Formaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis kvörtuðu sárlega undan því í vikunni að það gangi ekkert að skera niður. Hagsmunaöfl sem haldi utan um einstaka hagsmuni stofnana verji þær með kjafti og klóm og noti viljuga fjölmiðla til þess. Varaformaðurinn, Guðlaugur Þór Þórðarson, kallaði eftir bandamönnum til að taka almennilega á málum svo hægt verði að ná niður vaxtagreiðslum ríkissjóðs, taka á hinu gríðarlega vandamáli sem ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar eru og forgangsraða vegna þess að Íslendingar séu að eldast hratt og munu þurfa mjög aukna þjónustu samhliða því.
Formaðurinn, Vigdís Hauksdóttir, bætti um betur í dag og segir við Morgunblaðið að „Þegar öllu er á botninn hvolft þá er kannski nærsamfélagið á Íslandi orðið þannig að það reyna allir að ota sínum tota. Ég vil meina að þetta verði ekki í lagi hjá okkur fyrr en Ísland verður að einu kjördæmi og kjördæmapot heyri sögunni til“.
Hafa rétt fyrir sér, en...
Bæði Guðlaugur Þór og Vigdís hafa rétt fyrir sér að nokkru leyti. Það er hárrétt hjá Guðlaugi Þór að huga þarf að framtíðinni og vinna á vaxtakostnaði, sem er 80 milljarðar króna á næsta ári. Við þurfum að taka á hallanum á opinbera lífeyriskerfinu, sem verður yfir 700 milljarðar króna á næsta ári. Og það þarf að ráðast í fjárfestingar í heilbrigðiskerfinu og þjónustu við aldraða, enda mun eftirlaunaþegum fjölga hraðar en vinnandi fólki á Íslandi frá og með árinu 2023. Fólk á eftirlaunaaldri verður fjórðungur þjóðarinnar árið 2065 en er í dag um ellefu prósent.
Það er rétt hjá Vigdísi að það er nauðsynlegt að landið verði eitt kjördæmi. Bæði er það ákaflega ólýðræðislegt að atkvæði eins Íslendings telji margfalt á við atkvæði annars einungis vegna þess að þeir búa á sitthvorum staðnum.
Það er rétt hjá Vigdísi að það er nauðsynlegt að landið verði eitt kjördæmi. Bæði er það ákaflega ólýðræðislegt að atkvæði eins Íslendings telji margfalt á við atkvæði annars einungis vegna þess að þeir búa á sitthvorum staðnum. Þetta fyrirkomulag ýtir líka, eins og Vigdís bendir á, undir stórfellt kjördæmapot. Ráðamenn hvers tíma, sama hvaða flokki þeir tilheyra, hafa nær undantekningalaust verið duglegir að fóðra sín heimakjördæmi.
Það sem er hins vegar skrýtið við gagnrýni fjárlaganefndarformannanna er þegar hún er mátuð við stefnu ríkisstjórnarinnar sem þau tilheyra.
Varðstaða um kirkju og landbúnaðarkerfi
Niðurskurður snýst alltaf um forgangsröðun. Hvað sé mikilvægt og hvað megi missa sín í ríkisrekstrinum. Áherslur sitjandi ríkisstjórnar hafa snúist um að lækka tekjur Ríkisútvarpsins, spara í menntakerfinu með því að hætta að borga fyrir framhaldsskólanám þeirra sem eru eldri en 25 ára, stytta atvinnuleysisbótatímann og neita að borga í starfsendurhæfingarsjóðinn VIRK þrátt fyrir að ríkið sé skuldbundið til að gera það samkvæmt lögum.
Á sama tíma hefur hún lækkað álögur á stóreignafólk, útgerðir og á dýrum raftækjum. En ef horft er einungis á niðurskurðarmöguleika þá eru þeir sannarlega fyrir hendi.
