Að hjálpa hjálpurunum
Undanfarið hefur aukin athygli beinst að fagfólki í hjálparstörfum. Viðbótarálag hefur verið á starfsfólk í velferðarþjónustu allra síðustu misseri, m.a. tengt Covid-faraldrinum og því ofurálagi sem hann hefur valdið í heilbrigðisþjónustu og í raun allri velferðarþjónustu, þ.e. heilbrigðis-, félagsþjónustu, barnavernd og í skólum. Það hefur skerpt vitund og umræðu um nauðsyn þess að hlúa að þeim sem hjálpa öðrum. Þetta er tengt hugsuninni um það að setja þarf súrefnisgrímuna á sjálfan sig áður en viðkomandi er fær um að veita öðrum hjálp. Í þessu sambandi hefur „súrefnisskortinum“ verið líkt við samúðarþurrð eða samúðarþreytu (e.compassion fatigue). Margbreytileg hugtök hafa verið sett fram í því sambandi s.s. kulnun, örmögnun, fagþreyta, starfsþreyta, útbrennsla, samhygðarþrot og samkenndarþreyta. Þessi hugtök snúa öll að einkenninu sjálfu, þ.e. birtingarmyndinni á því „skorts“- eða kreppuástandi sem að baki liggur. Það er ákall á að þegar allt er komið í óefni sé þörf á bráðainngripi líkt og þegar slökkva þarf elda. Hugtakið handleiðsla sem hér verður nánar vikið að, er af öðrum toga. Það vísar til forvarna, styrkingar og þroska sem miða að faglegri og persónulegri velferð í starfi. Í því felst að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann.
Eitt tilefni þessarar greinar er að fagna nýframkominni þingsályktunartillögu um greiningu á samúðarþreytu og tillögum að úrræðum (Þingskjal nr. 321/2021-2022). Við viljum nota það tækifæri til að reifa stöðu handleiðslumála á Íslandi og brýna stefnumótendur og stjórnendur á vettvangi til frekari aðgerða með því að veita þingsályktuninni brautargengi. Þannig verði gengið skrefinu lengra með áherslu á handleiðslukerfi sem forvörn en jafnframt með þróun úrræða þegar skaðinn er þegar skeður.
Þróun handleiðslu, sérfræðiþekking og menntun handleiðara
Heil fræðigrein hefur þróast með rannsóknum á gagnreyndri nytsemi handleiðslu, þróun vinnulíkana og aðferðanálgunar. Ein slík rannsókn sem nú er unnið að og nær til breiðs hóps fagfólks hér á landi, þar með talið samanburðarhóps, hefur hlotið styrk frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til að afla þekkingar á gildi handleiðslu í faglegu starfi. Í ljósi aukinnar þekkingar hafa framsæknar stofnanir sem þjónusta almenning komið á skipulegu handleiðslukerfi og líta á það sem fastan lið í innviðum stofnunar að vinna að fagþróun, vernd og þroska hvers fagmanns. Til þess að sinna því verkefni hefur fagfólk sótt sér sérfræðiþekkingu og þjálfun sem handleiðarar. Hér á landi hafa nokkrir tugir handleiðara útskrifast með diplómanám í handleiðslufræðum, ýmist frá Háskóla Íslands, Endurmenntun HÍ eða í samstarfi við erlenda háskóla. Nú sækir 27 manna hópur fagfólks með breiða reynslu af vettvangi 3ja missera námslínu á meistarastigi við Félagsráðgjafadeild HÍ. Námið er þverfaglegt og spannar fræðilegan grunn handleiðslufræða, klínískan þjálfunarhluta og sjálfsvinnu.
Fagfélag handleiðara, Handís
Um síðustu aldamót stóð nýr útskriftarhópur handleiðara ásamt frumkvöðlum á sviðinu að stofnun Handleiðslufélags Íslands, Handís. Félagið hefur staðið fyrir námskeiðum, ráðstefnum og margvíslegri fræðslu um handleiðslu á vinnustöðum velferðarþjónustu. Tuttugu ára afmælinu hefur verið frestað ítrekað (vegna covid) en verður fagnað á þessu ári með ráðstefnu með erlendum fyrirlesurum þann 23. júní. Í tengslum við 20 ára afmælið og sem liður í því að styrkja fræðigrunn og sess handleiðslu í íslensku velferðarkerfi, á sviði félagsþjónustu, barnaverndar, menntamála og réttargæslu, kom út bók á íslensku um handleiðslumál, Handleiðsla til eflingar í starfi. Vinnuvernd - Fagvernd - Mannvernd (Sigrún Júlíusdóttir, 2020a). Hópur höfunda af breiðu sviði velferðarþjónustu rita sautján kafla í bókina sem Sigrún Júlíusdóttir ritstýrir. Þetta er fyrsta bók sinnar tegundar á íslensku og hefur hún reynst kærkomin kennslubók fyrir háskólanemendur í hjálpargreinum og handbók fyrir fagfólk á vettvangi.
