Björn Bjarnason, sem einu sinni var einn valdamesti maður landsins, hefur verið að dunda sér við að reyna að draga úr trúverðugleika Kjarnans undanfarna daga vegna skrifa okkar um þá niðurstöðu Persónuverndar að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi brotið lög. Alls hefur Björn ritað fjórar færslur um okkur á einni viku.
Niðurstaða Persónuverndar er reyndar alveg skýr. Í niðurstöðunni segir að embættisfærslan hafi brotið í bága við lög. Og það er niðurstaða allra fjölmiðla sem lesið hafa úrskurðinn utan Morgunblaðsins að lög hafi verið brotin. Allra.
Það sem tekist hefur verið á um eftir að niðurstaðan var birt er hvort það sé í lagi að lögreglustjóri brjóti lög eða ekki. Birni finnst það ekki skipta máli. Gott og vel.
Fjallaðu um það sem ég vil að þú fjallir um!
Þeir sem hafa lesið það sem Björn Bjarnason skrifar í gegnum tíðina vita að hann er ekki mikið fyrir að rökstyðja mál sitt með dæmum heldur notar mun frekar lýsingarorð eins og „sérkennilegt“ og „undarlegt“ og staðhæfingar á borð við „við blasir“ og „það dettur engum í hug að...“ Björn vill mun fremur að fjölmiðlar fjalli um rannsókn lekamálsins, sem honum finnst óeðlileg, en um efnisatriði þess máls. Látum þetta allt liggja milli hluta, enda Björn, fyrrum ráðherra, algjörlega frjáls að sínum skoðunum og ályktunum.
Hann, líkt og margir samferðarmenn hans í lífinu, fellur hins vegar í þann pytt að bera beinleiðis ósannindi á borð þegar hann hjólar í nafngreinda menn til að vega að trúverðugleika þeirra. Þessi hópur manna heldur enda að enginn geri neitt nema það sé í þágu einhverra annarlegra sérhagsmuna.
Hann, líkt og margir samferðarmenn hans í lífinu, fellur hins vegar í þann pytt að bera beinleiðis ósannindi á borð þegar hann hjólar í nafngreinda menn til að vega að trúverðugleika þeirra. Þessi hópur manna heldur enda að enginn geri neitt nema það sé í þágu einhverra annarlegra sérhagsmuna. Um daginn deleraði háskólaprófessor, vinur Björns, um að við værum að ganga erinda erlenda kröfuhafa, án þess að geta sýnt fram á það, enda er það ósatt.
Gamalgróin tengsl sem eru ekki raunveruleg
Björn hefur oft dottið í þennan gír. Og nú vill hann skýra allar fréttir Kjarnans um mál lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, og það að við höfum skúbbað skýrslu Persónuverndar í málinu, með því að þetta megi allt rekja til gamalgróinna tengsla minna við Þórð Sveinsson, lögfræðings hjá Persónuvernd.
Tvennt í þessu. Í fyrsta lagi er mjög skrýtið fyrir blaðamenn að vera gagnrýndir fyrir að skúbba. Það er beinlínis í starfslýsingunni að reyna að vera fyrstur með fréttirnar. Í öðru lagi þekki ég Þórð Sveinsson ekkert. Núll. Ég held að ég hafi aldrei hitt hann og kannski talað við hann tvívegis í síma fyrir einhverjum sjö eða átta árum í tengslum við fréttaskrif. „Gamalgróin tengsl“ mín við hann eru því engin.
Staðið í lappir gagnvart valdinu
Björn byggir þessa aðdróttun sína á Facebook-færslu manns sem bloggaði oft um mig þegar ég skrifaði fréttir af rannsókn Persónuverndar á söfnun Alcan í Straumsvík á persónugreinanlegum upplýsingum um íbúa Hafnarfjarðar í aðdraganda kosninga um stækkun þess álvers. Þeim manni var mjög umhugað um að ég og þessi Þórður værum í einhverjum tengslum. Þau tengsl voru hins vegar einungis til í huga hans.
Vert er að rifja upp að niðurstaða Persónuverndar í því máli var sú að Alcan hefði brotið lög við söfnun persónuupplýsinganna. Allar fréttir voru því réttar og sannar.
Lekamálið sýndi að fjölmiðlar landsins geta staðið af sér valdníð. Þeir bugast ekki undan oki gamalla valdatrölla sem vilja fá að mála veruleika allra í sínum litum, og halda alltaf ein á penslinum.
Lekamálið sýndi að fjölmiðlar landsins geta staðið af sér valdníð. Þeir bugast ekki undan oki gamalla valdatrölla sem vilja fá að mála veruleika allra í sínum litum, og halda alltaf ein á penslinum. Það er nánast enginn fjölmiðill undanskilinn í þessu. DV, 365-miðlarnir, RÚV, mbl.is, Kjarninn, Pressumiðlarnir, Reykjavík Vikublað o.s.frv. Þeir stóðu í lappirnar þegar valdið sagði þeim að hætta að fjalla um málin. Og niðurstaðan er dómur yfir aðstoðarmanni fyrir leka og afsögn ráðherra fyrir valdníðslu.
Kjarninn, líkt og flestir aðrir fjölmiðlar, er einungis að segja fréttir af máli sem skiptir samfélagið miklu. Traust á lögreglunni er gríðarlega mikilvægt.
Gömlu meðölin eru lyfleysa
Þessar fréttir eru ekki sagðir vegna þess að framkvæmdastjórinn okkar á pabba í löggunni, eða vegna þess þess að afi minn heitinn hafi verið lögga, eða vegna þess að einhver sem vinnur hjá okkur átti kærustu sem átti pabba sem var lögga fyrir áratug síðan. Þær eru ekki sagðar vegna þess að Þórður Sveinsson, maður sem vinnur hjá eftirlitsstofnun og ég þekki ekkert, sé að nýta sér „gamalgróin tengsl“. Hvaða hag ætti Persónunvernd enda að hafa af því að niðurstaða hennar leki áður en stofnunin vill birta hana?
Það virðist hins vegar vera að gömlum valdakreðsum sé mjög umhugað um að skýra fréttaflutning með öðru en sannleikanum. Þær nota gömlu meðölin sín til að koma því á framfæri. Og það er dásamlegt að þau eru hætt að virka. Þegar fólk áttar sig á því að þau eru lyfleysa hverfa áhrifin samstundis.