Undirritaðri brá verulega í brún við lestur greinar Sunnu Óskar Logadóttur í Kjarnanum 25. febrúar. Þar kom fram vilji Byggðarráðs Skagafjarðar til að færa Jökulsárvirkjanir í Skagafirði úr verndarflokki í biðflokk. Hér er sem sagt um sjálf Héraðsvötnin að ræða. Og tilefnið er að rammaáætlun (þingsályktun um verndar og orkunýtingaráætlun) skal á nýjan leik lögð fram á Alþingi. Í sama blaði þann 1. mars bendir forstjóri Landsvirkjunar í umsögn um áðurnefnda rammaáætlun á þær „óafturkræfu afleiðingar sem verndun heilla vatnasviða í kjölfar flokkunar eins virkjunarkosts í verndarflokk hefur í för með sér. … Fyrirtækið mælist til að slíkar ákvarðanir verði látnar bíða heildstæðrar endurskoðunar á rammaáætlun og umræddir virkjunarkostir í vatnsafli verði færðir í biðflokk“ (Leturbr. mín). Hann bendir einnig á að í verndarflokki tillögunnar séu þrír kostir Landsvirkjunar í Héraðsvötnum: Skatastaðavirkjanir C og D og Villinganesvirkjun.
Svo mörg voru þau orð og ég verð að játa mig steinhissa á, að sjálfur forstjóri Landsvirkjunar skulu láta þetta frá sér fara, mér finnst sem hann hafi misskrifað sig. Að verndun heilla vatnasviða hafi óafturkræfar afleiðingar í för með sér. Hvað ef virkjað verður á vatnasviði Héraðsvatna svo grimmilega sem áætlanir gera ráð fyrir? Hvað er þá óafturkræft? Til hvers er þá verið að basla við að moka ofan í gamla skurði niður í Vallhólma og víðar í því skyni að bjarga loftslagsmálunum ef það reynast óafturkræfar afleiðingar að vernda Jökulsárgljúfur og víðátturnar þar upp af? Álfhildi Leifsdóttur er þetta ljóst. Hún bendir á í bókun á fundi Byggðarráðs að:
Að ætla eitthvað annað er að mínu mati vanvirðing við þá vísindamenn sem komið hafa að gerð rammaáætlunar og gengið frá borði með þá niðurstöðu sem nú er.
Ég hvet fólk til að kynna sér umrædda fundargerð Byggðarráðs Skagafjarðar frá 16. feb s.l. Sjálf var ég svo græn að álíta þetta útrætt mál, fyrir löngu. Mér fannst sem umhverfisráðherra ætti bara eftir að blessa þetta með friðlýsingu vatnasviðs Héraðsvatna. Úr því að hægt var að friðlýsa Látrabjarg sem aldrei mun haggast, hvað er þá til fyrirstöðu að friðlýsa Jökulsárgljúfur og koma þar með í veg fyrir eyðileggingu þeirra.
Já, hér er um að ræða meirihlutavilja Byggðarráðs Skagafjarðar og vilja forstjóra Landsvirkjunar en hvað með vilja annarra s.s. allra Skagfirðinga eða landsmanna yfirleitt er meirihlutavilji þar fyrir að virkja Héraðsvötn? Hvað segja náttúruverndarmenn og -konur? Hvað segir ferðaþjónustan?
Áhyggjur af raforkuskorti er ofarlega á blaði í bókun Byggðaráðs. M.a. er bent á að: „áform um iðnaðaruppbyggingu á Hafursstöðum við Húnaflóa strönduðu fyrir fáeinum árum síðan á orkuöflun“. Aftur verð ég steinhissa, í mínu minni var allt önnur ástæða fyrir því að álver við Hafurstaði varð ekki að veruleika. Hins vegar virtist ekkert því til fyrirstöðu að reisa gagnaver á Blönduósi, en: „raforkuþörf gagnaversins er 34 megavött og möguleiki á að tvöfalda þá orku án breytinga. Þá er í skipulagi gert ráð fyrir allt að fimmföldu byggingamagni til viðbótar á þessu svæði.“ Ja, hérna ef satt er. 34 MW, rétt svona ein Villinganesvirkjun. Og hvað er nú verið að fást við á Blönduósi? Meðal annars er þar grafið eftir rafeyri (bitcoin) fyrir þá sem varla vita aura sinna tal. Og hvað skyldu margir starfa við peningagröftinn?
Annað mál sem tengist raforkuskorti/ekki raforkuskorti er ástand dreifikerfis t.d. byggðalínu. Ég fer ekki út í þau mál hér en bendi á ágæta úttekt varðandi það eftir Frey Rögnvaldsson í Stundinni 25. feb. s.l.
Upp virðist risinn draugur, ef til vill er það sjálf Ábæjarskotta sem ætlar að skella sér yfir Jökulsá eystri til að gera óskunda á Skatastöðum, fer kannski niður í Villinganes í leiðinni. Ég skora á þingmenn að standa gegn slíkum uppvakningum, standa í lappirnar og sýna að þeir meini það sem þeir segja á hátíðar- og tyllidögum um náttúruvernd á Íslandi.
Höfundur er rithöfundur.