Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, er í vandræðum. Hann viðhafði rasísk ummæli við Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna á fimmtudag þegar hann vísaði til hennar sem „þeirrar svörtu“. Fregnir herma líka að hann hafi kallað Vígdísi „stelpu“, en Vigdís er fertug.
Sigurður Ingi hefur reyndar ekki viljað endurtaka hvað hann sagði nákvæmlega og ekki útskýrt af hverju aðstoðarmaður hans gaslýsti þegar hún var spurð út í orð hans, en hún sagðist hafa orðið vitni að atburðum og að það væri „algjört bull“ að ummælin hefðu fallið.
Vigdís sendi frá sér yfirlýsingu á mánudag þar sem hún sagðist vita hvað hún heyrði og hvað var sagt. „Ég hef aldrei látið húðlit, kynþátt, kynferði eða annað skilgreina mig. Ég hef alltaf talið að verk mín og gjörðir töluðu fyrir sig sjálf, en núna tel ég mig knúna til að tjá mig um það sem gerðist. Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð. Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn.“
Skýrara verður það ekki. Atvikið átti sér stað og ummælin sneru að lit og kyni hennar.
Reglur og lög sem gilda bara fyrir suma
Í siðareglum þingmanna, sem voru samþykktar í mars 2016, eru tilteknar meginreglur um hátterni. Þar segir meðal annars að þingmenn skuli „ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni“. Á meðal þeirra sem samþykktu þessar siðareglur voru Sigurður Ingi, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson.
Í desember 2017 samþykkti ríkisstjórn sem var nýtekin við völdum siðareglur ráðherra. Í þeim er grein um háttsemi og framgöngu. Á meðal þess sem stendur í þeirra grein er að ráðherra eigi að gæta „þess að rýra ekki virðingu embættis síns með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi við manngildi og mannréttindi.“
Að ríkisstjórninni sem samþykkti þessar siðareglur stóðu Sigurður Ingi, Katrín og Bjarni.
Sama ríkisstjórn lagði fram frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna árið 2018. Þar stendur meðal annars að fyrirmæli um mismunun vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna teljist mismunun „og áreitni þegar hún tengist kynþætti eða þjóðernisuppruna.“ Á meðal þeirra sem greiddu atkvæði með samþykkt laganna voru Sigurður Ingi, Katrín og Bjarni.
Það virðist hins vegar ekki skipta neinu máli. Sigurður Ingi baðst afsökunar á orðum sínum og telur það duga. Þau féllu eftir mikinn gleðskap og hann var pirraður. Aðstoðarmaður hans sem laug að blaðamanni útskýrði að hún hefði einfaldlega séð eitthvað alltaf annað en gerðist og telur þá skýringu firra hana ábyrgð. Enginn ráðherra ríkisstjórnarinnar hefur krafist þess að Sigurður Ingi segi af sér þrátt fyrir að hafa brotið gegn reglum og mögulega lögum.
Fyrir vikið eru siðareglur þingmanna og ráðherra marklausar. Fyrir vikið er ljóst að lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna gilda ekki um ráðherra og formenn stjórnarflokka. Bara alla hina í samfélaginu.
Ástæða þess að hinir formennirnir fara ekki fram á afsögn Sigurðar Inga snýst enda ekkert um hvað er rétt. Hún snýst ekki um að auka traust almennings á stjórnmál. Hún snýst um um glerharða hagsmuni. Afsagnarkrafa myndi sennilegast leiða til stjórnarslita. Jafnvel þótt hún gerði það ekki vita allir sem það vilja vita að næstráðendur Sigurðar Inga í Framsóknarflokknum eru ekki vinsælasta fólk í heimi hjá öðrum ráðherrum ríkisstjórnar Íslands, svo vægt sé til orða tekið. Áframhaldandi samstarf án Sigurðar Inga sem stuðpúða er sennilega ómögulegt.