Blómaskeið fagmennsku- innreið markaðshyggju
Um miðja síðustu öld þróaðist gróskuskeið handleiðslu sem órofa hluti af klínísku starfi, ekki síst á sviði fjölskyldufræða og félagsráðgjafar í vandasömu hjálparstarfi. Ritaðar voru bækur og greinar um gildi handleiðslu fyrir persónulega og faglega velferð fagmannsins, sem liðar í fagþroska hans og tryggingu fyrir gæði þjónustu til skjólstæðinga (Sigrún Júlíusdóttir, 2020b). Á seinni hluta aldarinnar varð hnignun frá þessu „blómaskeiði“ og áherslur viku fyrir harðri innrás markaðshyggju (e. new public management). Henni fylgdi rekstrar-, afkasta- og niðurskurðaráhersla með auknum málaþunga í velferðarþjónustu, stærri og flóknari bekkjarheildum í skólum, sérfræðingaskorti og fráflæðisvanda í heilbrigðisþjónustu. Við tók aðþrengingarskeið þar sem heill og heilsa fagfólks vék fyrir áhrifum vélræns fyrirtækjareksturs, eins konar iðnvæðingar velferðar-og mannverndarþjónustu (e. human service organizations). Þetta á ekki aðeins við um fagfólk í hjálpargeiranum heldur má sjá þess merki víðar, ma. í háskólasamfélaginu eins og fjallað er um í grein Bjarna H. Kristinssonar og Skúla Skúlasonar (2020) í tímaritinu Skírni um iðnvæðingu háskóla.
Lokaorð
Einn hvati þess að velja sér hjálparstarf er samkennd og næmi sem (verðandi) fagmaður hefur þroskað með sér gagnvart sársauka og erfiðum aðstæðum annarra. Það er innbyggt í faghlutverk hjálpara að láta sig varða vellíðan annarra, jafnvel umfram eigin hag og heilsu (Figley, 1995). Þegar vilji og þörf hjálparans til að hjálpa er hneppt í skorður niðurskurðar og úrræðaskorts verður hætta á að persónulegt framlag hans, innlifunarhæfni og samkennd geti orðið á kostnað hans sjálfs, einkalífs hans og fjölskyldu.
Með því að byggja á handleiðslukerfi sem föstum lið í innviðum velferðarstofnana með það að markmiði að vernda, næra og styrkja þá sem hjálpa öðrum, má koma í veg fyrir heilsutjón og uppgjöf í starfi (Sigrún Harðardóttir og Sigrún Júlíusdóttir, 2019). Þetta snýr að öllum þeim sem hjálpa öðrum á breiðu sviði heilbrigðisþjónustu, þeim sem bera hag annarra fyrir brjósti í barnavernd og félagsþjónustu, þeim sem gæta réttar þeirra sem eru í samfélagslegri jaðarstöðu eða þarfnast aðstoðar á réttargæslusviði, og þeim sem koma börnum og ungmennum til þroska í skólum, uppeldis- og menntastofnunum landsins.
Sigrún Harðardóttir er félagsráðgjafi MSW, Ph.D. og dósent við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.Sigrún Júlíusdóttir er félagsráðgjafi MSW, Ph.D. og prófessor emeritus við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, handleiðari og þerapisti, Tengsl/Samskiptastöðin.
Heimildir
Bjarni K. Kristinsson og Skúli Skúlason. (2020). Iðnvæðing háskóla – Hvernig markaðs- og nýfrjálshyggja mótar starfsemi háskóla á 21. öld. Skírnir, 194, 177-196.
Ellis, M. V., Taylor, E. J., Corp, D. A., Hutman H. og Kangos, K. A. (2017). Narratives of harmful clinical supervision: Introduction to the Special Issue. The Clinical Supervisor, 36(1), 4–19. https://doi.org/10.1080/07325223.2017.1297753
Figley, C. R. (1995). Compassion fatigue: Toward a new understanding of the costs of caring. Í B. H. Stamm (ritstjórar), Secondary traumatic stress: Self-care issues for clinicians, researchers, and educators (bls. 3–28). The Sidran Press.
Herbert, J. T., Schultz, J. C., Lei, P. og Aydemir-Döke, D. (2017). Effectiveness of a training program to enhance clinical supervision of state vocational rehabilitation personnel. Rehabilitation Counseling Bulletin, 62(1), 3–17. https://doi.org/10.1177/0034355217725721
Johns, C. (2017). Imagining reflective practice. Í J. Christopher (ritstjóri), Becoming a Reflective Practitioner (bls. 1–18). (5. útgáfa). John Wiley & Sons.
Sigrún Harðardóttir og Sigrún Júlíusdóttir. (2019). Opinber stefna, skólakerfið og hlutverk kennara: Viðbragðsbúnaður skólans. Stjórnmál & stjórnsýsla, 1(15), 113–134.
Sigrún Júlíusdóttir. (ritstjóri). (2020a). Handleiðsla til eflingar í starfi. Vinnuvernd - Fagvernd – Mannvernd. Háskólaútgáfan.
Sigrún Júlíusdóttir. (2020b). Hugmyndagrunnur, upphaf, þróun og staða handleiðslufræða. Í Sigrún Júlíusdóttir (ritstjóri), Handleiðsla til eflingar í starfi. Vinnuvernd – Fagvernd - Mannvernd (bls. 17–61). Háskólaútgáfan.
Þingskjal nr. 321/2021-2022. Tillaga til þingsályktunar um greiningu á samúðarþreytu og tillögur að úrræðum. https://www.althingi.is/altext/152/s/0341.html