Nýlega dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur unga konu í tveggja mánaða fangelsi og að greiða háan málskostnað, fyrir að sparka í fót lögreglumanns í mótmælum, til stuðnings flóttamönnum, á Austurvelli í mars 2019, þungur dómur sem gefur tilefni til nánari skoðunar. Í örstuttu máli voru málavextir þessir og er stuðst við dómsúrskurðinn:
Í miðjum mótmælum, sem farið höfðu friðsamlega fram, ákveður lögregla að fjarlægja muni sem hún „taldi vera eldsmat“, pappaspjöld sem mótmælendur sitja á og neita að láta af hendi. Lögreglan myndar þá „plóg til að ryðja þeim frá,“ eins og segir í dóminum, svo að ná megi spjöldunum og í þeim átökum dregur lögreglumaður A ákærðu út úr hópnum, eftir vellinum og „sleppti henni í nokkurri fjarlægð frá hópnum“ þar liggjandi. Sparkaði þá ákærða í fætur A, segir starfsbróðir hans B í frumskýrslu sinni. Þolandinn A segir sparkið hafa komið í fót sér og hann „fundið til eymsla í sköflungi“ og því hafi svo fylgt tvö eða þrjú högg, mun kraftminni. Ákærða neitaði sök, hafi hún hins vegar sparkað voru það ósjálfráð viðbrögð við ástæðulausri og harkalegri meðferð, eða árás öllu heldur. Fyrrnefndur lögregluþjónn B og kona I, vitni sakbornings, stóðu bæði í nokkurra metra fjarlægð frá atburði og var vitnisburður B talinn trúverðugur, en fullyrðing konunnar um að hún hafi ekki séð að ákærða sparkaði í lögreglumanninn, var ekki tekin til greina. Nokkrar upptökur af atvikum liggja fyrir og sýnir engin þeirra sparkið í A, en að „ákærða liggi á vi. hlið og sparki einu sinni með hæ. fæti í átt að lögreglumanninum, með stefnu á fætur hans og sést hann þá stansa snögglega.“ Í dómsal sagðist þolandinn aðspurður ekki muna í hvorum fætinum eymslin voru og ekkert áverkavottorð lá fyrir.
Hver var eiginlega glæpurinn?
Segjum nú svo að konan hafi, þrátt fyrir allt, sparkað í lögregluþjóninn, er þá ekki sanngjarnt að skoða aðdragandann? Lögreglan ryðst inn í hópinn, dregur ákærðu töluverðan spöl eftir frosnum Austurvellinum og skilur hana þar eftir, liggjandi á vi. hlið, þaðan sem hún sparkar þá frá sér í fót fyrrnefndrar lögreglu. Er það mjög ókristilegt að sýna viðbrögðunum skilning, við þessar aðstæður og jafnvel fyrirgefa? Hver var upphaflegi glæpurinn? Jú, sá að neita lögreglu um að láta pappaspjöld af hendi! En dómarinn var ekki í vafa (og ekki deilir maður við hann) og dæmdi konuna seka, „óháð því hvort tjón hafi orðið af verknaðinum,“ eins og segir í úrskurðinum, sem byggir á ákvæðum 106.gr almennra hegningarlaga frá því herrans ári 1940, sem segir að hver sá sem ræðst með ofbeldi að opinberum starfsmanni við skyldustörf skuli sæta fangelsi allt að 8 árum. En þar segir einnig að beita megi sektum ef brot er smáfellt, þannig að með gagnályktun telur dómarinn greinilega umrætt brot stórfellt, sbr. fangelsisdóminn skilorðsbundna.
Gildir „góðmennskan“ ekki?
Fyrir skömmu skrifaði ég grein í Mbl. þar sem varað var m.a. við áberandi refsigleði ákæruvalds, aðallega vegna frjálslegrar túlkunar lögreglu á umdeildri 19.gr lögreglulaga. 5. maí s.l. birtist leiðari í Fréttablaðinu undir heitinu „Mildi er best“ og er þar m.a. vitnað í nokkurra ára gamalt viðtal við unga konu, varahéraðssaksóknara, sem sagði að of lítill munur væri gerður á alvarleika mála. „Þar mætti hífa refsingar upp fyrir alvarleg valdstjórnarbrot og láta vægari brotin niður falla.“ Sagði hún sáttamiðlun hafa gefist vel. Skyldi þessi sáttfúsi varahéraðssaksóknari vita hvaða embætti gaf út ákæruna í málinu sem hér er til umræðu?
Fyrir fáeinum dögum var í Mbl. sagt frá rannsókn tveggja fræðimanna við Háskólann á Akureyri um löggæslu í dreifbýli og segir þar m.a. „Mikilvægast er góð samskiptahæfni, sem grundvallist á samræðum, hæfileikanum að geta stillt til friðar og mjúkri löggæslu, til að viðhalda trausti almennings og samstöðu.“ Þeir benda einnig á að mikil undirmönnun sé í stéttinni, bæði í dreifbýli og þéttbýli, ástand sem vitaskuld er mjög streituvaldandi og auðvitað óviðunandi.
