Flestum er illa við fíkniefni. Fíkn orsakar enda í flestum tilfellum volæði og glundroða í nánasta umhverfi þess sem verður henni að bráð. Í hartnær hálfa öld hafa vestræn ríki gengið mislangt í því að reyna að banna fíknina í burtu með því að refsa fólki grimmilega fyrir að hafa fíkniefni undir höndum, selja þau eða færa á milli staða.
Það hefur ekki verið neinn staður fyrir skítugt fólk inni í stássstofu samfélagsins. Það er betur geymt niðri í kjallara þess.
Drakónísk nálgun sem hefur mistekist
Engin þjóð hefur gengið jafn langt í þessum málum og land hinna frjálsu og huguðu, Bandaríkin. Bandaríkjamenn fangelsa hærra hlutfall þegna sinna en nokkurt annað ríki. Í lok árs 2012 voru 707 af hverjum 100 þúsund Bandaríkjamönnum í fangelsi.
Frá því að Richard Nixon, þáverandi forseti, hóf hið alræmda „Fíkniefnastríð“ (e. War on drugs) árið 1971 hafa Bandaríkin eytt rúmlega einni billjón dölum í það. Þessir peningar hafa til dæmis farið í aukna löggæslu,fleiri fangelsi og fjölgun dómara, enda hefur stríðið leitt af sér hátt í 50 milljónir handtökur.
Á þessu tímabili hefur fjöldi þeirra Bandaríkjamanna sem eru á bakvið lás og slá farið úr því að vera undir hálfri milljón manna í að vera um 2,3 milljónir manna
Á þessu tímabili hefur fjöldi þeirra Bandaríkjamanna sem eru á bakvið lás og slá farið úr því að vera undir hálfri milljón manna í að vera um 2,3 milljónir manna. Stór hluti þessa hóps situr í fangelsi vegna fíkniefnamála. Á sama tíma og fíkniefnastríðið hefur fjölgað föngum um tæplega tvær milljónir hefur notkun á ólöglegum fíkniefnum í Bandaríkjunum staðið í stað. Fíkniefni eru auk þess bæði hreinni, fleiri og aðgengilegri en þau voru þegar stríðið hófst.
Hin drakóníska nálgun á vandamálið, að ætla sér að banna það í burtu og fjarlægja þá sem verða því að bráð úr samfélaginu, hefur því alls ekki virkað. Hún hefur raunar einungis gert hlutina verri. Mun verri.
Fólk leitar í fíkniefni þegar það verður óþarft
Það er víðtekin skoðun í Bandaríkjunum að fíkniefnastríðið sé einfaldlega hjól í þeim harða kapitalisma sem þar er rekinn. Með fækkun verkamannastarfa og flutningi verksmiðja til annarra landa þar sem vinnuafl er ódýrara hurfu mjög mörg störf sem áður borguðu nægilega vel til að framfleyta fjölskyldum. Misskipting hefur samhliða aukist alveg ævintýralega.
Í dag á ríkasta eitt prósent heimsins um helming auðs hans. Á eftirhrunsárunum, frá byrjun árs 2009, hefur ríkasta eitt prósent Bandaríkjanna tekið til sín um 95 prósent af öllum viðbótarauð sem hefur skapast, á meðan að 90 prósent þjóðarinnar hefur orðið fátækari. Misskiptingin hefur ekki verið jafn mikil síðan á þriðja áratugnum, rétt áður en kreppan mikla skall á í kjölfar allsherjarhruns fjármálakerfisins.
Þegar fólk er án atvinnu, án tilgangs og jafnvel án sjálfsvirðingar vegna þess að því finnst það til óþurftar fyrir samfélagið þá verður það óhamingjusamt.
Þegar fólk er án atvinnu, án tilgangs og jafnvel án sjálfsvirðingar vegna þess að því finnst það til óþurftar fyrir samfélagið þá verður það óhamingjusamt. Slík óhamingja fær fólk oft til að leita leiða til að deyfa hana ef aðrar leiðir til að ná viðunandi félagslegri og efnahagslegri stöðu eru ekki til staðar. Fljótlegasta, og ódýrasta, leiðin til að deyfa óhamingju er að nota hugbreytandi efni sem oft á tíðum eru ólögleg.
Bakaður hræringur=100 sinnum hærri refsing
Í Bandaríkjunum hefur meira að segja verið litið frekar niður á neytendur ákveðinna fíkniefna en annarra. Og þeir sem neyta þeirra geta átt von á harðari refsingum. Þegar krakkneyslu reið sér til rúms á níunda áratug síðustu aldar samþykkti Ronald Reagan, þáverandi forseti Bandaríkjanna, meðal annars lög sem í fólst að sá sem var gripinn með krakk fékk 100 sinnum hærri dóm en sá sem var gripinn með sama magn af kókaíni í duftformi.
Fyrir þá sem ekki vita er krakk búið til úr kókaíni. Eini munurinn er sá að bökunarsóda og vatni er bætt við og hræringurinn síðan bakaður þannig að hægt sé að reykja afurðina.
