandi? Er pláss fyrir það?
Við hvað ætlarðu að vinna?
Fjöldi þeirra Íslendinga sem sækja sér háskólamenntun hefur margfaldast á örfáum árum. Árið 1996 útskrifuðust 1.554 Íslendingar úr háskóla. Síðustu ár hafa þeir árlega verið yfir 4.000 talsins. Um 25 prósent þeirra eru að mennta sig í vísinda- og tæknigreinum.
Með þessa menntun í farteskinu láta margir sig dreyma um að þeirra bíði magnað og skapandi starf sem tryggi þeim velferð, auð og virðingu. Fæstir fá því miður þann draum uppfylltan. Og á Íslandi er illskiljanlegt hvað allt þetta hámenntaða fólk á raunverulega að starfa við.
Í nokkur ár voru búin til þúsundir starfa fyrir þetta fólk í bankageiranum. Þar sátu verkfræðingar og reiknuðu arðsemismat, grafískir hönnuðir bjuggu til steríla banka-internetborða og forritarar bjuggu til notendaviðmót fyrir Icesave eða Kauthing Edge á meðan að viðskiptafræðingar með BS-gráður settu þjóðarskútuna ævintýralega á hausinn í einhverri stórkostlega brjálæðislegri viðleitni til að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð með minnsta gjaldmiðil í heimi. Sú tilraun verður, held ég að hægt sé að fullyrða, ekki endurtekin aftur. Og störfunum í peningaumsýslunni á bara eftir að fækka.
Er ekki verið að búa til eftirsóknarverð störf hérna?
Íslenska efnahagskerfið keyrir aðallega á þremur vélum: sjávarútvegi, orkusölu til stóriðju og ferðaþjónustu. Allt frábærir atvinnuvegir sem nýta auðlindir náttúrunnar öllum Íslendingum í hag, en þeir skapa ekki öll störfin sem fólkið með háskólaprófin vill starfa við. Flest fræði mæla með að auðlindaríkar þjóðar noti þann mikla auð sem náttúran færir þeim til að byggja fjölbreyttan og skapandi þekkingariðnað ofan á þennan góða grunn. Íslendingar eru ekkert að gera það. Þvert á móti.
Íslenskir ívilnunarsamningar eru einungis fyrir stóriðjufyrirtæki sem eru lokkuð með kaupum á ódýrri orku til að skapa, að mestu, verkamannastörf. Enda er það nánast eina erlenda fjárfestingin sem hefur komið inn í íslenskt atvinnulíf undanfarin ár.
Af hverju ætti sprotafyrirtæki að hefja starfsemi sína hér eða þekkingarfyrirtæki að flytja starfsemi hingað? Hér fást hvorki skattaafslættirnir sem fást í fullt af öðrum vestrænum löndum né gjaldaleysið sem þeim býðst þar. Íslenskir ívilnunarsamningar eru einungis fyrir stóriðjufyrirtæki sem eru lokkuð með kaupum á ódýrri orku til að skapa, að mestu, verkamannastörf. Enda er það nánast eina erlenda fjárfestingin sem hefur komið inn í íslenskt atvinnulíf undanfarin ár.
Og það er heldur ekkert auðvelt fyrir sprota að fá innlenda fjárfesta til að vökva sig. Það var eiginlega fyrst í fyrradag sem að sjóðir með aðkomu lífeyrissjóða, sem þurfa að koma 120 milljörðum króna í vinnu á ári, voru kynntir sem hafa það megimarkmið að fjárfesta í nýsköpun. Og ástæðan virðist eiginlega vera sú að þeir eru búnir að kaupa allt annað á hafta-Íslandi sem þeir komast yfir. Öll hlutabréfin, skuldabréfin, atvinnuhúsnæðið og meira að segja íbúðirnar, með tilheyrandi bólumyndun á leigu- og eignamarkaði.
En er ekki fullt af flottum fyrirtækjum á Íslandi?
Til viðbótar eru stærstu þekkingarfyrirtæki landsins, CCP, Marel og Össur, öll að hugsa um að færa höfuðstöðvar sínar annað vegna gjaldeyrishafta, gjaldmiðlamála eða annarra hnökra í íslensku atvinnu- og efnahagsmálaumhverfi. Samtök iðnaðarins gáfu síðast út fréttatilkynningu í dag þar sem sagði: „Tækifærum vel menntaðs fólks mun áfram fækka hér á landi ef höftin festast í sessi[...]Þessi lausn getur aldrei verið til langframa og hún er þegar farin að valda okkur miklum skaða. Ekki síst í formi tapaðra tækifæra til uppbyggingar verðmætra starfa og hagvaxtar í landinu“.
Stjórnmálamenn virðast ekkert vera að pæla í þessari stöðu. Að minnsta kosti ekki mikið. Einu heildrænu tillögurnar sem hafa komið fram á þingi frá síðustu kosningum, sem miða að því að skapa ný vel launuð störf „til að laða brottflutta Íslendinga aftur heim og til að vekja Íslendingum von í brjósti um að stjórnvöld ætli sér að skapa þeim tækifæri og atvinnuöryggi í framtíðinni“ snúast um að ríkið reisi áburðarverksmiðju. Það eru ekki alveg störfin sem menntaða fólkið er með í huga.
En þetta reddast örugglega...svo lengi sem allir hafa þak yfir höfuðið.
Um það er fjallað í seinni hluta þessa leiðara, sem hægt er að lesa hér.