Fjárlög fyrir árið 2016 hafa verið lögð fram og gera þau ráð fyrir 15,3 milljarða króna tekjuafgangi. Í stórum dráttum felur frumvarpið ekki í sér mikil tíðindi eða óvænt atriði, en mikil grisjun á tollafrumskóginum er fagnaðarefni og leiðir vonandi til góðs fyrir neytendur. Áframhaldandi lækkun skulda, sem nú eru komnar niður fyrir 65 prósent af árlegri landsframleiðslu, er einnig mikið fagnaðarefni, en vaxtakostnaður er þó enn íþyngjandi og nauðsynlegt að halda áfram á braut skuldalækkunar, enda á hin mikla skuldsetning ekki síst rætur í hruni fjármálakerfisins fyrir tæpum sjö árum.
Líklega á frumvarpið eftir að taka nokkrum breytingum í þinginu, en oft hefur fjárlagafrumvarp verið uppspretta meiri deilna og gagnrýni heldur en nú.
Mest krefjandi atriðin í hagstjórninni á næsta ári, sem stjórnmálamenn bera ábyrgð á, liggur þó ekki í því sem fram kemur í fjármálafrumvarpinu heldur í því sem ekki stendur þar. Þetta hafa bæði Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, bent á sjálfir og vísa þar til áætlunar um losun hafta og þeirra fjármuna sem ríkissjóður mun fá í sinn hlut þegar upp er staðið.
Óvæntur glaðningur
Ekki er víst að allir geri sér grein fyrir því hversu miklar óvissustærðir er um að ræða í þessu fjárlagafrumvarpi, en þær eru að öllu leyti jákvæðar fyrir ríkissjóð, held ég að sé óhætt að segja. Nema að stjórnmálamennirnir missi tökin og freistist til þess að grípa til óábyrgra en vinsælla aðgerða til þess að reyna að ná upp fylginu fyrir kosningar.
Það er ekki hægt að fullyrða með nákvæmum hætti hversu mikið mun koma í hlut ríkisins, en nú þegar liggur fyrir að kröfuhafar Glitnis hafa samþykkt að greiða 200 milljarða króna í svonefnt stöðugleikaframlag og sé horft til útfærslunnar á haftalosunaraðgerðinni, þá gætu um 500 milljarðar króna komið í hlut ríkisins eða seðlabankans.
Eins og sést hefur á aðgerðum stjórnvalda á þessu kjörtímabili, þá eru stjórnarflokkarnir tilbúnir til þess að eyða miklum fjármunum með umdeildum hætti. Hin svonefnda leiðrétting á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna, upp á 80 milljarða króna, er dæmi um það. Hún hefur ekki verið til vinsælda fallin, þvert á það sem margir héldu, og er stuðningurinn við stjórnarflokkana nú, 32,7 prósent samkvæmt Gallup, mun minni en hann var þegar aðgerðin var kynnt með miklu sjóvi í Hörpu 14. nóvember 2014.
Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér?
En hvað er best að gera við þetta fé sem mun fást úr þessari aðgerð, sem flestir sérfræðingar, bæði hér á landi og erlendis, hafa gefið góða umsögn?
Þessari spurningu munu ráðamenn þjóðarinnar þurfa að svara, meðal annars með aðgerðum og ákvörðunum á næsta ári. Það gæti orðið snúin staða að taka ákvörðun um hvað eigi að gera við svona gríðarlega mikla fjármuni, sem ekki var reiknað með í fjárlögum, rétt fyrir kosningar. Ætli það sé ekki óhætt að kalla slíkt freistnivanda á sterum.