Helgi Magnússon fjárfestir keypti á dögunum þrjár milljónir hluta í N1 sem er skráð á markað, í gegnum félagið Hofgarða. Samtals voru viðskiptin upp á 109 milljónir króna og nemur heildareign félagsins 9,7 milljónum hluta, sem nemur meira 360 milljónum króna að markaðsvirði.
Það sem er athyglisvert við fjárfestingar Helga á markaði er að hann er einnig meðal þeirra sem eru í forsvari fyrir Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Þar situr hann í stjórn og er varaformaður stjórnar.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stærsti hluthafi N1 með 14,2 prósent hlut og situr Helgi í umboði sjóðsins í stjórn N1, og gegnir þar varaformennsku.
Hér takast því á ólíkir hagsmunir. Annars vegar persónulegir hagsmunir Helga, vegna fjárfestinga hans með bréf N1, og síðan hagsmunir sjóðsfélaga Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Þessir hagsmunir eru ólíkir, enda hafa forsendur viðskipta með bréfin á hverjum tíma verið ólíkar. Þar með talið gengi bréfa í viðskiptum á hverjum tíma, enda ráða tímasetningar viðskipta með skráð bréf öllu um forsendur ávöxtunar þegar fram í sækir.
Spurningin sem eðlilegt er að spyrja varðandi þessa hagsmuni er hvernig gengur að aðskilja þá þegar kemur að meðferð gagna og upplýsinga.
Það kemur sér óneitanlega vel fyrir fjárfestinn Helga Magnússon að vita nákvæmlega hvað stærsti hluthafinn er að hugsa, þegar kemur að N1, stjórnendum þess og stefnu. Enginn annar einkafjárfestir í félaginu getur búið yfir þessum upplýsingum, á nákvæmlega sama tíma og Helgi.
Lífeyrissjóðirnir þurfa að marka sér skýra afstöðu þegar kemur að hagsmunum stjórnmanna og starfsmönnum sjóðanna. Hvenær eru hagsmunaárekstrar og hvenær ekki? Lífeyrissjóður verzlunarmanna ætti að leggja sérstaka áherslu á að hafa þessa hluti á hreinu, með hagsmuni sjóðsfélaga í fararbroddi, enda illa brenndur af hagsmunaárekstrum.
Starfsmaður sjóðsins var í stórfelldum gjaldeyrisviðskiptum skömmu fyrir hrun fjármálakerfisins, þar sem hann tók þveröfuga stöðu við sjóðinn og hagnaðist um 600 milljónir króna persónulega, á sama tíma og sjóðurinn sjálfur tapaði tugum milljarða á sínu veðmáli, sem leiddi til skerðingar á lífeyri sjóðfélaga. Ákæra var gefin út vegna þessa, þar sem starfsmaðurinn taldi ekki fram þessar tekjur.
Óhætt er að segja að lífeyrissjóðirnir þurfi að hugsa vel um hvernig þeir geti hindrað hagsmunaárekstra á örmarkaðnum íslenska, þar sem þeir eru drifkrafturinn á fjármálamarkaði. Helgi Magnússon fjárfestir og Helgi Magnússon stjórnarmaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna geta ekki annað en hist á fundum, þar sem þeir eru einn og sami maðurinn. Líka inn á stjórnarfundum hjá N1. Ómögulegt er annað en að „þeir“ viti hvað er framundan þegar kemur að fjárfestingum Helga og lífeyrissjóðsins, og hvaða langtímasýn þessir hluthafar hafa á félagið sem um ræðir og fjárfestingarnar í bréfum þess.
En hvor ætli kaupi eða selji á undan, og hvers vegna, þegar að því kemur? Það er fullkomlega sanngjarnt að velta þessum spurningum upp í fjölmiðlum en lífeyrissjóðirnir þurfa að svara því skýrt í gegnum reglur sem þeir setja sér, hvernig þeir telja best að hindra hagsmunaárekstra með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi.