Spólum rúman áratug aftur í tímann. Árið er 2004. Íslensk fyrirtæki eru búin að mynda brú inn á alþjóðlega fjármálamarkaði samhliða tiltölulega nýhafinni útþenslu íslenska bankakerfisins með skuldabréfaútgáfu erlendis. Alþjóðlegir fjármálamarkaðir fljóta í ódýru fjármagni eftir árásirnar á tvíburaturnanna 11. september 2001 og aðgerðir seðlabanka heimsins í kjölfarið, og auðvelt er fyrir banka að útvega sér ódýrt lánsfé.
Í þessum aðstæðum myndast mikið og sterkt samband íslenska hagkerfisins við þýsk fjármálafyrirtæki, einkum banka og sparisjóði í Bæjaralandi, og stærsta banka Þýskalands og einn þann stærsta í Evrópu, Deutsche Bank. Umsvif hans hér á landi, bæði fyrir og eftir hrun, eru með miklum ólíkindum í samhengi við stærð hagkerfisins.
Fífldjörf lán enda með ósköpum
Óhætt er að segja að lán þýskra fjármálafyrirtækja til íslenskra lögaðila, banka og annarra fyrirtækja, á árunum fyrir hrun bankakerfisins og neyðarlagasetningarinnar 6. október 2008, hafi verið fífldjörf og til marks um ævintýralegt kæruleysi hjá stjórnendum þessara fyrirtækja og rangt stöðumat þeirra. Tal um að þýsk fjármálafyrirtæki séu varfærin og fari fram með yfirvegun á svo sannarlega ekki við um lán þeirra til Íslands á undanförnum árum, svo mikið er víst.
Á aðeins um fimm árum þá lánuðu þýsk fjármálafyrirtæki upphæðir hingað til lands sem námu mun meiru en árlegri landsframleiðslu Íslands. Þegar íslenska efnahagsbólan var við það springa, haustið 2008, var Deutsche Bank með mikla hagsmuni gagnvart íslenska hagkerfinu og fall þess gat skapað mikil vandamál fyrir bankann, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Sem svo varð raunin.
Ekki bara bankarnir, líka fjárfestarnir
Ekki nóg með að Deutsche Bank hefði verið meðal stærstu lánadrottna Kaupþings og Glitnis - og einhverju leyti Landsbankans - og sparisjóðakerfisins, heldur var bankinn einnig stór lánveitandi til einstaka fjárfesta og félaga þeirra. Þannig lánaði bankinn ríflega fjóra milljarða evra til Novators, félags Björgólfs Thors Björgólfssonar, þegar félagið keypti Actavis á vormánuðum 2007. Það er upphæð sem jafngildir um 620 milljörðum króna á núverandi gengi. Björgólfur Thor Björgólfsson lýsir því í bók sinni, Billions to Bust - and Back, sem kom út fyrir jól, að þessi lánveiting hafi getað komið bankanum í fangið á þýska ríkinu.
Deutsche Bank lánaði Björgólfi Thor mörg hundruð milljarða króna.
Gætir mikilla hagsmuna
Eftir hrunið hefur bankinn verið með puttana í ýmsum stærstu hagsmunamálum hagkerfisins og augljóslega verið að gæta hagsmuna sinna. Þar má nefna ýmis atriði til sögunnar.
Bankinn bauðst til að taka yfir Icesave-skuldina, og eignir á móti, þegar deilur um innstæðurnar stóðu sem hæst milli íslenskra stjórnvalda, þrotabús Landsbankans og yfirvalda í Hollandi og Bretlandi.
Þá hefur bankinn komið að skuldabréfaútgáfu fyrir íslensk fyrirtæki í töluvert miklu mæli eftir hrunið, meðal annars sem milligönguaðili fyrir Landsvirkjun árið 2010, þegar flest sund voruð lokuð erlendis fyrir íslensk fyrirtæki. Samtals var útgáfan upp á 180 milljónir evra í það skiptið, eða tæplega 30 milljarða króna. Hún var mikilvæg fyrir Landsvirkjun og eigandann íslenska ríkið, þó vextirnir hafa sögulega verið óhagstæðir.
Deutsche Bank fékk einnig greidda 35 milljarða frá Peru, dótturfélagi Lýsingar, innan úr haftahagkerfinu í mars 2012 en Pera var veðsett bankanum til tryggingar fyrir lánveitingum til Lýsingarsamstæðunnar á þessum tíma.