Á sama tíma hefur hún lækkað álögur á stóreignafólk, útgerðir og á dýrum raftækjum. En ef horft er einungis á niðurskurðarmöguleika þá eru þeir sannarlega fyrir hendi. Það væri til dæmis hægt að skera niður í framlögum til Þjóðkirkjunnar, sem námu um 4,2 milljörðum króna á þessu ári. Það væri hægt að skera niður í niðurgreiðslu til landbúnaðarins. Til dæmis í niðurgreiðslum á mjólkurframleiðslu (6,6 milljarðar króna á árinu 2015), á sauðfjárframleiðslu (4,9 milljarðar króna á árinu 2015), á grænmetisframleiðslu (581 milljón króna á árinu 2015), í framlagi til búnaðarsamlagssamnings (501 milljón króna á árinu 2015) eða í framlagi í framleiðnisjóð landbúnaðarins (126 milljónir króna).
Það hefði verið hægt að spara 209 milljónir króna (sem er reyndar talin vanáætlaður kostnaður) með því að sleppa að flytja Fiskistofu, í andstöðu við alla og án skiljanlegs rökstuðnings, til Akureyrar með handafli.
Skúffufé, aðstoðarmenn og Skagafjörður
Forsætisráðherra hefði líka getað sleppt því að úthluta uppsöfnuðu skúffufé upp á 200 milljónir króna til gæluverkefna, sem óvart voru að mestu í hans eigin kjördæmi. Ríkisstjórnin hefði líka getað sleppt því að fjölga aðstoðarmönnum og ráðgjöfum sínum af slíkum ofsa með þeim afleiðingum að kostnaður við rekstur Ríkisstjórnar Íslands hefur farið úr því að vera 242,5 milljónir króna á árinu 2013, þegar sitjandi stjórn tók við, í 339,6 milljónir króna á næsta ári.
Og það hefði verið hægt að sleppa því að gera 500 milljóna króna þjónustusamning um rekstur meðferðarheimilis í Skagafirði (í andstöðu við vilja allra sérfræðinga), viðra hugmyndir um flutning hluta starfsemi Landhelgisgæslunnar til Skagafjarðar eða að flytja RARIK til Skagafjarðar. Raunar virðast vera gríðarleg sparnaðartækifæri í því fyrir íslenska ríkið ef ráðamenn myndu hætta að líta á Skagafjörð sem nafla alheimsins, því kjördæmapot núverandi ríkisstjórnar virðist að mestu snúast um færslu á öllu sem mögulega er hægt að rífa upp með rótum þangað.
Þeir sem geta farið fram úr
En fyrst og síðast er óskiljanlegt að heyra formann og varaformann fjárlaganefndar, sem bæði studdu þá aðgerð að taka 80 milljarða króna úr sameiginlegum sjóðum landsmanna til að lækka með handahófskenndum hætti verðtryggð lán hluta þjóðarinnar, þar sem mestur hluti þiggjenda hefur litla þörf fyrir peningana sem allir hinir eru að gefa þeim, kjósi að minnast ekkert á þann fordæmalausa gjörning þegar rætt er um jafnvægi í ríkisbúskapnum. Vigdís sagði meira að segja í viðtali nokkrum dögum áður en hún kvartaði undan erfiðleikum við niðurskurð að hún skildi ekki „hvernig fólk getur farið fram úr á morgnana þegar það er búið að gagnrýna það að tæplega 100 þúsund Íslendingar fengu skuldaniðurfellingu“.
Ef milljarðarnir 80 hefðu verið notaðir til að lækka skuldir ríkisins hefðu vaxtagjöld ríkisins minnkað um nokkra milljarða króna á ári til frambúðar.
Ef milljarðarnir 80 hefðu verið notaðir til að lækka skuldir ríkisins hefðu vaxtagjöld ríkisins minnkað um nokkra milljarða króna á ári til frambúðar. Ef þeir hefðu verið notaðir til að borga inn á lífeyrisskuldbindingar opinberu sjóðanna hefði verið stigið stórt skref í átt að því að leysa það risavaxna vandamál. Hefðu þeir verið notaðir í heilbrigðiskerfið hefði verið hægt að byggja eitt stykki nýjan Landsspítala.
Afstaða Guðlaugs Þórs og Vigdísar gagnvart ríkisrekstrinum verður því að einhverskonar afbrigði af hentugleikablindu gagnvart hinu augljósa.