Með aukinni alþjóðavæðingu og auknu frelsi fjármagns aukast hættur á fjármálakreppum. Það sýnir reynslan. Við fengum okkar eldskírn á þessu sviði í bankahruninu 2008 og kreppunni sem í kjölfarið fylgdi. Kóvid faraldurinn hefur svo valdið annarri djúpri kreppu rétt rúmum áratug síðar. Þar er orsökin auðvitað af öðrum toga en ekki síður alvarleg. Viðbúið er að við þurfum að glíma við fleiri djúpar kreppur á næstu árum, oft með alþjóðlegum uppruna. Mörgum þykir nóg um.
Það er því mikilvægt að læra af reynslunni og finna farsælar leiðir til að glíma við slíkar kreppur. Hér er því litið til baka og spurt um framvinduna út úr Kóvidkreppunni.
Eftir harkalegan samdrátt í þjóðarframleiðslu í fyrra og mikla aukningu atvinnuleysis, sem þó var að mestu tengt ferðaþjónustunni og skyldum greinum, þá hefur nú rofað mikið til í efnahagslífinu á Íslandi. Veiran veldur ekki eins alvarlegum veikindum í kjölfar víðtækra bólusetninga og hægt er að halda atvinnulífinu betur gangandi, að öllu óbreyttu.
Þannig er atvinnuleysi nú orðið svipað og var fyrir faraldurinn og hagvöxtur hefur verið góður á þessu ári og enn betri horfur virðast líklegar á næsta ári, svo framarlega sem veiran sjái ekki við öllum okkar vörnum með öflugum árásum nýrra afbrigða.
Staðan er þannig að tímabært er að draga lærdóm af framvindunni.
Kenningar um kreppuviðbrögð
Í hagstjórnarfræðunum (e: political economy) eru tvö megin sjónarhorn um það hvernig best er að bregðast við djúpum efnahagskreppum. Annars vegar er sjónarhorn enska hagfræðingsins John M. Keynes sem mótaðist á árum Kreppunnar miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Sú kreppa var í grunninn fjármálakreppa sem orsakaðist einkum af of miklu frelsi á fjármálamörkuðum og óhóflegu braski, sem byggðist á of mikilli skuldasöfnun. Bólan sprakk og djúp efnahagskreppa tók við. Forskrift Keynes var sú að ríkið eitt gæti tekið í taumana og hleypt nýju lífi í þjóðarbúskapinn, með örvunaraðgerðum. Auknar skuldir ríkisins sem af þessum aðgerðum yrðu skyldu greiddar niður á hagsælli tímum í kjölfar samdráttarins, jafnvel á löngum tíma. Ríkisvaldið ætti sem sagt að taka forystu og stýra hagkerfinu upp úr kreppunni.
Keynes hafnaði þessu sjónarhorni afskiptaleysisstefnunnar, á þeirri forsendu að kreppan væri samfélaginu of dýr og of sársaukafull. Víðtækt atvinnuleysi fæli í sér mikla sóun á framleiðslugetu samfélagsins og stefndi pólitískum stöðugleika að auki í hættu. Best væri að koma þjóðarbúskapnum sem fyrst í lag á ný. Öflug viðbrögð ríkisvaldsins væru því sérstaklega þýðingarmikil í djúpri kreppu, til að aftra því að allt fari á versta veg.
Lærdómur af kreppuviðbrögðum
Þegar borin eru saman viðbrögð á alþjóðavettvangi við fjármálakreppunni sem hófst 2008 og Kóvidkreppunni þá blasir nú við önnur framvinda en síðast. Í kjölfar fjármálakreppunnar gripu stjórnvöld víðast til örvunaraðgerða fyrir efnahagslífið í fyrstu, samkvæmt forskrift Keynes. En tveimur árum síðar hófust í allri Evrópu niðurskurðaraðgerðir opinberra útgjalda, samkvæmt tilmælum Evrópska seðlabankans og Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þetta var sagt nauðsynlegt vegna aukinna opinberra skulda og hafði þær afleiðingar frá og með árinu 2010 að kreppan tók aðra dýfu niður á við.
Atvinnuleysi og fjárhagsþrengingar heimila jukust enn frekar en orðið var. Þarna var sem sagt gripið til nýfrjálshyggjuviðbragða og kreppan dýpkaði. Þrengingar lágtekjuhópa jukust mest og kreppan dróst á langinn (sjá nánar um þetta hér). Slík framvinda var mest afgerandi í Grikklandi en flestar Evrópuþjóðir fundu fyrir þessum afleiðingum.
Nú í Kóvidkreppunni hefur framvindan hins vegar verið önnur. Meira hefur borið á viðbrögðum í anda Keynes og minna hefur verið um víðtækan niðurskurð - enn sem komið er. Því hefur efnahagsþróunin víðast tekið betur við sér en var eftir fjármálakreppuna. Hins vegar eru nýfrjálshyggjumenn því miður ekki dauðir úr öllum æðum. Þeir hamra enn á nauðsyn þess að stöðva aðgerðir stjórnvalda, bæði efnahagsaðgerðir og sóttvarnaraðgerðir. Þetta er vegna þess að trúarbrögð nýfrjálshyggjunnar boða að allt sem ríkið gerir sé slæmt en allt sem markaðurinn gerir sé gott.
