Margt einkennir tuttugustu og fyrstu öldina í tímatali mannkyns umfram síðustu öld. Hæst ber sennilega öflugar tækninýjungar, öra hnattvæðingu efnahagskerfa, menningarheilda og hugmyndakerfa yfirleitt, auk tiltölulega augljósra breytinga á lofthjúpi jarðar. Breytingarnar eru það hraðar að hugir manna og þau kerfi, sem þeir hafa skapað til að halda utan um þekkinguna, virðast ekki duga til að hafa yfirsýn svo nokkru nemi.
Hlutfallslega örfáir einstaklingar, vísindamenn af mismunandi rannsóknarsviðum, gera sér þokkalega grein fyrir umfangi og jafnvel inntaki þekkingarinnar. Almenningur fer gjarnan villu vegar s.s. í þekkingu á lýðfræði og skyldum þáttum í heimsþorpinu og reyndar á það líka við um fjölmiðlafólk og háskólaborgara. Ola Rosling, sænskur læknir á alþjóðlega vísu, hefur sýnt fram á það frammi fyrir fjölmörgum áheyrendum, með því að gera úttekt á þekkingu þeirra á ýmsum staðreyndum um íbúa jarðar.
Sem lífvera er maðurinn ekki enn orðinn miðaldra. Frá myndun fyrstu örverunnar til mannsins í núverandi mynd eru liðnar um 4,5 milljarðar ára af líftíma jarðar, samkvæmt Sir Martin Rees, prófessors í heims- og stjarneðlisfræði. Enn eru 5,5 milljarðar ára eftir, þ.e. þar til sólin okkar hefur leyst upp allan kjarna sinn, brennur út og líf jarðar hverfur. Ef við hefðum horft á þróun jarðarinnar utan frá, sem geimverur á annarri plánetu, hefðum við lengst af ekki séð neinar breytingar aðrar en að völdum náttúrunnar. Séð ísbreiður stækka og minnka, lönd færast til og yfirborð jarðar breytist vegna eldgosa. Allra fyrstu manngerðu breytingarnar verða sýnilegar með tilkomu akuryrkjusamfélaga fyrir aðeins um 11 þúsund árum síðan.
Nú á síðastliðnu sekúndubrotabroti af ævi mannsins og forvera hans sem lífvera, tekur mannfólkinu að fjölga sífellt örar, það þjappar sér saman í borgir og tekur til við iðnaðarfamleiðslu. Afleiðingar þess eru á okkar tímum að koltvísýringur í andrúmslofti er í sögulegu hámarki, en hann er nú sambærilegur við magnið sem var fyrir milljónum ára. Ofræktun lands og óhófleg notkun kemískra efna á náttúruna er alþjóðleg. Dr. Bob Ward, framkvæmdastjóri innan CCCEP bendir á að mennirnir hafa nú sjálfir endurskapað forsögulegt veðurfar og snúið loftslagsklukkunni við. Eins og hendi sé veifað þekja auk þess margsskonar raf- og örbylgjur jarðkringluna og mennirnir hasla sér völl utan jarðar. Þeir setja mark sitt á eigin stjörnukerfi með geimförum og gervihnöttum að lágmarki.
Hugtakið hraði nær vart yfir þann vöxt þekkingar og tækni sem er að verða til, en kannski veldishraði. Spurning er jafnvel hvort „tíminn“ sjálfur fái breytta merkingu?
Vísindamenn eru frekar en ekki á því að minnis- og vinnslugeta mannsheilans sé allt að því fullnýtt. Maðurinn geti ekki aflað sér þeirrar orku sem frekari heilastarfsemi þarfnist. Aðrir mótmæla því s.s. „biohackers“ eða lífhakkarar, og segja að breytt mataræði, lífræn og ólífræn lyf, hugleiðsla og e.t.v. fleira geti virkjað heilan töluvert betur en nú er. Ef mannkynið þróast áfram í 5-6 milljarða ára, hvað ætli tegundin heiti þá og hvers verður hún megnug?
Ég hef stiklað á verulega stóru, snert á tækni- og vísindaheiminum og gengið út frá því að jarðkringlan sé eitt heimsþorp í efnahags-, náttúrufarslegu og menningarlegu tilliti. Hvar allur almenningur stendur í þeirri veröld hef ég varla nefnt. Hvernig komum við börnum samtímans og kynslóðum framtíðar til manns? Hvaða hlutverk hafa skólar og aðra menntastofnanir í framtíðinni? Eða er spurningin kannski fremur; hvernig menntum við hvort annað?
Höfundur er grunnskólakennari og formannsframbjóðandi í Kennarafélagi Reykjavíkur