Dómur Hæstaréttar í Al-Thani málinu í gær markar tímamót að mörgu leyti. Í honum segir að mennirnir fjórir sem hlutu þunga dóma hafi framið alvarlegri brot en dæmi séu um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot. Brotin hafi beinst að „öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið, sem leiddi af þeim beint og óbeint, ekki metið til fjár.“ Brot þeirra voru „þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi.“
Lögmenn sem unnið hafa að hrunmálum virðast margir vera þeirra skoðunar að Hæstiréttur sé verulega afgerandi í niðurstöðu sinni. Hann víkur röksemdum héraðsdóms til hliðar og framkvæmir sjálfstætt mat á gögnum málsins. Dómurinn er svo ítarlegur að saga Kaupþings er rakin alla leið aftur fyrir einkavæðingu Búnaðarbankans. Öllum frávísunarkröfum vegna tæknilegra atriða er vísað út í hafsauga. Orðalagið er harðara en áður hefur þekkst. Í þessu máli, umfram önnur hrunmál sem hafa komið fyrir Hæstarétt, er verið að senda skýr skilaboð til héraðsdóms, lögmanna og síðast en ekki síst sakborninga um hvernig verði tekið á efnahagsbrotamálum sem tengjast hruninu.
Það er búið að draga nýja línu í sandinn.
"Tjakka, setja tjakkinn af stað, bara búa til eftirspurn"
Al-Thani málið snýst í grunninn um blekkingar. Stjórnendur Kaupþings og einn stærsti eigandi bankans lögðu á ráðin um að búa til sýndarviðskipti sem áttu að selja þá hugmynd að Sjeik frá Katar væri að kaupa um fimm prósenta hlut í Kaupþingi korteri fyrir hrun vegna þess að bankinn væri svo hrikalega sterkur.
Raunveruleikinn var sá að Kaupþing fjármagnaði viðskiptin að fullu og Ólafur Ólafsson, næst stærsti eigandi bankans, átti að geta hagnast á þeim með því að verða milliliður fyrir hluta af fjármögnuninni. Tilgangurinn var að skapa falska eftirspurn eftir hlutabréfum í Kaupþingi, halda hlutabréfaverðinu uppi og losa um hluti í Kaupþingi sem bankinn sjálfur sat uppi með vegna þess að það vildi enginn annar kaupa þá.
Í dómi Hæstaréttar kemur skýrt fram að það var einbeittur vilji allra sem að málinu komu að enginn myndi komast að þessum raunverulega tilgangi. Þar er vitnað í tölvupósta milli starfsmanna þar sem segir meðal að sýndarviðskiptin eigi að gerast „eins hratt og auðið er … þetta er bara þannig ég held að það sé, eigi bara að fara að tjakka, setja tjakkinn af stað, bara búa til eftirspurn“.
Þar kemur líka skýrt fram að enginn hafi mátt vita að aðkomu Ólafs að fléttunni og að hana ætti alls ekki að tilkynna til Kauphallar Íslands. Orðrétt segir: „hann má ekki flagga, við viljum bara að Qatarinn flaggi og enginn annar“. Á einhverjum tímapunkti velti greinilega einhver því fyrir sér hvort það væri í raun löglegt fyrir Kaupþing að fjármagna kaup á bréfum í sjálfum sér. Vitnað er í tölvupóst milli lögmanna þar sem segir: „einhver hætta á því að þetta súrni í höndunum á mönnum og þetta financial assistance geti komið upp? Banki sem fjármagnar í eðli sínu sjálfan sig. Kaupir í sjálfum sér … Erum við með eitthvað svoleiðis í lögum heima sem að gæti eitthvað truflað þetta?“
Nú er ljóst að þetta súrnaði. Það var ýmislegt í lögum á Íslandi sem truflaði þetta. Og fjórir menn eru að fara lengi í fangelsi fyrir vikið.
