Á síðustu árum hefur margt gengið á, bæði í heiminum og innanlands sem getur grafið undan þessari von. Þar má nefna kosningasigra einangrunarsinna og öfgaafla í heiminum og bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks. Þar að auki má nefna heimsfaraldur og ótrúlegan uppgang óvísindalegrar heimsýnar og samsæriskenninga sem tortryggja læknavísindin, en líka staðreyndir er varða loftslagsbreytingar og fleira.
Myrkasti bletturinn á árinu 2022 er hins vegar augljós. Það er algjörlega óréttlátt innrásarstríð Rússlands í Úkraínu með það að markmiði að innlima allt ríkið, eða að minnsta kosti koma á þar leppstjórn og innlima héruð á landamærunum. Þar hefur rússneski herinn farið fram með fádæma offorsi, gert árásir á íbúa og nauðsynlega innviði daglegs lífs, þegar illa gekk í átökum við úkraínska herinn, en bæði sá her og þjóðin bjuggu yfir margfalt meira baráttuþreki en innrásarliðið hafði gert sér í hugarlund. Þessi innrás hefur valdið ómældu tjóni. Þúsundir hafa látist, enn fleiri slasast, verið misþyrmt eða nauðgað, og milljónir hafa hrakist á flótta. Skýrar sannanir um stríðsglæpi hafa þegar komið fram á landsvæðum sem Úkraínuher hefur endurheimt.
Ég tel samt að á heildina litið, þá sjáum við merki um ákveðinn viðsnúning í heiminum á þessu ári.
Þó að COVID sé ekki alfarið úr sögunni, þá hafði það mjög jákvæð áhrif á mannlífið, efnahag og almenna líðan heimsins að faraldurinn sé ekki metinn lengur svo alvarlegur að þurfa þyki að loka öllu samfélaginu.
Og þó svo að vestanhafs hafi öfgamaður farið með völd í fjögur ár, og gert tilraun til að hindra lögleg valdhafaskipti, þá virðist sem atburðir síðastliðins 6. janúar hafi hrist nægilega upp í þjóðinni til þess að nú hefur hún ítrekað sent skýr skilaboð í kosningum um að slíkir menn eigi ekki upp á pallborðið hjá henni,þar sem Demókratar héldu t.d. merkilega vel velli í kosningum þarlendis í haust, og juku raunar meirihluta sinn í efri deild þingsins. Rauð alda sem Repúblikanar spáðu að myndi færa þeim aftur öll völd á þinginu raungerðist aldrei og sérstaklega var frambjóðendum sem Donald Trump handvaldi og studdi hafnað af kjósendum.
Og eins hræðilegt og stríðið í Úkraínu hefur verið, þá gefur það von að sjá hve einarður stuðningur Vesturlanda hefur verið við úkraínsku þjóðina. Þau sem búa yfir slíku senda þeim hergögn og þau sem búa að öðrum styrk hjálpa með öðrum hætti. Ísland hefur sent Úkraínu hlýjan vetrarfatnað og opnað arma sína fyrir flóttafólki.
Það er upplífgandi að sjá að þvert á hið pólitíska landslag, þá erum við öll sammála um þau viðbrögð. Við höfum aldrei tekið á móti jafn mörgu fólki á flótta, og það er gífurlega mikilvægt að við gerum það vel.
Bakslagið gegn réttindabaráttu hinsegin fólks er ennþá vandamál. Mjög mikið vandamál. Til eru samtök sem berjast af einurð og hörku fyrir því að aðgreina réttindabaráttu transfólks frá samtökum sam- og tvíkynhneigðra, og beita til þess öllum ráðum. Það fólk lítur á réttindi sem takmarkaða auðlind, að réttindi eins hljóti að leiða til skerðingar á réttindum annarra. Þau eru kannski líka óttaslegin og vilja ekki taka áhættuna á að missa það sem áunnist hefur.
En versta hættan er að það takist að reka fleyg á milli okkar, að það takist að stöðva framfarir í réttindamálum og reka okkur þess í stað í vörn, sundruð, hvert í sínu horni.
Nýjasta vopn andstæðinga hinsegin fólks er svo að gelta að því og hlaupa burtu. Ég vil meina að þar kristallist málefnaþurrðin og hugmyndaleysið. Ef það skásta sem fólki dettur í hug til að mótmæla því sem því mislíkar er að gelta, þá er ekki mikið í það spunnið.
En viðbrögðin við þessu bakslagi eru sterk og samfélagið hefur sýnt að það vill standa með réttindabaráttunni. Með einstaka undantekningum hafa skilaboðin til þeirra sem vilja ýta okkur til baka verið að það sé ekki í boði.
Annað sem vekur mér von er niðurstaða sveitarstjórnarkosninga á Íslandi í vor. Gömul mynstur voru hrist upp og fólk og flokkar náðu saman yfir línur sem hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum árum. Framsóknarflokkurinn hefur gengið í gegnum töluverða endurnýjun og bæði tóku kjósendur því vel, og aðrir flokkar, sem hefðu ekki getað átt samstarf við flokkinn fyrir þá endurnýjun, sendu líka þau skilaboð að slík endurnýjun væri metin að verðleikum.
Píratar héldu áfram að auka við fylgi sitt í þeim sveitarstjórnum þar sem við eigum fulltrúa, en það virðist vera að eftir því sem reynsla kjósenda af því að hafa Pírata í sveitarstjórn eykst, þeim mun betur lítist þeim á.
Meirihlutasamstarfið í Reykjavík er gott dæmi um öflugt samstarf ólíkra flokka yfir miðju stjórnmálanna, byggt á samtali og málamiðlun.
Það gefur mér von til þess að í framtíðinni getum við saman komist upp úr gömlum skotgröfum og breytt raunverulega pólitíska landslaginu á Íslandi.
Að vissu leyti líður mér eins og heimurinn sé að vakna af dvala. Við erum að rifja upp kraft samstöðunnar og við erum farin að sjá hugsanlegar afleiðingar þess að sofna á verðinum. Ef við viljum ekki missa réttindi sem hafa áunnist, ef við viljum ekki uppgang öfgafólks sem reisir múra milli ríkja og milli samfélagshópa, sem dregur okkur í dilka og etur okkur hvert gegn öðru og ef við viljum ekki að siðblindir einræðisherrar vaði uppi og hertaki frjáls lýðræðisríki, þá þurfum við vera vakandi. Við þurfum að standa saman og ef við viljum að framtíðin sé réttlát, lýðræðisleg og opin, þá þarf að berjast fyrir því. Það gerist ekki af sjálfu sér.
Höfundur er borgarfulltrúi Pírata.