Fyrir þá sem ekki vita er krakk búið til úr kókaíni. Eini munurinn er sá að bökunarsóda og vatni er bætt við og hræringurinn síðan bakaður þannig að hægt sé að reykja afurðina. Það kemur líklega fáum á óvart að krakkneysla var almennust á meðal svartra Bandaríkjamanna sem bjuggu í fátækt, á meðan að kókaínneyslu var mun dreifðari milli þjóðfélagshópa. Þetta fyrirkomulag var við lýði þar til að Barack Obama samþykkti breytingar á lögunum. Nú fá krakkneytendur einungis 18 sinnum hærri dóm en kókaínneytendur.
Skelfileg birtingarmynd
Á Íslandi er birtingarmynd okkar stríðs gegn fíkniefnum ekki jafn öfgakennd og í Bandaríkjunum. En hún er samt skelfileg. Flestir þeirra 139 fanga sem afplána í íslenskum fangelsum í dag sitja inni fyrir fíkniefnabrot, eða 42 talsins. Þegar þeir sem afplána utan fangelsis eru taldir með eru fíkniefnafangarnir 55. Það eru fleiri en sitja samtals inni fyrir kynferðis- og ofbeldisbrot, en þeir eru 47 alls.
Þessi þróun hefur átt sér langan aðdraganda. Páll Winkel, sem nú er forstjóri Fangelsismálastofnunnar, skrifaði kandidatsritgerð fyrir nokkuð mörgum árum um þróun fíkniefnadóma á á Íslandi frá 1972 til ársins 1998. Niðurstöður hans sýndu að meðallengd dóma á tímabilinu 1972 til 1980 voru rúmir tveir mánuðir. Næstu árin þyngdust refsingar hægt og bítandi. Á síðast tímabilinu sem Páll skoðaði, frá 1996 til 1998, var meðaltal fallina dóma á fjórða ár. Þar vógu mest nokkrir mjög þungir dómar vegna innflutnings á e-töflum, meðal annars sex ára dómur yfir manni sem flutti 964 e-töflur og 88 grömm af kókaíni til landsins.
Samfélagsleg hystería leiddi til hærri dóma
Það greip nefnilega um sig hystería á Íslandi með eftir að það fór að bera á e-töflunotkun hérlendis. Mikill samfélagslegur þrýstingur var settur á herðingu refsinga og fordæmingu þeirra sem að slíkri neyslu komu.
Vegna þess hversu vel nýttur refsiramminn var orðinn í fíkniefnamálum um síðustu aldarmót var hann hækkaður úr tíu árum í tólf árið 2001.
Vegna þess hversu vel nýttur refsiramminn var orðinn í fíkniefnamálum um síðustu aldarmót var hann hækkaður úr tíu árum í tólf árið 2001. Á þeim tíma féll dómur vegna mesta magns e-taflna sem fluttar höfðu verið inn, 14.292 töflur, sem fundur á manni sem millilenti hérlendis á leið sinni til Bandaríkjana. Hann var dæmdur í níu ára fangelsi. Árið eftir að hinn víðari refsirammi tók gildi var Austurríkismaður gripinn með hátt í 70.000 e-töflur auk fjölda annarra fíkniefna. Hann var dæmdur í tólf ára fangelsi, eða hámarksrefsingu, í héraði en sá dómur var styttur í níu ár í Hæstarétti.
Brotum fjölgar og refsingar þyngjast
Dómar milduðust um tíma eftir aldarmót en svo upphófst þetta stríð ríkisins við borgaranna aftur.
Meðallengd refsinga þeirra fanga sem afplána nú fyrir stórfellt fíkniefnabrot í íslenskum fangelsum, eða öðrum úrræðum utan þeirra, er 68 mánuðir, eða tæp sex ár. Meðallengd refsinga er næstum því tvisvar sinnum lengri en hún var árið 2012 og hefur einungis einu sinni verið lengri en í dag í sögu þjóðarinnar, á e-töflu árinu mikla árið 2001.
Á meðan að brotum í flestum afbrotaflokkum hefur fækkað hefur fíkniefnabrotum fjölgað umtalsvert. Alls voru framin 2.183 slík brot í fyrra samkvæmt tölfræði ríkislögreglustjóra. Um 70 prósent fíkniefnabrota er vegna vörslu og meðferðar á fíkniefnum og er aukning skráðra brota langmest í þeim brotaflokki. Sala, dreifing og innfluttningur á fíkniefnum hefur einnig aukist mikið.