Að vísu gaf Gröndal gamli þetta ráð til lausnar: „Góðmennskan gildir ekki, gefðu duglega á kjaft,“ en hann lét nú líka ýmislegt flakka, sá mikli snillingur.
Máttur fælingarinnar
Það er fjarri mér að líkja okkar ágæta landi við einræðisríki, en á þeim bæjum eru þátttakendur í hvers kyns mótmælaaðgerðum handteknir og ákærðir fyrir „að stefna hagsmunum og öryggi ríkisins í hættu“ og hljóta svo misþunga dóma fyrir. Þarna eru valdhafarnir fyrst og fremst að nýta sér fælingarmátt refsivandarins, til að þagga niður í tjáningarfrelsi fólksins. Álíka stjórnkænsku þurfa stjórnvöld, í þeim ríkjum sem vilja teljast lýðræðisleg, að forðast eins og heitan eldinn.
Hér er samt ekki úr vegi að vekja athygli á aðferð ákærusviðs lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við útgáfu ákæra á hendur ungmennunum fimm, vegna mótmælasetu í dómsmálaráðuneyti í apríl 2019, þar sem gefin var út ein og ein samhljóða ákæra á stangli yfir 6 mánaða tímabil, sem jók, að ástæðulausu, samanlagðan málskostnað sakborninga um allt að 2 milljónir króna. Þarna sniðgekk lögreglustjóri meginákvæði 143.gr laga um meðferð sakamála nr 88/2008, sem kveður á um að í slíku máli skuli gefa út hópákæru. Fælingin er lævís og lipur.
Nefndin um eftirlit með lögreglu
Þegar fjallað er um samskipti almennings við lögreglu, verður ekki komist hjá því að minnast á nefndina um eftirlit með störfum lögreglu (NEL), sem tók til starfa í ársbyrjun 2017 og hafði það takmarkaða hlutverk að greina innsendar kærur og framsenda ætluð refsiverð brot til héraðssaksóknara en hafði ekki heimildir til að taka efnislega afstöðu til máls eða tryggja að það fengi viðunandi lausn innan hæfilegs tíma. Árið 2020 voru 210 mál enn til meðferðar hjá nefndinni og er meðal málsmeðferðartími um 180 dagar, í stað þeirra 30 daga sem reglugerðin segir til um, en alltof oft draga lögregluembættin lappirnar við að senda umbeðin gögn, andmæla jafnvel að afhenda þau. Sláandi dæmi um hægagang þessa kerfis er t.d. kæra A.J. frá júlí 2019, sem ekki var send héraðssaksóknara fyrr en í janúarlok 2020 (sjá hér í frétt Stundarinnar), en það tók embættið síðan 12 mánuði að komast að þeirri niðurstöðu að fella bæri kæruna niður, þar sem hún var ekki talin líkleg til sakfellingar. Reglurnar segja að héraðs- og ríkissaksóknari skuli taka ákvörðun um rannsókn innan mánaðar frá því er þeim berst niðurstaða nefndarinnar. Fyrir tæpri viku voru loks samþykkt lög sem skerpa á hlutverki NEL. Guð láti gott á vita.
Orð eru til alls fyrst
Ákærða er aðeins ein af mörgum sem hafa verið ákærð fyrir brot gegn valdstjórninni, í kjölfar mótmæla. Frá því refsivernd lögreglumanna var aukin rétt fyrir hrun, virðist umburðarlyndi þeirra fyrir hverskyns núningi og mótlæti í starfi hafa minnkað og málafjöldi í valdstjórnarbrotum aukist að sama skapi. Haldi einhverjir að unga fólkið sem stendur að friðsamlegum mótmælum og lætur í sér heyra, sé óalandi og óferjandi er það misskilningur. Væri ekki ráð að reyna að bæta það spennuþrungna andrúmsloft sem sannarlega er alltof oft til staðar svo og endurskoða refsigleðina, sem getur valdið ótrúlega íþyngjandi afleiðingum til framtíðar og oft í litlu samræmi við gjörninginn sjálfan. Meðalhófsreglan í lögreglulögum (14.gr) verður að fá meira vægi , en hún segir að leita verði vægustu úrræða gagnvart réttindum borgaranna, þegar yfirvöld taka sínar ákvarðanir og á við um öll stjórnvöld. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr er tjáningarfrelsið tryggt með ákvæðum í stjórnarskrá og mannréttinda-sáttmála og verður ekki svo auðveldlega vikið til hliðar.
P.S.: Nú fyrir helgi, þann 14.maí, staðfesti Landsréttur dóm yfir lögreglumanni (sjá hér í frétt Vísis) fyrir að hafa slegið gest á veitingastað, þegar sá var settur inn í lögreglubíl og í framhaldinu slegið hinn handtekna tvívegis í andlitið, þrýst hné sínu á háls og höfuð og þvingað handjárnaða handleggi hans ítrekað í sársaukastöðu fyrir aftan bak, þar sem hann lá á gólfi lögreglubifreiðar. Upptökur, m.a. úr lögreglubílnum voru til staðar. Lögreglumaðurinn neitaði sök og fékk stoð í framburði samstarfskonu sinnar á vettvangi. Hann hlaut 45 daga skilorðsbundið fangelsi.