Á haustmánuðum hnaut ég um fréttaskýringu á ruv.is um viðtal við Frances Haugen, en hún starfaði áður sem vörustjóri hjá samfélagsmiðlinum Facebook. Í fréttinni var haft eftir henni að miðillinn hylmdi yfir sönnunargögn um dreifingu falsfrétta og áróðurs; ætlun miðilsins væri frekar að græða en uppræta dreifingu rangra upplýsinga. Tilefni fréttarinnar var viðtal við hana sem hafði birst í 60 mínútum á CBS. Samkvæmt Haugen ýtir miðillinn undir upplýsingaóreiðu, pólitískan áróður og hatursorðræðu í hagnaðarskyni. Hún kvaðst oft hafa orðið vitni að hagsmunaárekstrum, annars vegar gagnvart því sem væri gott fyrir almenning og hins vegar þess sem væri gott fyrir miðilinn. Eftir lesturinn sagði ég við sjálfa mig: Jæja, þetta er orðið gott, ég hætti á Facebook! En ... ég er ennþá á Facebook. Af hverju?
Það er langt síðan ég ánetjaðist örlitlum en þó reglulegum sprautum af djúsí boðefnum í heilanum þegar fb-vinir læka eitthvað hjá mér eða ég sé eitthvað ánægjulegt á miðlinum. Þessar skvettur af boðefnum eru svo raunverulegar að þær minna á maura í sænskum skógi sem ég lærði ung að bíta í sundur til að fá upp í mig dropa af súrsætum vökva.
Á Facebook er tilveran römmuð inn í persónulegt Séð og heyrt-blað þar sem viðkomandi er bæði viðfangsefnið á síðunni og ritstjóri hennar. Hér er ég, um mig, frá mér, til mín, hét bók eftir Pétur Gunnarsson og nú er eins og við séum öll persónur og leikendur í óteljandi skáldverkum sem gætu heitið einmitt það, þó að bókin hafi verið ólíkt betri en svokallaður prófíll manns á tímalínunni. Á samfélagsmiðlum skrifum við jú skáldsöguna Ég og ritstýrum fjölmiðlinum Ég.
Binna hringir!
Og fyndið, rétt í þessu, þegar ég skrifaði punktinn fyrir aftan ÉG, þá hringdi síminn. Það var Binna, æskuvinkona mín, sem skríkti: Veistu hvað! Það eru fjórtán ár í dag síðan við urðum Facebook-vinkonur. Ég fékk tilkynningu um það í dag! botnaði hún sem hefur reyndar verið vinkona mín síðan árið 1988, minnir mig. Og, hélt hún áfram, það er þér að kenna að ég byrjaði á Facebook! Þú hringdir í mig frá Barcelona og sagðir: Binna, farðu á Facebook! Núna strax!
Í alvöru! hváði ég.
Já, flissaði Binna sem hélt áfram: Og ég spurði: Hvað er Facebook og hvernig geri ég það? Og þá sagðir þú mér að opna tölvuna, finna Facebook.com og skrá mig, síðan myndirðu senda mér eitthvað sem ég ætti að samþykkja. Ég var bara úti að labba og flýtti mér heim til að fara inn á þetta Facebook.
Næst sagði Binna mér að ég hefði rekið harkalega á eftir henni þar sem ég hefði verið að keppast við að eignast fleiri vini en þáverandi eiginmaður minn, en við vorum bæði að fikta við þennan nýja miðil, hvort inni í sínu herberginu.
Svo ég þorði ekki öðru en gera þetta eins hratt og ég gat, sagði Binna. Og síðan þá er ég ennþá á Facebook og ekki séns að ég komist út aftur! Maður er bara orðinn fastur inni í Facebook, í allskonar hópum og maður getur ekki fyrir sitt litla líf lokað á Facebook því maður verður að fá að vita hvað er í gangi á Ísafjarðarmarkaði. Og hjá Flateyringunum! Og Fólki með áhuga á þrifum, það er einn mikilvægasti þrifhópur Íslands!
Hátíðleg millilandasímtöl
Tímasetningin á þessu símtali var kostuleg.
Ekki leið á löngu frá því að ég skipaði æskuvinkonu minni að fara þarna inn þar til miðillinn var orðin dýrmæt líflína til Íslands. Bæði gat ég ræktað sambönd við vini og vandamenn í gegnum hann og stöðugt tekið þátt í samfélagsumræðunni. Að auki endurnýjaði ég kynni við fólk frá ólíkum tímabilum lífsins, bæði á Íslandi og í þeim löndum sem ég hafði dvalið í. Að búa í útlöndum með Facebook varð fljótlega annað en að hafa búið í útlöndum fyrir Facebook. Svo mikið hafði breyst frá því að ég var barn með foreldrum mínum á Spáni og hótelstjóri hóaði í okkur með hátíðlegri viðhöfn til að tilkynna að mömmu biði símtal frá Íslandi. Millilandasímtal hlaut að boða válegar fréttir.
Kristján Eldjárn er dáinn! – tilkynnti amma örsnöggt og kvaddi síðan því símtöl á milli landa þurftu að vera stutt.
