Á áttunda áratug síðustu aldar varð Nýaldarhreyfingin (New Age Movement) til og varð sífellt sýnilegri á Íslandi um áratug síðar og fram til þessa dags. Hreyfingin felur í sér heildræna sýn á heiminn þannig að andi og efni séu samofin. Áhersla er á einstaklingsbundna andlega iðkun, frjálst sjálf, heilun og orkuflæði.
Við sjáum þessa dags daglega stað í kristöllum og orkusteinum sem sumir nota til heilunar, svetti, Qui quong og almennri ástundun jóga og hugleiðslu, notkun jurta til lækninga, kakóathöfnum, höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og jafnvel shamanisma. Í þessari hugsun, sem er á heimsvísu, tengjast saman ýmsar trúarhugmyndir og vísindakenningar. Áhersla er á sjálfið og að einstaklingurinn breyti sjálfum sér til hins betra sem manneskja og þannig hafi hann síðan áhrif til breytinga út í samfélagið.
Í Búddisma síðari tíma lögmálsins, sem kallað er og er kennt við Lótus Sútruna, segir að ef við gaumgæfum þessa nýju sýn vel þá hætti menn að sjá landið og umhverfið sem frábrugðið og aðskilið frá manneskjunni sem þar býr. Þrátt fyrir að andi og efni virðist vera tveir aðskildir hlutir eða þættir í líf- og orkukeðjunni, þá sé veruleikinn sá að þeir eru ekki aðskiljanlegir.
Vitaskuld getur mannfólkið ekki lifað í tómarúmi, við þurfum umhverfi til að geta lifað. Við þurfum stað til að lifa á og umhverfið styður okkur í að lifa þar, útvegar okkur loft, vatn, mat ásamt því að skapa stöðugleika til að við getum lifað lífi okkar.
„Nafnið á þessu lögmáli einingar einstaklings og umhverfis er á japönsku esho funi. E er stytting fyrir eho eða umhverfið sem styður lífið og sho er stytting á shoho óháðri einingu lífsins eða með öðrum orðum sjálfinu. Þar sem líf manneskjunnar hefur áhrif á og er háð umhverfi sínu þá er það sem virðist vera aðskildar einingar lífs í raun óaðskiljanlegar. Þrátt fyrir að einingarnar virðast vera sitt hvor hluturinn þá eru þær, þegar grannt er skoðað ekki tveir hlutir. Þessi „ekki-tvískipting“ er merking orðsins funi, sem hægt er að þýða sem „tveir hlutir en ekki tveir hlutir“. Þannig að umhverfi okkar og líf einstaklingsins er á gagnkvæman hátt háð hvert öðru. Við nánari athugun eru þau eitt vegna þess að umhverfið og fólkið sem lifir þar á hvorutveggja upptök sín í lífskrafti alheimsins.“ - (Hamingja í þessum heimi Mannúð, tímarit SGI Búddista á Íslandi. September 2015).
Samfélög mannanna eru að miklu leyti gagntekin af æsifréttamennsku og illkvittni og töluvert er um falskar og villandi upplýsingar. Það eru margir spilltir einstaklingar sem blekkja aðra og margir neikvæðir áhrifavaldar sem draga fólk niður í óhamingju og eymd. Þrátt fyrir það skynja fjölmargir kjarna lífsins á jákvæðan hátt.
Þónokkrir eðlisfræðingar og aðrir vísindamenn hallast að því, í ljósi skammtafræðinnar, að lífeðlisfræði og frumspekin sjálf eigi samleið, en frumspekin fæst við að útskýra grundvallaratriði um eðli og umgjörð sjálfrar tilverunnar á heimspekilegan hátt.
Eitt er að rannsóknir á starfsemi heilans hafa leitt til þess að öreindir, sem hafa hingað til aðeins verið taldar efnislegar séu jafnframt bylgjur, og því líffræðileg heilastarfsemi mælanleg á sambærilegan hátt við breytta tilfinningalega og andlega líðan manna. Það er að segja að við andlega og tilfinningalegar breytingar hjá einstaklingi geti hann mögulega breytt eigin skynjun, líkamsstarfsemi og haft ætluð áhrif á aðra einstaklinga. Að sterkar viðjar vanans, þ.e. ríkjandi hugform og hugsun sem líkja má við fíknir, haldi helst aftur af þróun og notkun þessara möguleika mannsins til að virkja heilastarfsemina til fulls.
Tekist er á um þessa túlkun og efasemdir eru miklar um að rannsóknaraðferðirnar séu vísindalegar, en hugsunin ein og sér kollvarpar aldagömlum vestrænum gildum meðal milljóna núlifandi manna og jafnvel hugtakinu raunvísindi, eins og við þekkjum það. Mögulegt er að prófessor sem þurfti fyrir um 10 árum að velja á milli þess að láta af þjóðfélagsstöðu sinni og tekjum eða snúa sér að rannsóknum í skammtafræði og dularfullri hugarorku mannsins, segði eitthvað sambærilegt og Kópernikus á að hafa sagt á 16. öld: „Hún snýst nú samt“.
Hvað geta kennarar og aðrir fullorðnir gert fyrir börn og ungmenni ef þetta er raunin? Hvernig menntum við komandi kynslóðir best?
Margt er svo sem til ráða, en sem umsjónarkennari á yngsta stigi með afar prúðan hóp legg ég áherslu á að hlusta á börnin, tengjast þeim og mæta þeim þar sem þau eru stödd. Við vinnum líka eftir einkunnarorðum skólans „Ábyrgð, traust og tillitssemi“ og leggjum ríka áherslu á vináttuna, en umsjónarnemandi dagsins fær að hafa bangsann Blæ sem táknar hana. Það er hægt að hafa kennsluhættina skapandi og fjölbreytilega. Við erum með Byrjendalæsi, þar sem verkefni eru samþætt og gjarnan skapandi, PALS sem er samvinna og paralestur, reglulega hringekjur svo engum leiðist einhæfnin, lært er um tilfinningalæsi um leið og lýsingarorðin eru numin, við syngjum, dönsum og tökum reglulega slökun. Nemendalýðræði er loks ástundað svo sem námsefni og hvernig er hægt að leika meira, en fylgja samt námsskránni, og að endingu eru reglulega bekkjarfundir. Á síðasta bekkjarfundi, sem var aukafundur að beiðni nemanda, kom fram hugmynd um að lengja skóladaginn.
Hvað annað getum við svo sem gert en að reyna að rækta andann og samskipti sjálf og leiðbeina ungviðinu í að gera það sama. Eða eins og kveðja svo margra hljómar í dag; Ást og friður, verðum góð hvort við annað.
Höfundur er grunnskólakennari og formannsframbjóðandi í Kennarafélagi Reykjavíkur.