Efsta lagið sleppur að mestu
Ég hef setið þónokkur réttarhöld vegna fíkniefnainnflutnings. Það tekur mann ekki langan tíma að átta sig á að þeir sem dæmdir eru fyrir slíkan eru í fæstum tilfellum aðilarnir sem skipuleggja, og græða mest á, smyglinu. Höfuðpaurarnir eru næglega séðir til að halda nógu mikilli fjarlægð. Á meðan að fótgönguliðar undirheima taka alla áhættuna situr efsta lagið í glæpapýramídanum á sólbaðsstofunum eða drykkjuholunum sem það notar til að þvo afraksturinn, oft í félagsskap hins nauðsynlega millilags allrar skipulagðar glæpastarfsemi, lögmanna og endurskoðenda.
Oftar en ekki eru fótgönguliðarnir svokölluð burðardýr. Þau eru ýmist ungir íslenskir krakkar sem fara í smyglferðir til að gera upp skuldir, aldraðir meginlandsbúar að drýgja ellilífeyrinn eða skuggalegir snoðkollar frá Eystrasaltsríkjunum sem líta út fyrir að upplifa meira ógeð á einum degi í sínu heimaumhverfi en íslenskir undirheimar sjá á einu ári.
Ekki hægt að banna burt óhamingju
Þetta eru oftar en ekki ekki fólk sem er beint hættulegt samfélagi sínu. Það er veikt, óhamingjusamt, býr við vonlausan félagslegan veruleika og er vissulega til trafalla með atferli sínu. En það er engin lausn fólgin í því að loka það inni og brennimerkja það síðan frá fullri þátttöku í samfélaginu þegar það losnar.
Það er ekki hægt að banna burt óhamingju og það er ekki hægt að banna burtu þau efni sem það sækir í til að deyfa þá óhamingju.
Það er okkur gríðarlega mikilvægt samfélagsmál að við förum að nálgast fíkniefnaneyslu sem félagslegt- og heilbrigðisvandamál, ekki sem glæp. Það er ekki hægt að banna burt óhamingju og það er ekki hægt að banna burtu þau efni sem það sækir í til að deyfa þá óhamingju.
Með þeirri stefnu sem nú er við lýði, að refsa fólki grimmilega fyrir að vera sjúklingar, færum við líka verstu einstaklingum okkar samfélags mikil völd. Seðlabanki Íslands áætlar að velta ólöglegrar starfsemi á borð við fíkniefnasölu, smygl, vændi og heimabrugg sé um 6,6 milljarðar króna á ári. Þetta eru peningar sem glæpavæðing færir botnmennum íslensks samfélags og gerir þeim kleift að stunda sín myrkraverk áfram.
Þetta eru miðaldra, misþroska, siðlausir, veðurbarnir, harðgerðir glæpamenn sem eyðileggja kippur af ungum stúlkum og drengjum á hverju ári með því að gera þau að þrælum sínum í gegnum fíkniefnaánauð. Fyrir stúlkurnar er sú ánauð oft kynferðisleg, og veldur óbætanlegum skaða fyrir lífstíð. Fyrir drengi er hún fólgin í þátttöku í afbrotum sem skila þeim oft ungum í fangelsi og dæmdum úr leik í samfélagi manna.
Verðum að skipta um kúrs
Þrátt fyrir að glæpavæðing fíkniefna hafi ekki skilað neinum árangri öðrum en þeim að fylla fangelsin okkar af týndum ungmennum, vist sem kostar íslenska ríkið 7,4 milljónir króna á hvern haus á ári, þá er mikill meirihluti Íslendingar enn þeirrar skoðunar að það eigi að refsa fyrir neyslu fíkniefna.
Skoðunin virðist líka eiga harða stuðningsmenn á meðal þingmanna, þótt heilbrigðisráðherrann vilji skoða afglæpavæðingu af mikilli alvöru. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði til dæmis í umræðum um málið í vor að hann vildi ráðast að rótum vandans með því að efla löggæslu á landamærum. „ Við leysum þessi mál ekki endilega með því að hlaupa til í fljótræði og breyta um kúrs,“ sagði Þorsteinn.
Að viðurkenning á að ekki sé hægt að banna í burtu þetta samfélagslýti jafngildi uppgjöf gagnvart vandamálinu. Þetta er röng nálgun.
Viðmót Þorsteins endurspeglar mjög vel þá víðteknu skoðun að það sé með einhverjum hætti siðferðislega rangt að reyna nýja lausn á stórtæku vandamáli, þegar augljóst er að sú lausn sem reynd hefur verið áratugum saman virkar ekki, og gerir raunar vandamálið miklu verra fyrir samfélagið. Að viðurkenning á að ekki sé hægt að banna í burtu þetta samfélagslýti jafngildi uppgjöf gagnvart vandamálinu. Þetta er röng nálgun.
Það þarf að hjálpa veiku fólki, ekki fangelsa og brennimerkja það. Það þarf að slá vopnin, og peningana, úr höndum þess fámenna hóps sem nýtir sér þetta veika fólk. Reynsla Bandaríkjamanna af stríði sínu við borgaranna, sem er orðið sjálfstætt samfélagslegt krabbamein, á að vera öllum öðrum þjóðum víti til varnaðar.
Við verðum að hætta að banna skítuga fólkið úr stássstofunni.