Hvað á Ísland að verða þegar það er orðið stórt?

Auglýsing

Það felast mýmörg tækifæri í því þegar heilt ríki skellur á botninum. Þaðan er besta viðspyrnan og mögulegt verður að endurhugsa allt planið upp á nýtt. Því miður hefur okkur Íslendingum ekki tekist nægjanlega vel að nýta þetta tækifæri. Í stað þess að leggja upp með langtímaáætlun um hvernig við getum orðið besti staðurinn til að búa á fyrir sem flesta þegna höfum við hlaðið skammtímaplástrum á helsærðan efnahagslíkamann sem verja sérhagsmuni lítilla en valdamikilla anga hans. Þegar svöðusárin eru jafn stór og þau sem við berum dugar slíkt hins vegar skammt. Og á endanum mun okkur blæða út.

Hvað ætlar þú að gera þegar þú ert orðinn stór?


Nýverið var greint frá því að 2.200 manns hefðu sótt um vinnu hjá upplýsingafyrirtækinu Advania það sem af er árinu 2014. Fyrirtækið gat ráðið 50. Þessi ásókn er yfirfæranleg á önnur tækni- og upplýsingafyrirtæki líka. Um 500 manns sóttu til dæmis um sumarstarf hjá Nýherja.

Viðskiptafræðingar og þeir sem nema félagsvísindi eða einbeita sér að tungumálanámi eiga líka í miklum erfiðleikum með að finna starf við hæfi. Í raun er nánast alltaf stórkostlegt offramboð umsókna þegar auglýst er eftir sérfræðingum hvers konar. Það sást ágætlega þegar Ríkisskattstjóri auglýsti að hann þyrfti að ráða í tólf stöður vegna framkvæmda á skuldaleiðréttingum Framsóknarflokksins. 370 manns sóttu um þær tólf stöður.

Hvernig verður þú þjónustaður?


Í dag eru um 55 þúsund Íslendingar yfir 60 ára. Eftir tíu ár er því spáð að þeir verði 84 þúsund. Allar rannsóknir, og almenn skynsemi, segir okkur að þörfin fyrir aukna heilbrigðis­þjónustu eykst mjög eftir að þeim aldri er náð. Þeir sem starfa í heilbrigðisgeiranum mega því búast við auknu álagi.

Það verður hins vegar raunverulegt vandamál að manna þær viðbótarstöður sem þörf verður fyrir að manna. Það nægir ekki bara að byggja nýtt sjúkrahús og vonast til þess að það dugi til að soga að sér hæft fólk í miklu magni.

Auglýsing

Þegar staða sérfræðilækna á Landspítalanum eru auglýstar sækja oft engir um. Viðloðandi skortur er á hjúkrunarfræðingum á hjúkrunarheimilum og fjölmargir slíkir sem unnið hafa á spítalanum hafa látið lokkast til Noregs þar sem gnógt vinnu er að hafa fyrir miklu hærri laun og minni viðveru. Sömu sögu er í raun að segja af flestum læknum. Það blasa því við vandræði í heilbrigðisgeiranum.

Og það eru ekki minni vandræði í menntakerfinu. Íslendingum í heild mun fjölga um 13 prósent á næstu ellefu árum. Fæðingum fjölgaði reyndar töluvert strax í kjölfar efnahagshrunsins. Á árunum 2008-2010 fæddust um 5.000 nýir Íslendingar ár hvert. Og við eigum eiginlega ekkert fólk til þess að taka við þeim í menntakerfinu.

Það vantar nefnilega um 1.300 leikskólakennara eins og er. Og um 200 grunnskólakennara. Einungis 30 grunnskóla­kennarar og tíu leikskólakennarar munu útskrifast úr Háskóla Íslands í sumar. Fækkun þeirra sem sækja sér slíkt nám eftir að lengd þess fór úr þremur í fimm ár er gríðarleg.

Hvar ætlar þú að búa?


Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að nú stendur yfir stærsta millifærsla Íslandssögunnar. Ríkisstjórnin ætlar að gefa sumum 80 milljarða króna af skattfé undir formerkjum þess að verið sé að leiðrétta forsendubrest. Forsendubresturinn er reyndar ekki meiri en svo að það verður hlutverk fjármálaráðherra að ákveða hver hann var út frá því hversu margar umsóknir berast um ríkislottóvinninginn. Verði þær fleiri en reiknað var með mun forsendubresturinn verða lægri. Verði þær færri mun hann hækka.

Í tölum frá Ríkisskattstjóra má sjá að 90 prósent þessarar peningagjafar fara til fólks sem fæddist fyrir 1980. Íslendingar milli 18 og 34 ára fá átta milljarða króna á meðan 35 til 108 ára (ef við gefum okkur að sá elsti fái eitthvað) fá 72 milljarða króna.