Ábyrgð ekki einskorðuð við hluthafa
Fyrir sérstakan saksóknara skiptir þessi niðurstaða miklu máli. Hæstiréttur hefur nú sakfellt í sex af sjö svokölluðum hrunmálum sem farið hafa fyrir hann. Eina málið sem Hæstiréttur hefur sýknað í er Vafningsmálið svokallaða. Alls eru sjö hrunmál í dómsmeðferð fyrir héraðsdómi og sex til viðbótar í áfrýjun til Hæstaréttar. 43 í viðbót eru í rannsókn eða bíða ákvörðunartöku um saksókn. Ljóst er að afdráttarleysi Hæstaréttar mun ráða miklu um afdrif þessarra mála og setja viðbótarþrýsting á að embættið fái nægjanleg fjárframlög til að klára rannsókn þeirra. Það er ekki staðan í dag.
Kerfið hefur sýnt að það getur staðið af sér þrýsting peninga- og valdaafla. Það hefur staðfest að hreinir, stroknir, hrokafullir og ríkir menn geti líka verið dæmdir í fangelsi fyrir að fremja lögbrot. Þeir eru ekki hafnir yfir lög og bera ábyrgð gagnvart fleirum en bara hluthöfum þeirra banka sem þeir stýrðu. Athafnir þeirra sköðuðu allt samfélagið og leiddu á endanum til hruns heils efnahagskerfis.
Þrýstingurinn hefur verið gífurlegur. Lögmenn hafa talað um aðför að réttarríkinu, þingmaður hefur sagt dóma ranga og að góð laun bankamanna væru greinilega ekki áhættunnar virði og álitsgjafar hafa sagt að það yrði áfellisdómur yfir Hæstarétti ef þessir menn yrðu sakfelldir.
Fjölmiðlar hafa alls ekki farið varhluta af þessum þrýstingi. Sakborningar, og menn á þeirra vegum, hafa ásakað fjölmiðla, bæði opinberlega og í einkasamtölum, um að vera þátttakendur í aðför fyrir að skrifa sannar og löglegar fréttir um framvindu málareksturs á hendur þeim. Þær ásakanir hafa oft á tíðum verið ofsakenndar.
Skiptir ekki máli hver þú ert
Sigurður Einarsson sagði í skrautlegu viðtali í gær að niðurstaðan í Al-Thani málinu sýni að á Íslandi sé fólk dæmt fyrir það sem það var en ekki það sem það gerði. Niðurstaða Hæstaréttar sýnir hins vegar nákvæmlega hið gagnstæða. Það skiptir ekki máli þótt fjórir menn geti eytt 171 milljón króna, leggi fram aragrúa tæknilegra frávísunarkrafna og geti skipulega reynt að hafa áhrif á umræðu um mál sem að þeim snúa, það er samt sem áður hægt að sakfella þá fyrir glæpi. Það skiptir ekki máli hver þú ert. Ef þú fremur glæp þá ertu dæmdur.
Sigurði finnst þetta „verulega brenglað“. En allir hinir, sem eru þeirrar skoðunar að athæfi mannanna hafi verið rangt, siðlaust og skaðavaldandi eru því líkast til ósammála. Það hefur nefnilega aldrei verið tekist á um það sem mennirnir í Al-Thani málinu gerðu. Það hefur einungis verið tekist á um hvort það sé löglegt eða ekki.
Það er búið að leggja línuna inn í framtíðina. Með þessari niðurstöðu, og þeim sem eftir munu fylgja, mun samfélagið fá tækifæri til að læra af því sem aflaga fór. Það er nauðsynlegt til að fá á hreint hvað má og hvað má ekki í íslenskum fjármála- og viðskiptaheimi. Verði ekki skerpt á þessu er hætt við að gamla hegðunin fari að gera vart við sig; að gráa svæðið stækki um of og að valdir fjárfestar og fyrirtæki komist upp með að kaupa sér stöðu ofar réttarríkinu.