Yfirstandandi ár, 2022, sem senn rennur í aldanna skaut, verður fyrst og síðast minnst fyrir frelsisárið eftir helsi COVID-faraldurs um heimsbyggð alla. Og þegar horft er í baksýnisspegil vegna COVID, þá vakna óneitanlega gagnrýnar hugsanir, þar sem velta má því upp að viðbrögðin hafi verið of mikil og heiftarleg og eins hvort áskilnaður um bólusetningu hundruð milljóna manna með lítt þekktum og alls óprófuðum lyfjum hafi gengið of langt. Var þetta í raun heimsfaraldur, eða fóru stjórnvöld um heim allan á taugum? Sýndi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin þá nauðsynlegu yfirvegun sem er svo mikilvæg, þegar vísir að faraldri gerir vart við sig? Er hægt að gera betur? Þessi mál þarf að leiða til lykta með öfgalausum hætti, þar sem byggt er á vísindum og þekkingu.
Stríð í Evrópu
En yfirstandandi ár hefur vissulega verið viðburðaríkt – kannski einna helst vegna þess að stríð hófst í Evrópu, þegar Rússar réðust inn í Úkraínu algjörlega að tilefnislausu, en í anda illræmdar og allt of vel þekktrar nýlendu- og útþenslustefnu. Og afleiðingarnar hafa verið margháttaðar; skapað efnahagskrísu í álfunni, þar sem fæðuskortur hefur gert vart við sig, en aðallega þó orkuskortur, þegar Rússar vildu svara efnahagsþvingunum Vesturvelda með því að skrúfa fyrir sölu á olíu og gasi frá landinu. Þetta hefur framkallað óstöðugleika og samdrátt í Evrópu, verðbólgu og margháttuð vandamál. Þau er hins vegar hljómur einn í samanburði við ástand almennings í stríðshrjáðri Úkraínu, þar sem fólk býr við örbirgð og sífelldan ótta um líf sitt og fjölskyldu. Það verður stóra viðfangsefni heimsbyggðarinnar að koma á friði í Úkraínu á nýju ári!
Fólk á flótta
Þau eru því miður fleiri ófriðarsvæðin í heiminum, þar sem íbúar hafa verið knúnir til að flýja heimaland sitt og sækja sér skjól og lífsviðurværi langt að heiman – flóttafólk og hælisleitendur. Vestræn ríki hafa ekki fundið réttu úrræðin, sem gagn er í, þegar kemur að straumi flóttafólks til landa í Evrópu og víðar.
Það sama gildir um Ísland, þar sem stjórnvöldum hefur ekki tekist að sinna þúsundum flóttamanna, helmingur þeirra frá Úkraínu, sem sækja vernd og öryggi hér á landi. Við eigum að sýna mannúð og mildi og leggja okkar að mörkum. Að því er virðist tilviljanakenndir úrskurðir um brottvísun margra héðan hafa hins vegar eðlilega vakið heitar tilfinningar. Á hinum endanum er svo stór hópur Íslendinga, sem telur að of mikið sé gert í móttöku flóttafólks af Íslands hálfu. Þessi djúpa togstreita er óviðunandi. Gera verður þá kröfu til Alþingis og stjórnvalda, að menn og konur tali sig niður á sameiginlega niðurstöðu um regluverk, aðbúnað og verklag við móttöku flóttafólks. Forðast verður með öllum ráðum að þetta viðfangsefni kljúfi þjóðina í tvennt eins og gerst hefur í sumum nágrannalöndum okkar. Má þar nefna Svíþjóð, þar sem nýleg hægristjórn situr í skjóli öfgafulls hægri flokks, Svíþjóðardemókrata, sem byggir fyrst og síðast á hatri í garð innflytjenda.
Ríkisstjórn í vanda
Í íslenskri pólitík er eins konar stundarfriður, falskur friður, þar sem sitjandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna er að flestu leyti aðgerðarlaus, enda engin samstaða um hin stóru mál. Þessi ríkisstjórn getur eiginlega hvorki lifað né dáið.
Ekki er samkomulag um nauðsynlegar endurbætur á stjórnkerfi og skiptingu gæðanna, nauðsynlega styrkingu velferðarkerfis og mikilvægar stórfelldar lagfæringar í heilbrigðisþjónustu. Svo ekki sé talað um aðgerðir í húsnæðismálum, sem gera ungu fólki og venjulegu vinnandi fólki kleift að koma sér viðunandi þaki yfir höfuðið án þess að skapa sér skuldaklyfjar til áratuga. Nei, þarna er ekkert að frétta.
En ríkisstjórnin getur hins vegar ekki dáið, því flokkur forsætisráðherrans, Vinstri græn, hafa séð fylgi flokksins fjúka út í veður og vind og þora því ekki að ljúka samstarfinu og knýja fram kosningar, þótt grasrót flokksins geri eðlilega kröfur um slíkt. Og Framsókn „er bara með“, taka ekki á neinu sem máli skiptir. Yfir þessu trónir síðan Sjálfstæðisflokkurinn, þar sem nýendurkjörinn formaður hans deilir og drottnar úr fjármálaráðuneytinu.
Það er brýn þörf á uppstokkun og raunverulegum breytingum til bóta í íslensku samfélagi. Við jafnaðarmenn í Samfylkingunni héldum landsfund okkar í haust og kusum okkur nýja forystu í flokknum, þar sem Kristrún Frostadóttir var valin til forystu. Þar fer formaður sem almenningur kann að meta. Hún er raunsæ, lausnamiðuð og algjörlega laus við frasapólitík nútímans. Hún byggir á þekkingu, þar sem hún útskýrir flókin viðfangsefni á mannamáli og lýsir nauðsynlegum endurbótum og uppstokkun á mikilvægum innviðum. Samfylkingin - jafnaðarflokkur Íslands er mættur til leiks og vill taka við stjórn mála á Íslandi að afloknum kosningum. Við þurfum nýja, róttæka en skynsamlega nálgun að aðkallandi viðfangsefnum samtímans, sem byggir á grunngildum okkar jafnaðarmanna.
Persónulegir hagir
Miklar breytingar áttu sér stað á yfirstandandi ári á högum sjálfs mín. Ég hætti störfum sendiherra, sem ég hafði sinnt síðastliðin sextán ár víða um heim. Sneri aftur í stjórnmálin, sem var starfsvettvangur minn fyrir margt löngu. Ég bauð mig fram í bæjarstjórnarkosningunum í Hafnarfirði í maí síðastliðinn, þar sem við jafnaðarmenn tvöfölduðum bæjarfulltrúatölu okkar, fórum úr tveimur í fjóra fulltrúa. Vorum sigurvegarar kosninganna. Samt sem áður límdu íhaldsflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, sig áfram saman í framhaldandi meirihlutasamstarf. Hvort það samstarf haldi þegar harðnar á dalnum á eftir að koma í ljós.
Ennfremur var ég kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar og stíg því einnig á nýjan leik inn á svið landsmála og alþjóðamál. Ég hlakka til þeirra verkefna, sem eru sannarlega ærin. Ég skynja að tími okkar jafnaðarmanna muni renna upp fyrr en síðar, enda ljóst að meirihluti landsmanna er jafnaðarmenn í hjarta sínu og vilja frelsið, jafnrétti og samstöðu í öndvegi í íslenskum stjórnmálum. Þar er Samfylkingin í fararbroddi.
Ég óska öllum farsældar á nýju ári – 2023.
Höfundur er varaformaður Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands.