Eitt af því sem kalla mætti galla á því lýðræðisfyrirkomulagi sem við höfum komið okkur upp er innbyggð skammsýni. Stjórnmálamenn sækja sér umboð frá kjósendum til fjögurra ára í senn en það er ekki nóg til þess að gera varanlegar og vel ígrundaðar breytingar. Mario Draghi, forseti bankaráðs Seðlabanka Evrópu, er stundum kallaður mikilvægasti stjórnmálamaður Evrópu í erlendum fjölmiðlum af þessari ástæðu. Stjórnmálamenn hafa komið og horfið jafnharðan í Evrópu á undanförnum árum, ekki síst í Suður-Evrópu, án þess að stærstu vandamálin hafi verið leyst.
Af þessum ástæðum hafa spjótin beinst að Seðlabankanum og ýmsum alþjóðastofnunum; þar eru línurnar lagðar í stórum málum oft á tíðum. Hér á landi er stundum rætt um að þjóðir Evrópu séu að framselja fullveldi til alþjóðastofnana eins og Evrópusambandsins (ESB), með þátttöku í alþjóðasamstarfinu í gegnum formlega aðild að ESB. Vandinn mun fremur vera pólitískt óþol kjósenda í erfiðum aðstæðum. Það gefst einfaldlega ekki tími til þess að búa til langtímasýn út úr vandræðum.
Langtímasýnin getur orðið til
Viðskiptaráð var gagnrýnt mikið í kjölfar hrunsins fyrir viðhlæjendahlutverkið sem ráðið var í gagnvart því jafnvægisleysi sem einkenndi íslenska fjármálakerfið og hagkerfið í heild. Þetta var réttmæt gagnrýni. Ólíkt mörgum öðrum samtökum – svo ekki sé talað um stjórnmálamenn – baðst ráðið afsökunar á ofmati sínu á eigin ágæti með formlegum hætti. Þetta var virðingarvert og til fyrirmyndar. Síðan hefur ráðið leitt mikilvæga sérfræðivinnu, með hjálp ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey. Formlegum samráðsvettvangi stjórnmálamanna, fræðimanna, atvinnurekenda, verkalýðshreyfingarinnar og sérfræðinga úr atvinnulífinu var komið á og ítarleg vinna sett af stað. Markmið þessarar vinnu má setja fram sem vopn gegn innbyggðum galla lýðræðiskerfisins; það er að marka langtímasýn til að tryggja betri lífskjör sem er hafin upp fyrir pólitískt þras, skammtímamiðaða vinnu. Þessi sýn getur orðið til ef stjórnmálamenn láta kné fylgja kviði og beygja sig undir þessa mikilvægu aðferðafræði.
Eins og bankabónusarnir
Í eðli sínu er hið siðferðilega vandamál skammtímasýninnar á vettvangi stjórnmálanna svipað innbyggðum galla við bónusgreiðslukerfi í bankageiranum. Í mörgum fjármálafyrirtækjum hafa bónuskerfi verið byggð upp í samhengi við stærð samninga, rekstrarafkomu í samtímanum, fremur en að horfa til þess endurheimta á löngum tíma. Þarna verður til hvati sem sérfræðingar hafa sumir hverjir fullyrt að sé rótin að röngum og of áhættusæknum ákvörðunum, hvorki meira né minna. Þar á meðal er einn virtasti hagfræðingur heims og fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Simon Johnson. Bankamenn þurfa að klára rökræðuna um þessi mál og vera opnir fyrir því að hugsanlega sé núverandi fyrirkomulag á alþjóðlegum fjármálamörkuðum með innbyggðan veikleika; skammtímasýn í stað langtímasýnar.
Pólitík og sérfræðiþekking
Ísland stendur enn frammi fyrir miklum vandræðum eftir hrun fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins. Skammtímalækningar duga ekki til þess að leysa málin og engin auðveld lausn er til, sökum hárra opinberra skulda, fjármagnshafta og skuldbindinga í erlendum gjaldeyri. Aðeins langtímasýn getur leitt þjóðina út úr ógöngunum og áfram í átt til betri lífskjara. Engar æfingar munu duga, engir galdrar. Þótt sjaldan sé á það minnst er til staðar tækifæri til þess að leggjast yfir vandamálin og setja komandi kynslóðir framar þeirri sem er með vandamálin í höndunum. Það er oft þungbært fyrir stjórnmálamenn að gefa vinsældir sínar eftir með langtímahagsmuni þjóðarinnar í húfi. En nákvæmlega þetta er staðan á Íslandi. Stjórnmálamenn hafa komið og farið, vinsældir ýmist vaxa hratt eða hrynja. Pólitísk kreppa er viðvarandi á meðan ekki er gerð minnsta tilraun til þess að endurskilgreina hið pólitíska starf út frá langtímasýn, hagsmunum komandi kynslóða.
Vettvangurinn er til staðar
Vettvangurinn sem skapaður hefur verið, eftir frumkvæði Viðskiptaráðs, er merkileg tilraun til þess að upphefja stjórnmálastarfið úr skammsýninni yfir í langtímasýnina. Þetta starf fór af stað af miklum krafti en betur má ef duga skal. Úthaldið í vinnunni ætti að vera drifið áfram af mikilvægi langtímasýnarinnar og þess þekkta veruleika að góðir hlutir gerast hægt og bítandi.
Tugmilljarða peningagjafir úr skuldum vöfnum ríkissjóði, sem nú er verið að undirbúa með uppsetningu vefsíðu og hugbúnaðar, er ágætt dæmi skammsýni stjórnmálamanna og hvaða áhrif hún getur haft á vinsældir. Lýðurinn bíður spenntur eftir peningagjöfunum, en komandi kynslóðir vita ekki af því að peningarnir hefðu getað farið í að bæta hag þeirra.
Péningar
Í þessum aðstæðum, sem allir landsmenn eru að glíma við, er hollt að horfa til boðskapar þeirra sem hafa skrásett þær miklu fórnir sem kynslóðir Íslendinga hafa fært svo að sú sem nú lifir búi við aukin tækifæri. Snillingurinn Halldór Laxness er líklega sá Íslendingur sem hefur skrásett þessar fórnir með magnaðri hætti en nokkur annar. Þar er á öllu tekið; péningunum, valdi, stéttabaráttu og mannlegum breyskleika ekki síst. Dýpsti boðskapurinn, gegnum gangandi í öllum hans verkum, er best lýst sem sífelldri baráttu á milli þröngsýni og víðsýni. Í hinu fyrra er maðurinn eins og veðhlaupahross, rörsýnin blindar honum sýn. Víðsýnin er hins vegar eiginlegt leiðarljós í lífsins gangi. Hún er enn fremur forsenda þess að geta mótað langtímasýnina, komandi kynslóðum til heilla.
Leiðarinn birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann hér.