Þessi aðgerð mun því skerða lífsgæði ungra Íslendinga töluvert. Peningum sem gæti hafa verið varið í uppbyggingu á þjónustu eða niðurgreiðslu skulda hins opinbera er hent í miðaldra millistétt. Tekjur ríkis og sveitarfélaga skerðast umtalsvert á næstu árum vegna séreignarsparnaðaraðgerðanna, sem fylgja með í skuldaniðurfellingar­pakkanum. Þær munu auk þess ganga mjög nærri séreignarlífeyriskerfinu og þar með auka kostnað ríkisins vegna lífeyrisgreiðslna í framtíðinni gríðarlega. Sá skellur lendir líka á þeim sem eru ungir í dag því ríkið, það erum við.

Auk þess virðist morgunljóst að aðgerðirnar og aukin einkaneysla þeirra sem munu fá mun auka verðbólgu, valda enn óhagstæðari viðskiptajöfnuði en við erum nú þegar að glíma við og væntanlega veikja krónuna líka.

Af hverju á ungt fólk að vera á Íslandi?


Í síðustu viku kynnti ríkisstjórnin nýja stefnu um vísinda­rannsóknir og nýsköpun. Viðleitnin er ágæt en sú fullyrðing Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra að viðbótarframlög í samkeppnissjóði upp á 2,8 milljarða króna á nokkrum árum (3,5 prósent af skuldaniðurfellingargjöfinni) ýti Íslandi í fremsta flokk á meðal allra landa heims hvað varðar áherslu á vísindi, rannsóknir og nýsköpun er í besta falli fjarstæðukennd. Við verðum enn langt á eftir hinum Norðurlöndunum og órafjarlægð frá til dæmis Banda­ríkjunum. Við erum einfaldlega ekki þjóð sem leggur áherslu á að fjölga eggjunum í körfunni.

Efnahagur okkar hvílir aðallega á þremur stoðum: útflutningi á fiski og áli og innflutningi á ferðamönnum. Tvær fyrstu stoðirnar, fiskur­inn og álið, eru að mestu auðlindadrifnar frumatvinnustoðir. Ferðaþjónustan er atvinnugrein sem byggir að mestu á láglaunaþjónustu. Aðgerðir sitjandi stjórnvalda hafa fyrst og fremst snúist um að standa vörð um þessar stoðir. Og að láta sig dreyma um olíu.

Hvað ætlar Ísland að verða þegar það er orðið stórt?

Þegar ofangreint er dregið saman er hægt að draga þá ályktun að á Íslandi sé ekki verið að nýta auðlindirnar til að byggja upp það samfélag sem fólkið vill búa í heldur reynt að láta fólkið aðlaga sig að auðlindadrifnu frumvinnslukerfinu sem hentar valdaöflunum best. Á Íslandi bjóðast því ekki þau atvinnutækifæri sem ungt fólk sækist fyrst og fremst eftir á grundvelli menntunar sinnar.

Á Íslandi er velferðarkerfið að dragast aftur úr að gæðum. Vöntun er á fólki sem vill vinna í því og stjórnmálamenn neita að takast á við þau risavöxnu uppbyggingarverkefni sem nauðsynlegt er að takast á við svo við getum menntað hina ungu, hjúkrað öllum og séð fyrir hinum öldnu.

Á Íslandi er nánast ómögulegt fyrir ungt fólk að eignast húsnæði vegna þess að aðstæður í hagkerfinu gera því ekki kleift að nurla saman fyrir útborgun. Það er líka að verða ómögulegt fyrir það að leigja húsnæði vegna þess að sturluð umframeftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur hækkað verð á slíku upp í himinhæðir. Þetta ástand á því miður bara eftir að versna á næstu árum. Velkomin í fasteignabóluna.

Á Íslandi ákveða miðaldra stjórnmálamenn að afhenda sinni kynslóð nokkra tugi milljarða króna á sama tíma og þeir ákveða að takast ekki á við risavaxin langtímavandamál. Kostnaði gjafarinnar og afleiðingar aðgerðaleysis þeirra lendir af fullum þunga á unga fólkinu í framtíðinni. Það kemur nefnilega alltaf, einhvern tímann, að skuldadögum.

Vilt þú búa á Íslandi?


