Íslensk/Ameríska verslunarráðið stóð fyrir fundi í gær, að loknum árlegum aðalfundi ráðsins, þar sem Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, var endurkjörinn formaður. Það fer vel á því að Jón sé formaður ráðsins, enda Össur með viðskiptarætur sínar í Bandaríkjunum og fáir Íslendingar með jafn mikla reynslu af viðskiptum á þessu stærsta markaðssvæði heimsins og hann.
Bardaginn við verðbólgudrauginn
Eftir formleg aðalfundarstörf, á hinum virðulega 21 klúbbi á 52. stræti á Manhattan, fór fram fundur með gestum þar sem Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, flutti erindi um stöðu efnahagsmála á Íslandi og áskoranir framundan. Jón kynnti Þorstein til leiks. „Við upplifðum stórbrotið hrun, og endurreisnin hefur um margt verið stórbrotin líka, og að sumu leyti óvænt. Fyrir mína parta mættum við Íslendingar upplifa minna stórbrotnari hagsveiflur,“ sagði Jón og uppskar hlátur í salnum.
Rauði þráðurinn í erindi Þorsteins var að skýra fyrir fundargestum, hvernig íslenska hagsagan væri í stórum dráttum; bardaginn við verðbólguna, háir vextir, miklar sveiflur og síendurtekið gengisfall krónunnar. Eins og staða mála er nú þá mælist verðbólga 1,9 prósent og Bandaríkjadalurinn kostar 124 krónur, og hefur gengi krónunnar styrkst nokkuð á undanförnum mánuðum en í byrjun júlí kostaði hann 136 krónur. Þrátt fyrir þessar þekktu sveiflur þá væri íslenska hagkerfið um margt sterkt, og útflutningshliðin hefði blómstrað á undanförnum árum, ólíkt mörgum öðrum tímabilum í hagsögunni. Það væri ekki síst ferðaþjónusta sem hefði vaxið hratt og hún væri nú burðarstólpi í atvinnulífinu.
Þorsteinn fór ítarlega yfir þróun á vinnumarkaði, en áhyggjur hans af stöðu mála þar komu sterkt fram. Launahækkanir upp á 20 til 30 prósent yfir allan vinnumarkaðinn væru ekki sjálfbærar og óhjákvæmilegt væri að þær skiluðu sér í aukinni verðbólgu og hærri vöxtum. Fyrir Íslendinga í salnum voru þetta ekki ný tíðindi, en það var skynjun mín að þessi þróun væri að koma þeim bandarísku gestum sem sátu fundinn nokkuð á óvart.
Vaxtamunur og sjálfstæð mynt
Vaxtamunarsviðskipi erlendra fjárfesta, sem áttu stóran þátt í því að styrkja gengi krónunnar fyrir hrunið, eru aftur farin að sjást hér á landi, eins og greint hefur verið frá að undanförnu. Þorsteinn sagði þetta kannski koma einhverjum á óvart, í ljósi hrunsins og haftanna, en þetta væri engu að síður staðreynd. Sama myndin væri farin að teiknast upp og áður, og nú reyndi á að læra af fyrri mistökum. Hagstjórnin þyrfti að markast af góðu samstarfi aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera. Mörg góð merki væru í hagkerfinu, en passa þyrfti að ganga ekki of hratt um gleðinnar dyr, í efnahagslegu tilliti. Næstu árin þyrfti að sýna ábyrga hagstjórn í verki, og forðast of mikla spennu í hagkerfinu. Annars væri voðinn vís.Glöggt er gests augað, er stundum sagt. Einn þeirra sem spurði Þorstein út í stöðu mála, þegar opnað var fyrir spurningar að loknu erindi, var Andrea Fiano, ritstjóri Global Finance. Hann sat þögull og hlýddi á erindi Þorsteins, og punktaði hjá sér atriði sem honum þótti markverðust. Svo spurði hann: „Er umræðan um hvort sé skynsamlegt að vera með sjálfstæða mynt, krónuna, lifandi ennþá, í ljósi þessara sveiflna sem þú ert að lýsa?“. Þorsteinn sagði þetta góða spurningu. Þetta væri vissulega mikilvægt atriði til þess að ræða um á pólitískum vettvangi. Það þyrfti að gefa þessu gaum, og peningastefnan í landinu, með sínum kostum og göllum, hefði mikið verið rædd, án þess að nokkrar breytingar hefðu verið gerðar eða væru fyrirhugaðar.
Þegar þessi spurning kom upp, þá vaknaði ég eiginlega upp við það, að rökræðan um hvort það sé skynsamlegt að vera með eigin mynt í hagkerfi þar sem 170 þúsund manns eru á vinnumarkaði, virðist vera alveg dauð. Nú er mátulega langt um liðið frá „stórbrotnu“ hruni fjármálakerfisins á Íslandi og lagasetningu fjármagnshafta til að tryggja stöðugt gengi krónunnar, til þess að þetta mál virðist næstum gleymt.
Sagan að endurtaka sig?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alveg bakkað út úr hugmyndum sínum um upptöku evru með hjálp Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hann auglýsti í dagblöðum eftir hrunið sem leið út úr vanda peningastefnunnar, og kjósendur hafa í kosningum algjörlega hafnað þeim flokkum sem vilja setja inngöngu í Evrópusambandið á oddinn, með upptöku evrunnar. Hugmyndir úr grasrót Sjálfstæðisflokksins, þar sem meðal annars var gælt við upptöku Kanadadals, virðast líka alveg komnar ofan í skúffu. Krónan er vopnið sem á að nota áfram.
Eftir þennan ágæta fund á Manhattan, nálægt hjartanu í miðstöð fjármagnshreyfinganna, þá situr helst eftir, að sagan um miklar efnahagslegar sveiflur á Íslandi, með reglulegu gengisfalli, verbólguskoti, vaxtahækkunum og stórkostlegum millifærslum á skuldbindingum milli kynslóða, sé endalaus. Og það sem meira er: íslenskum stjórnmálamönnum finnst hún skemmtileg.