Tæp vika er nú liðin frá því að vetrinum lauk á Alþingi. Það má líklega slá því föstu að þessa fyrsta þingárs undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar verði í framtíðinni fyrst og fremst minnst fyrir skuldaniðurfellingar. Fá önnur mál verið sett í forgang hjá stjórnvöldum á þessu fyrsta ári, nema kannski lækkun veiðigjalda og misheppnuð tilraun til að draga til baka umsókn að Evrópusambandinu, og fá þeirra munu hafa eins miklar afleiðingar.
Aftast í goggunarröðinni
Málefni útlendinga hafa verið áberandi í almennri umræðu í vetur en það er sannarlega ekki að undirlagi stjórnvalda, sem hefðu líklega viljað sleppa tali um þau með öllu. Það er ekki skrýtið eftir heldur slaka frammistöðu. Reyndar fóru í gegn lög á síðustu dögum þingsins sem bæta réttarstöðu útlendinga, með skipun óháðrar úrskurðarnefndar í málefnum þeirra og hraðari málsmeðferð. Því má fagna. Það mál var fyrst lagt fram í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem mistókst að koma því, sem og heildarendurskoðun sinni á málefnum útlendinga utan EES, í gegnum þingið. Slík heildarendurskoðun á lögunum er nauðsynleg, því hafi það farið framhjá einhverjum eru þessi mál í ólestri á Íslandi, svo vægt sé til orða tekið. Útlendingamál hafa ekki verið sett í forgang. Það er ekki nóg að standa í tímabundnu átaki til að stytta biðtíma hælisleitenda og lofa að skoða málið. Það þarf að taka til í öllu heila batteríinu og til þess þarf vilja, en það þarf líka pening. Pening sem hefði til dæmis getað komið í gegnum lítið brot af bankaskattinum sem nú er eyrnamerktur niðurfellingunum ef hann á annað borð innheimtist.
Á síðustu dögum þingsins náðist líka í gegn þingsályktunartillaga um uppbyggingu á Landspítalanum. Því má líka fagna. Sú tillaga var hins vegar ekki á vegum stjórnvalda, heldur lögð fram af stjórnarandstöðuþingmanni, enda hefur flokkurinn sem er í forsæti áður talað fyrir því að fresta framkvæmdum við nýjan spítala. 60 milljarða uppbygginguna sem nú er búið að samþykkja á að fjármagna með því að selja eignir ríkisins, eignir almennings. Það er nefnilega nauðsynlegt að fjármögnunin fyrir verkinu sé tryggð í þessu tilviki, þótt það horfi aðeins öðruvísi við þegar kosningaloforð Framsóknar á í hlut.
Gallarnir við kosningaloforðið eru vel þekktir og óþarfi að fara mjög náið út í þá. Nóg er að nefna að fjöldi fólks sem fær niðurfellingu getur varla talist hafa orðið fyrir forsendubresti og fjöldi er ekki eða verður í neinum vandræðum með lánin sín. Þetta fólk þarf ekki á niðurfellingu skulda sinna að halda, og það vita stjórnvöld alveg því fjölmargir hafa bent á það. Einnig hefur verið sýnt fram á ósanngirnina í því að leigjendur sitji eftir í súpunni eftir þessar niðurfellingar, hópurinn sem hefur farið einna verst út úr efnahagsástandi síðustu ára. Nú segir forsætisráðherra að til standi að gera eitthvað í málum þeirra á næstunni en eftir stendur samt sem áður að sá hópur var ekki í forgangi hjá stjórnvöldum. Hann mætir afgangi.
Fátæka fólkið, veika fólkið og útlendingarnir eru fólkið sem var sett aftast í goggunarröðina hjá stjórnvöldum þetta fyrsta ár. Samt eru þetta hóparnir sem standa höllustum fæti. Á sama tíma og þingið var að ljúka störfum sínum kom út skýrsla á vegum Rauða krossins sem sýndi að fordómar færu vaxandi, sérstaklega í garð innflytjenda, og að næstum einn af hverjum tíu Íslendingum væri undir fátæktarmörkum. Þrettán prósent til viðbótar eiga á hættu að verða fátæk. Þessir hópar þurfa mesta hjálp.
Ekki bara kosningaloforð
Skuldaniðurfellingarnar eru ekki bara kosningaloforð Framsóknar um upprisu óskilgreindrar millistéttar. Þær eru skýrt merki um forgangsröðun í þágu þeirra sem hafa það upp til hópa ágætt. Þær eru val stjórnarinnar um að setja 80 milljarða af almannafé til að borga fólki sem að stórum hluta til þarf ekki á því að halda. Sem þýðir, eins og líka hefur verið bent margoft á og úr mörgum áttum, að þessir peningar fara í aukna neyslu þessa fólks, sem kemur svo niður á öllum í formi verðbólgu. Þetta eru neyslulán til sumra sem allir þurfa að borga til baka.
Kannski myndu þessi mál horfa öðruvísi við ef unnið hefði verið jöfnum höndum að aðgerðum fyrir aðra þjóðfélagshópa og þessa óskilgreindu millistétt. Og kannski er bara gott að þingið er farið í langt frí. Þá má láta sig dreyma um að tíminn fram á haust dugi til að breyta hugsunarhættinum svo að þing komi saman í haust og vinni öllum til hagsbóta, ekki bara sumum.