Nú get ég setið á Íslandi og röflað við fimm manneskjur í eins mörgum löndum í einu á Facetime, án þess það kosti krónu. En getur verið að veran á Facebook kosti mig eitthvað dýrmætara en peninga?
Þegar ég skráði mig fyrst á Facebook, búsett á horni hóruhverfis í Barcelona, byrjaði ég að eyða dágóðum tíma í dægurþras á Íslandi, á kostnað þess að lesa spænsk slúðurblöð. Borgin varð æ fjarlægari því lengur sem ég eyddi tímanum í ruglingslegar rökræður á íslensku.
Án þess ég tæki eftir því síaðast miðillinn inn í mig og ég inn í hann svo úr varð samruni mennsku og tækni. Allt í einu var orðið hluti af hversdeginum að tékka stöðugt á Facebook. Eitthvað sem ég sá þar gat sett veruleika minn í Barcelona úr skorðum. Pólitískt þras heima varð óvænt svo aktúel að ég gleymdi að borga fyrir appelsínur hjá tannlausum karli frá Marokkó. Heimurinn byrjaði að skreppa saman, en líka stækka. Ég gat verið í tveimur löndum í einu, samt, um leið var ég ... hvergi.
Á valdi nýrrar tækni
Nema jú, ég var á valdi nýrrar tækni. Strax búin að ánetjast henni, áður en ég hafði svo mikið sem leitt hugann að þungavigtar spurningum um mekkanisma hennar. Húkt á möguleika hennar; eins og að geta póstað skrifum mínum og þannig fengið fleiri lesendur, kynnt viðburði og umfjöllun um verkin mín, um leið og ég gat verið í meira sambandi en áður, á annan hátt þó, við vini og ættingja.
Meðvitundarlaus afsalaði ég mér persónulegum upplýsingum bæði um sjálfa mig og atferli mitt. Gagnrýnislaust og árum saman. Ekki nóg með það, heldur líka upplýsingum um kornungan son minn. Þegar ég heyrði talað um að Facebook eignaði sér sína hlutdeild í ljósmyndum sem birtust á síðunni þorði ég varla að leiða hugann að því. Þá er ótalin vitleysan sem ég hef skrifað í skilaboðaþráðum, manneskja sem stundar það að senda vinum sínum intensívar ritgerðir. Það er ekkert sem ég óttast eins mikið og leka á spjallþráðum Facebook – og þó! Ef það gerist týnast skrifin vonandi í hafsjó ruglsins í okkur öllum.
Fleira er ótalið. Eins og sú blákalda staðreynd að ég gleymi hvers konar prinsippum þegar ég nýti miðil sem er sagður stuðla að hatursorðræðu, upplýsingaóreiðu og pólitískum áróðri, svo eitthvað sé nefnt. Miðill sem getur haft áhrif á afkomu fjölmiðla með því að meina dreifingu og deilingu frétta þeirra, ef þeir fara ekki að skilmálum hans, og þannig á lýðræðislegt ástand mála í ríkjum heimsins. Eða, eins og stóð orðrétt í nýlegum skoðanapistli ritstjóra þessa miðils með yfirskriftinni Siðferðislega gjaldþrota fyrirtæki með lýðræðið í lúkunum, þá hefur Facebook gert þriðja aðila kleift að safna upplýsingum um tugi milljóna manna til að hagnýta og selja í aðdraganda lýðræðislegra kosninga og ógna þannig friðhelgi einkalífsins.
Miðillinn étur í sig auglýsingatekjur fjölmiðla sem fúnkera eftir prinsippum fagsins. Og! ... hann ræktar líka og nærir hégóma minn.
Ég ætla að hætta á morgun!
Af hverju er ég ekki hætt á Facebook?
Jú, ég er í jólabókaflóði. Miðillinn hjálpar við að fylgja verki úr hlaði, óðs manns æði að hætta akkúrat núna. En kannski er svarið flóknara. Kannski kann ég ekki lengur að vera til án Facebook. Ég segi eins og Binna vinkona: Maður er bara orðinn fastur inni á Facebook.
Ef ég myndi hætta þar myndi ég missa af óteljandi viðburðum, tíðindum og pælingum. Líka afmælum nákominna, hápunktur afmælis manns eru Facebook-kveðjurnar. Og ég myndi missa af óteljandi fallegum kveðjum og safaríkum fimmaurabröndurum vina minna. Jafnvel glutra niður samböndum mínum við vini mína í útlöndum! Ég myndi hætta að geta speglað hugsanir mínar í skoðunum og gildisdómum fjöldans. Ég hef jú, þrátt fyrir allt, haft rænu á að eiga fjölmarga Facebook-vini með gjörólíkar skoðanir í veiklulegri tilraun til að sporna við heimsmynd algóriþmans, þó að hættan á bubblunni, einhæfri félagslúppu sem þrengir heimsmyndina, sé auðvitað alltaf til staðar á samfélagsmiðli.
En! Ég myndi minnka líkurnar á að ævistarf mitt verði útilokað eftir heimskulega færslu. Og dvelja aftur innra með mér án tilbera sem heitir Facebook. Ég ætla að prófa að hætta á Facebook 1. janúar, árið 2022. Til að muna hver ég var fyrir Facebook. Prófa sko!