Ég held að ungir Íslendingar vilji upp til hópa búa á Íslandi. Hér er fjölskyldan þeirra, vinir og annað nánasta tengslanet. Hér eru heitu pottarnir, ódýra rafmagnið, öryggið, náttúran og allt hitt sem er svo dásamlegt. En ungir Íslendingar vilja vinna við það sem þeir hafa áhuga á og kunna. Þeir vilja geta búið í sómasamlegu húsnæði án þess að greiða þorra ráðstöfunar­tekna sinna fyrir það. Þeir vilja fá þjónustu í samræmi við það hlutfall launa sinna sem þeir greiða í skatta og þeir vilja geta horft fram á áhyggjulaust ævikvöld.

Sú stefna sem Ísland hefur valið að feta, stefna sérhagsmuna­gæslu, skammtímahagsmuna, íslenskrar krónu, gjaldeyrishafta og einangrunarhyggju mun ekki skapa þær aðstæður. Þvert á móti.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ráðherra sveitarstjórnarmála mun ekki hafa frumkvæði að sameiningum sveitarfélaga með færri en 1.000 íbúa eins og upphaflega var lagt til í frumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Hagræn áhrif fækkunar sveitarfélaga geti orðið fimm milljarðar
Nýlega voru breytingar á sveitarstjórnarlögum samþykktar en ein meginbreytingin felur í sér að stefnt skuli að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði ekki undir 1.000 manns. Upphaflega stóð til að lögfesta lágmarksíbúafjölda.
Kjarninn 20. júní 2021
Ferli Rauða barónsins lauk á sama stað og hann hófst, á Stokkseyrarvelli sumarið 2016, er hann dæmdi leik heimamanna gegn Afríku.
Saga Rauða barónsins gefin út á bók
Rauði baróninn - Saga umdeildasta knattspyrnudómara Íslandssögunnar er ný bók eftir fyrrverandi knattspyrnudómarann Garðar Örn Hinriksson. Safnað er fyrir útgáfunni á Karolina Fund.
Kjarninn 20. júní 2021
Helga Björg segist óska þess að það væri meiri skilningur hjá fjölmiðlum á valdatengslum og á stöðu fólks í umfjöllunum.
„Framan af var aldrei hringt í mig, enginn hafði samband“
Fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra og borgarritara gagnrýnir fjölmiðlaumfjöllun um eineltismál í ráðhúsinu en hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa í langan tíma.
Kjarninn 20. júní 2021
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu Seðlabankans.
Segir mikla verðbólgu bitna verst á tekjulágum
Varaseðlabankastjóri peningastefnu Seðlabankans segir áhrif mikillar verðbólgu vera sambærileg skattlagningu sem herji mest á lágtekjufólk. Samkvæmt henni er peningastefnan jafnvægislist.
Kjarninn 20. júní 2021
Tveir fossar, Faxi og Lambhagafoss, yrðu fyrir áhrifum af hinni fyrirhuguðu virkjun í Hverfisfljóti.
Auglýsa skipulagsbreytingar þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð Skipulagsstofnunar
Skipulagsstofnun ítrekaði í vor þá afstöðu sína að vísa ætti ákvörðun um virkjun í Hverfisfljóti til endurskoðunar aðalskipulags Skaftárhrepps sem nú stendur yfir. Við því var ekki orðið og skipulagsbreytingar vegna áformanna nú verið auglýstar.
Kjarninn 20. júní 2021
Christian Eriksen var borinn af velli eftir að hann hneig niður í leik Dana gegn Finnum um síðustu helgi.
Eriksen og hjartastuðið
Umdeildar vítaspyrnur, rangstöðumörk, brottvísanir eða óvænt úrslit voru ekki það sem þótti fréttnæmast í fyrstu umferð Evrópukeppninnar í fótbolta. Nafn Danans Christian Eriksen var á allra vörum en skjót viðbrögð björguðu lífi hans.
Kjarninn 20. júní 2021
Þórdís Kolbrún hafði betur í oddvitaslagnum í Norðvesturkjördæmi.
Þórdís Kolbrún sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
Öll atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi hafa verið talin. Haraldur Benediktsson, sem leiddi listann í síðustu kosningum, lenti í öðru sæti en hann sagði nýverið að hann hygðist ekki þiggja annað sætið ef það yrði niðurstaðan.
Kjarninn 20. júní 2021
Þórdís Kolbrún tilkynnti það síðasta haust að hún myndi fara fram í Norðvesturkjördæmi og sækjast eftir oddvitasætinu.
Þórdís Kolbrún leiðir eftir fyrstu tölur í Norðvesturkjördæmi – Haraldur þriðji
Kjörstöðum hefur nú verið lokað í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Talin hafa verið 798 atkvæði úr flestum en ekki öllum kjördeildum af um 2200 greiddum atkvæðum Teitur Björn Einarsson er sem stendur í öðru sæti.
Kjarninn 19. júní 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari
None