Þeir sem falla fyrir þessum trúarbrögðum spyrja ekki um lærdóm reynslunnar, heldur festa sig í afskiptaleysisstefnunni alla leið og hirða ekkert um afleiðingar fyrir heimili, þjóðarbúskap eða lýðheilsu. Þá þyrstir öðru fremur í niðurskurð velferðarríkisins og takmörkun lýðkjörinna stjórnvalda. Um leið vilja þeir sleppa markaðs- og fjármálaöflunum lausum, eins og gert var í aðdraganda hrunsins hér á landi. Þetta er fólk sem neitar að læra af reynslunni.
Hér á Íslandi hafa stjórnvöld hingað til að mestu verið með örvunar- og stuðningsaðgerðir í anda Keynes, þó þau hafi ekki sett nein heimsmet á því sviði. En sóttvarnaraðgerðir hafa einnig verið vel heppnaðar til þessa.
Mikilvægt hefur verið að tekið var mið af því að samdráttarkreppan var bundin við afmarkaðan geira atvinnulífsins og að aðgerðir stjórnvalda beindust að honum en ekki þvert yfir allt atvinnulífið. Þorri fyrirtækja hefur staðið vel og ekki þurft á stuðningi stjórnvalda að halda. Seðlabankinn hefur gert vel í að verja gengi krónunnar gegn of miklu falli, sem hefur verið mikilvægt. Hins vegar kynnti bankinn um of undir hækkun húsnæðisverðs með peningastefnu sinni, sem er stór þáttur verðbólgunnar í dag. Bankinn er nú full fljótur að fara í vaxtahækkanir, miðað við seðlabanka grannríkjanna. Aðgerðir stjórnvalda hafa þannig almennt verið til góðs, en kaupmáttur almennings hefur einnig leikið stórt hlutverk í að vinna gegn kreppuáhrifunum. Skoðum það nánar.
Fyrsta kreppan án almennrar kjaraskerðingar
Kóvidkreppan er einstök hvað snertir þróun kaupmáttar. Þetta er fyrsta stóra kreppan á lýðveldistímanum á Íslandi sem ekki er brugðist við með því að skerða stórlega kaupmátt alls þorra almennings. Þetta hefur venjulega gerst með stórri gengisfellingu sem hefur getið af sér verðbólgukúf sem hefur rýrt kaupmátt launafólks. Í kreppunni í kjölfar hrunsins rýrnaði kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna í kringum 25% (að meðtaldri aukinni skuldabyrði). Um 10-20% kaupmáttarrýrnun var algeng í fyrri kreppum á lýðveldistímanum.
Nú er öldin önnur og kaupmáttur launafólks hefur haldið í gegnum Kóvidkreppuna. Það eru tímamót. Í raun hefur kaupmáttur meðallauna aukist hóflega en hjá lægri launahópum hefur hann aukist meira. Lífskjarasamningurinn frá 2019 var þeim eiginleikum gæddur að færa lægstu launahópunum hlutfallslega mesta hækkun sem er góður eiginleiki almennt, en ekki síst í kreppum. Fólk á lægri launum eyðir öllum sínum tekjum til daglegrar framfærslu og því eru meiri örvunaráhrif af kauphækkun þeirra fyrir efnahagslífið en af hækkun til hærri launahópa. Það er gagnlegur eiginleiki í kreppu, eykur eftirspurn og verndar fleiri störf.
Ríkisstjórninni má einnig þakka fyrir að hafa ekki beitt ofríki og þvingað fram rof á lífskjarasamningnum að beiðni SA. Í staðinn kom ríkisstjórnin til móts við Samtök atvinnulífsins með ívilnandi aðgerðum þegar á hólminn var komið og SA-menn hótuðu að fella samninginn við endurskoðunina. Það er mat mitt að vera VG í ríkisstjórninni hafi hjálpað til við að fá fram þessa niðurstöðu. Sagan hefur sýnt í gegnum tíðina að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa yfirleitt verið viljugri en aðrir til að fara að kröfum samtaka atvinnurekenda við slíkar aðstæður.
En niðurstaðan varð þessi. Lífskjarasamningurinn hélt og hjálpaði til við að milda áhrif kreppunnar, ásamt mótvægisaðgerðum ríkisvaldsins. Lífskjarasamningurinn á enn eftir að skila frekari örvunaraðgerðum á næsta ári, sem verða mikilvægar fyrir launafólk í ljósi þeirrar auknu verðbólgu og vaxtahækkana sem orðið hafa. Það verður gagnlegt, hvort sem kreppan dregst á langinn vegna nýrra afbrigða veirunnar eða sem eldsneyti á uppsveifluna.
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.