Stefna Viðreisnar er þokkalega vel unnin, en í henni eru atriði sem valda ákveðnum áhyggjum.
Fyrsta atriði stefnunnar er loftslagsmál. Meginmarkmið er að uppfylla Parísarsamkomulagið, sem getur tæplega talist metnaðarfullt, við eigum jú að standa við alþjóðlegar skuldbindingar. Mikið er gert úr aðgerðaáætlun sem skuli lögð fram til fimm ára sem þingsályktunartillaga. Með skýrum markmiðum. Talað er um 7,6% árlegan samdrátt í losun sem ætti að leiða til 55% samdráttar á 10 árum.
Viðreisn vill nota hagræna hvata til að hvetja til orkuskipta. Nefnt er sérstaklega kolefnisgjald og að það skuli vera tekjuhlutlaust, það er að á móti þeim tekjum sem af því fást verði aðrir skattar og gjöld lækkuð. Sem er mjög af hinu góða.
Talað er um að tryggja nægt framboð af endurnýjanlegri orku til þess að orkuskipti geti farið fram. Það er í sjálfu sér augljóst, en hvernig verður það gert? Með meiri virkjunum, með orkusparnaði á öðrum sviðum eða með því að segja upp einhverjum núverandi orkusölusamningum. Allt eru þetta færar leiðir, misgóðar, en hvað hefur flokkurinn í huga?
Að banna nýskráningar bensín og dísilbíla árið 2025 virkar mjög metnaðarfullt. En gæti leitt til þess að árið 2024 verði stórt ár í innflutningi slíkra bíla. Það er nefnilega ekki gefið, þó svo að það vonandi rætist, að komin verði fram nothæf tækni sem hentar stærri bílum svo sem vörubílum og rútum.
Eitt atriðið er að setja sjálfstæð markmið fyrir losun sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda, það sem fellur undir viðskiptakerfi ESB og landnotkun. Markmiðin eru góð og gild, en þarna vantar að huga að leiðum til að ná þeim.
Hringrásarhagkerfið fær sína umfjöllun og ljóst markmið að gera sorp að nýtilegu hráefni. Ákaflega gott markmið, en enn sem fyrr vantar að gera grein fyrir einhverjum leiðum að markinu. Eins og til dæmis að samræma sorpflokkun milli sveitarfélaga. Bann við urðun lífræns úrgangs er eingöngu mögulegt ef tekst að endurnýta úrganginn. Það er þess vegna hæpið að benda á bann sem fyrsta valkost. Umfjöllunin er mjög á því stigi að tala um hugtök en ekki lausnir.
Talað er um að með rekjanlegu kolefnisspori geti neytendur tekið upplýstar ákvarðanir. En ekkert um það að slíkum upplýsingum sé komið á framfæri við neytendur. Í framhaldi af því er talað um að þeir sem menga skuli greiða gjald í samræmi við það. Ekki er alveg ljóst hvert samhengið er, en það er varasamt að blanda saman kolefnisspori vöru og losun vegna einhverrar starfsemi. Kolefnisspor vöru er rakið til fjölda framleiðenda og yfir landamæri ef því er að skipta. Sem er mun víðtækara en losun frá einstöku framleiðsluferli. Ef mengunargjald er grundað á kolefnisspori er hætt við að sama ferlið sé skattlagt oft.
Mikið er lagt upp úr sjálfbærni. Sem er jákvætt en þar er líka dálítið mikið rótað í hugtökum án þess að skilgreindar séu leiðir að markmiði.
Eitt atriði er til mikillar fyrirmyndar. Að aðgangur að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sé tímabundinn og afgjald verði ákveðið af markaði þar sem því verður við komið. Þá kemur að því hvort Viðreisn styðji ákvæði í stjórnarskrá um sameign þjóðarinnar á auðlindum.
Rammaáætlun fær sína umfjöllun og er flokkurinn fylgjandi áframhaldandi notkun á þeirri hugmyndafræði. Og að raforkufyrirtækjum verði gert að fullnýta sína framleiðslugetu áður en ný virkjanaleyfi verði gefin. Það er mjög hæpið því að bygging virkjunar getur tekið einhver ár.
Vernd og endurheimt vistkerfa fær sína umfjöllun, öfgalausa og raunhæfa. En í sjálfu sér ekki mikið um markmið og leiðir. Að endurheimta helming þess votlendis sem þurrkað hefur verið og er ekki í notkun ætti að vera mögulegt, jafnvel meira, en það veit bara enginn hvert umfangið er. Hætt er við að svo stór svæði séu í notkun undir ræktun, byggð og annað, að markmiðið um 50% minni losun náist ekki.
Endurskoðun á styrkjakerfi landbúnaðarins fær sína umfjöllun. Markmið er að gera styrkjakerfið umhverfismiðað í stað framleiðslumiðaðs eins og það er núna. Og að auðvelda bændum að færa sig yfir í umhverfisvænni landbúnað. Þetta eru mjög góðar hugmyndir.
Stuttur kafli er um náttúruvernd. Þar er lögð áhersla á að tryggja fjármagn til landvörslu og til að tryggja vernd svæða gegn ágengni. Minnst á mögulega gjaldtöku í sátt við almenning og sveitarfélög. En engar skýrar hugmyndir um hvernig það ætti að nást.
Í heild eru mörg góð atriði í þessari stefnu. Stundum vill textinn detta út í upptalningu á hugtökum án sérstaklega mikillar meiningar. Þá vilja markmið og leiðir gleymast.
Samantekt
Pólitískt gæti þessi stefna laðað að atkvæði. Hún er í flestum atriðum svipuð stefnu margra annarra flokka þannig að það ætti að vera styrkur til að koma flestum atriðum í framkvæmd.
Efnahagslega er byggt á hugmyndum um mengunarbótaregluna. Og talað um að á móti mengunargjöldum verði aðrir skattar lækkaðir. Sem er forsenda þess að sátt ríki um slíkt fyrirkomulag.
Samfélagslega virðist stefnt að því að nauðsynlegar aðgerðir komi ekki illa niður á neinum. Sem er gott. Kafli um landvörslu og friðlýst svæði gerir ráð fyrir að efla byggð í nágrenni þjóðgarða.
Tæknilega tekur stefnan ekki á mörgum þáttum. Tilfinningin af að lesa kaflann um hringrásarhagkerfið er að tæknilegar forsendur séu óljósar. Bjartsýni ríkir um að hægt sé að leysa tæknileg vandamál í orkuskiptum í samgöngum.
Höfundur er meðlimur í grasrótarhópi Landverndar í loftslagsmálum.