Það var áfall fyrir marga þegar þar kom fyrst fram fyrir alþjóð, eftir að bankakerfi landsins hrundi eins og spilaborg dagana 7. til 9. október 2008, hvernig staðið hafði verið að einkavæðingu bankakerfisins á árunum 1998 til og með 2003. Kolleggi minn og ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, skrifaði merkilegan greinaflokk um einkavæðinguna, í mars 2009, sem byggði meðal annars á gögnum um sölu á bönkunum, sem áður höfðu verið í geymslu leyndarhjúps stjórnmálamanna.
Margt má telja til gagnrýnivert við það hvernig staðið var að sölu á hlutum ríkisins í Búnaðarbankanum og Landsbankanum, en eitt atriði má sérstaklega nefna. Það er að söluferlið og salan á þessum eignum almennings hafi farið fram bak við luktar dyr. Ferlið var ógagnsætt og hefur Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, meðal annars viðurkennt að hafa ekki vitað nákvæmlega hverjum ríkið var að selja Búnaðarbankann!
Nú, tæpum sjö árum eftir síðustu uppstokkun á eignarhaldi fjármálakerfisins, blasir við ný staða þar sem ríkið hyggst selja stóran eignarhlut í Landsbankanum, líklega í kringum 30 prósent, og hugsanlega mun eignarhald á Íslandsbanka og Arion banka einnig taka miklum breytingum, sem hluti af áætlun um losun hafta og endurskipulagningu fjármálakerfisins. Stjórnvöld hafa mikla aðkomu að þessu ferli öllu og stýra ferðinni.
Íslenska ríkið á 98 prósent hlut í Landsbankanum, fimm prósent hlut í Íslandsbanka og 13 prósent hlut í Arion banka. Þetta eru mikil verðmæti, nálægt 300 milljörðum króna sé horft til eiginfjárstöðu bankanna.
Vonandi mun stjórnmálamönnum bera gæfa til þess að standa heiðarlega að þessari endurskiplagningu á eignarhaldi bankanna. Það er best gert með gagnsæju ferli þar sem almenningur getur fylgst með því beint, lesið gögnin sem er verið að fjalla um og séð á hvaða grunni ákvarðanir eru teknar. Spor sögunnar hræða og mikilvægt að þessi miklu verðmæti verði ekki seld í hendur vildarvina stjórnmálamanna með lánum frá öðrum bönkum eða sjóðum.