Það hefur verið forvitnileg, erfið og góð reynsla að stofna til rekstrar alveg frá grunni, úr engu í eitthvað. Áskorunin sem heldur öllum á tánum er sú að halda jafnvægi milli gjalda og tekna. Það er hið sameiginlega verkefni allra sem að rekstrinum standa. Fá meira í kassann heldur en fer úr honum, að meðaltali, og reyna svo að bregðast við hratt í þau skipti sem það gengur ekki. Það þarf að færa fórnir sem geta verið nokkuð erfiðar og reynt á.
Mín rekstrarreynsla hefur fram að þessu verið bundin við rekstur heimilisins. Hann er krefjandi og um margt flókinn og erfiður. Óvissuþættir í heimilisrekstri eru oft mun fleiri en í rekstri hjá fyrirtækjum sem eru með stóra efnahagsreikninga. Óvænt viðhald, veikindi, bilaður bíll, verðbólguskot, hækkun stjórnmálamanna á opinberum gjöldum og sköttum. Allt getur þetta kallað á tímabundið ójafnvægi í heimilisrekstrinum og í versta falli þarf að grípa til sársaukafullra aðgerða strax. Þessi óvissuatriði vega líka oft hlutfallslega þungt miðað við veltuna, sem gerir ákvarðanatöku oft snúna og viðkvæma.
Þessi reynsla er góð og nytsamleg þegar kemur að fyrirtækjarekstri. Í grunninn snýst þetta um það að búa til jafnvægi milli útgjalda og tekna, og bregðast við ef það raskast. Best er að skulda aldrei neitt og reyna að haga málum þannig en það er ekki á allt kosið.
Skattur ofan á launakostnað
Eitt atriði hefur setið fastar í huga mér en önnur þegar að þessu fyrsta starfsári Kjarnans kemur.
Það er tryggingagjaldið svonefnda. Stjórnmálamenn hafa valið að leggja það flatt ofan á allan launakostnað, óháð stærð og umfangs rekstrar. Þetta, það er að huga ekki sérstaklega að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, finnst mér vera rangt hjá stjórnmálamönnunum og ég hef grunsemdir um að þessi skattur eyði störfum og dragi úr tekjum ríkissjóðs þegar allt er talið, einkum þegar kemur að nýsköpunarstarfi.
Á staðgreiðsluárinu 2014 er tryggingagjaldshlutfallið samtals 7,59% ofan á laun, samkvæmt vefsíðu ríkisskattstjóra. Þar af er tryggingagjaldið sjálft 6,04%, atvinnutryggingagjald 1,45%, og síðan bætast við gjald í ábyrgðasjóð launa (0,05%) og markaðsgjald (0,05%).
Launakostnaður vegur þyngst hjá litlum fyrirtækjum og er hlutfallslega erfiðasti þátturinn þegar kemur að því að hagræða. Tæplega átta prósenta skattur ofan á launakostnað, hjá fyrirtæki með undir 100 milljónir í árlegar tekjur, er víðáttuvitlaus hugmynd í flestum tilvikum. Svo ég tali nú ekki um að leggja gjaldið ofan á laun hjá fyrirtækjum sem eru jafnvel ekki með neinar tekjur, eins og algengt er með frumkvöðlafyrirtæki og uppfinningastarfsemi ýmiss konar sem gengur fyrir áhættu- og rannsóknarfé.
Skatturinn verður í þeim tilfellum fyrst og síðast að hindrun við að ná í fjármagn, þar sem óhjákvæmilegt er að fjárfestar sem koma að rekstrinum þurfa að líta svo á að þeir eigi að greiða þennan himinháa skatt og taka hann beint inn í áhættuna sem fylgir því að snúa uppfinningum eða góðum hugmyndum í stöndugan og góðan rekstur. Átta prósenta álag ofan á launin er slatti til viðbótar við annað sem metið er í inn í ávöxtunarmöguleikana. Kostnaðurinn við hvern starfsmann með um 500 þúsund krónur í laun fer nálægt 600 þúsundum, svo dæmi sé tekið.
Skiptir flesta máli
Þetta eru engin jaðarmál fyrir atvinnulífið. Samkvæmt upplýsingum sem Samtök atvinnulífsins hafa kynnt á opnum fundum sínum, og fleiri raunar, vinna 70 prósent Íslendinga hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þessi himinhái skattur á lítil fyrirtæki er ein stærsta hindrunin í veginum fyrir hröðum vexti þeirra. Með því að sérsníða þetta gjald að hagsmunum litlu fyrirtækjanna og frumkvöðla, til dæmis með því að lækka gjaldið í tvö prósent fyrir öll fyrirtæki með minna en 100 milljónir í árlegar tekjur eða sem uppfylla skilyrði sem nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtæki, aukast líkurnar á því að fjármagnið nýtist til vaxtar. Á þessu stigi í líftíma fyrirtækja er þetta oft á tíðum spurning um líf eða dauða. Tryggingagjaldið er vissulega mikilvægur tekjustofn fyrir ríkissjóð en þetta er spurning um hvort lækkun gjaldsins á mesta áhættutíma í rekstri fyrirtækja, það er alveg í blábyrjuninni, geti hugsanlega leitt til fjölgunar starfa og þar með á endanum meiri tekna fyrir ríkissjóð og samfélagið. Ég trúi því að svo geti verið.
Stjórnmálamennirnir vita ekki best hvernig á að fara með peninga og hafa margir hverjir ekki hundsvit á því hvernig það er að reka einkafyrirtæki úti í bæ. Þeir hafa í raun engar forsendur til þess að meta það almennilega og verða því að leggja við hlustir þegar ábendingar berast. Í mínum huga þurfa þeir að kafa meira ofan í skattkerfið og velta því fyrir sér hvort skattarnir sem þeir leggja á rekstur sé stundum bara til skaða. Dragi úr tekjum ríkissjóðs og drepi jafnvel frumkvöðlastarfsemi í fæðingu.
Það blasir við að þetta gengur ekki
Því miður blasir það við að tæplega átta prósenta skattur ofan á launakostnað lítilla fyrirtækja getur hindrað möguleika á því að ná í fjármagn, eykur áhættu fjárfesta umtalsvert og dregur auk þess úr möguleikanum á hröðum innri vexti, eins og oft er mikilvægt á fyrstu stigum fyrirtækja.
Þessi léttvæga reynsla mín, annars vegar af rekstri heimilis og hins vegar sem þátttakandi í því að stofna fyrirtækið sem gefur út Kjarnann, segir mér að oft geti verið erfitt að eiga við hindranir sem eru föst forsenda sem ekkert er hægt að gera í annað en að borga. Þannig er það með átta prósenta skatt ofan á laun í umsvifalitlum rekstri. Hann einn og sér getur ráðið úrslitum um hvort það takist að ná jafnvægi milli útgjalda og tekna.
Því miður er ég ekki vongóður um að stjórnmálamennirnir muni beita sér fyrir því að auka umsvif frumkvöðla og lítilla fyrirtækja með skynsömum aðgerðum eins og lækkun tryggingagjalds hjá þeim. En vonandi eykst áhugi þeirra á því að athuga hvort það geti verið að gjöldin sem þeir lögfesta á hverju ári geri ekkert gagn fyrir ríkissjóð, heldur þvert á móti. Ef sú athugun leiðir það í ljós að meiri líkur séu á því að hið fullkomna jafnvægi milli gjalda og tekna náist ef gerðar eru breytingar, þá verður þeim vonandi hrint í framkvæmd.