Icesave-málið aftur á borði Deutsche Bank
Icesave-málið hefur haldið áfram að tengjast Deutsche Bank þó ekki hafi verið fallist á hugmynd forsvarsmanna bankans í milliríkjadeilu Íslands, Hollands og Bretlands. Hinn 28. ágúst í fyrra tilkynnti Seðlabanki Hollands um það að Deutsche Bank hefði keypt Icesave-kröfu bankans í þrotabú gamla Landsbankans, sem var eftirstandandi, á 623 milljónir evra, eða um 96 milljarða króna. Daginn eftir var svo frá því greint í Kjarnanum að Deutsche Bank hefði keypt kröfuna, sem naut forgangs í búið, fyrir aðra, þar á meðal vogunarsjóði sem áttu kröfur í bú hinna föllnu banka.
Deutsche Bank hefur síðan verið að kaupa kröfur á markaði í bú hinna föllnu banka, einkum á undanförnu ári. Í byrjun desember í fyrra greindi Kjarninn frá því að hann væri orðinn þriðji stærsti kröfuhafinn í bú Glitnis með kröfu upp á 157,1 milljarð að nafnvirði. Alls hefur hann keypt kröfur upp á 90,9 milljarða króna að nafnvirði frá byrjun árs 2013. Þar af hefur hann keypt kröfur upp á 77 milljarða króna á síðustu fimmtán mánuðum.
Deutsche Bank blandaði sér beint í Icesave-deiluna, og hafði síðan að lokum milligöngu um að Seðlabanki Hollands seldi kröfur sínar í bú hins fallna Landsbanka.
Miklir hagsmunir - viðvörunarljós árið 2008?
Deutsche Bank á meðal annars af framantöldum ástæðum, mikilla hagsmuna að gæta gagnvart Íslandi þegar kemur að afnámi eða rýmkun fjármagnshaftanna og samningum við erlenda krónueigendur, þar á meðal kröfuhafa í bú föllnu bankanna. Sú vinna er komin nokkuð á veg, þó ómögulegt sé að segja til um hversu hratt hlutirnir munu gerast og hvernig niðurstaðan verður.
Spurningin sem vaknar nú þegar loks er að sjást ljósglæta við enda haftaganganna fyrir íslenska hagkerfið, er hvenær Deutsche Bank var farinn að átta sig á því að Ísland var í vondum málum og til hvaða meðala bankinn greip til að verja hagsmuni sína. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur lýst því í bréfi til vina sinna, að bankinn hafi verið með puttann í stórtækum kaupum Kaupþings á skuldatryggingum bankans á árinu 2008 með það fyrir augum að ná álaginu niður. Svipaða frásögn má finna í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna. Deutsche Bank lánaði mikla fjármuni inn í þessi viðskipti, á annað hundrað milljónir evra. Á vormánuðum í fyrra voru stjórnendur Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, auk Sigurðar, ákærðir fyrir þessi viðskipti meðal annarra.
Á þessum tímapunkti, á fyrra hluta árs 2008, var í það minnsta komin skýr vitneskja um það innan Deutsche Bank að Kaupþing, langstærsta íslenska fjármálafyrirtækið á þessum tíma, ætti erfiðleikum vegna þess að aðgengi að lánamörkuðum var lokað og þegar væri byrjað að beita umdeildum aðgerðum til þess að bæta stöðuna. Deutsche Bank beinlínis lagði sjálfur til þær aðgerðir sem gripið var til, samkvæmt frásögnum í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.
Aldrei langt undan
Milliganga Deutsche Bank í viðskiptum við vogunarsjóðina sem eiga kröfur á hina föllnu banka, meðal annars með Icesave-kröfu Seðlabanka Hollands, sýnir að bankinn hefur aldrei verið langt undan þegar kemur að stærstu hagsmunamálunum eftir hrunið, enda full ástæða fyrir hann til þess að reyna að lágmarka tjónið af fífldjörfum lánveitingum hingað til lands á tiltölulega fáum árum, einkum 2004 fram að hruninu í október 2008.
Endanlegir eigendur vogunarsjóðanna sem eru stærstu eigendur krafna í bú hinna föllnu banka, Burlington Loan Management þeirra umsvifamestur, liggja ekki fyrir en hverjir sem þeir eru þá er nokkuð ljóst að samband þeirra við Deutsche Bank virðist vera náið. Sé mið tekið af sameiginlegum hagsmunum og viðskiptum með kröfur í bú bankanna sem Deutsche Bank lánaði til, nánast stjórnlaust, áður en allt hrundi til grunna.