Pólitísk hrossakaup opinberuð á Klaustri
Það er ýmislegt annað skrýtið að gerast í íslensku samfélagi þessa dagana sem stækur spillingarþefur er af.
Í nóvember 2018 drakk Gunnar Bragi Sveinsson, þá þingmaður Miðflokksins, ótæpilega á Klausturbarnum, þar sem hann sat að sumbli ásamt nokkrum félögum sínum úr stjórnmálum. Ömurlegt tal þeirra var tekið upp af nærstöddum gesti, og komið til fjölmiðla. Mesta athygli vakti gróft og niðrandi kynlífstal þeirra um nokkrar konur í stjórnmálum en þar voru líka rædd pólitísk hrossakaup.
Gunnar Bragi var nefnilega einu sinni utanríkisráðherra og skipaði þá tvo sendiherra, þá Árna Þór Sigurðsson, fyrrverandi þingmann Vinstri grænna, og Geir H. Haarde, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins. Í samtali sínu við meðdrykkjumennina sagði Gunnar Bragi: „Þegar ég ákvað það að skipa Geir H. Haarde sendiherra í Washington […] þá ræddi ég við Sigurð Inga. Honum var ekki skemmt enda hafði hann ákært Geir. Ég ræddi þetta auðvitað við alla flokka. Ég sá það að ég gæti ekki skipað Geir einn. Það yrði of þungur biti fyrir þingið og alla. Það sem ég gerði var að skipa Árna Þór (Sigurðsson) sem sendiherra. Hann er náttúrulega bara […], þó hann sé frændi minn. VG hefðu getað orðið brjálaðir en Katrín sagði ekki orð. Ég átti fund með henni. Geir slapp í gegnum þetta.“
Síðar bætti Gunnar Bragi við: „Athyglin fór öll á Árna Þór. Annars hefði Vinstri græna liðið orðið brjálað [...]Árni var náttúrulega ekkert annað en senditík Steingríms. Plottið mitt var að Geir yrði í skjólinu hjá Árna og það virkaði ekki bara 100 prósent heldur 170 prósent því að Árni fékk allan skítinn. Svo sagði Geir við mig löngu seinna: „Þakka þér fyrir. Það var enginn sem gagnrýndi mig.“ Ég lét Árna taka allan slaginn.[...]Ég átti fund með Bjarna í fjármálaráðuneytinu. Ég sagði við Bjarna: „Það er algjörlega sjálfsagt. Auðvitað geri ég Geir að sendiherra.“ Og ég sagði við hann: „Og mér finnst sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“ Það var ekki vegna þess að ég hafi verið að hugsa um að skipta um flokk. Ég var ekki kominn út þegar Þórólfur (Gíslason) hringir og spyr: „Ætlar þú að verða sendiherra?“ Ég var ekki kominn út úr ráðuneytinu.“
Í frétt RÚV frá því seint á árinu 2018 sagði að á upptökunum heyrist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra sem var líka í samsætinu, staðfesta þessa frásögn Gunnars Braga. Eftir að upptökurnar voru gerðar opinberar þvertóku þeir þó báðir fyrir að sagan um loforðið hafi verið sönn. Bjarni Benediktsson neitaði því sömuleiðis að hafa veitt slíkt loforð og Guðlaugur Þór sagðist ekki vita til þess að til stæði að gera Gunnar Braga að sendiherra.
Tilviljunin
Gunnar Bragi hætti í stjórnmálum eftir síðustu kosningar. Hann var ekki gerður að sendiherra, enda pólitískt ómögulegt að ráðast í það í ljósi Klaustursmálsins. Erfitt var að sjá að hann ætti mörg skýr tækifæri á störfum á alþjóðavettvangi, sem krefjast oftar en ekki meistaragráðu. Æðsta menntun Gunnars Braga er stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra frá árinu 1989.
Fyrir algjöra tilviljun var Gunnar Bragi ráðinn í starf sérstaks ráðgjafa framkvæmdastjóra stofnunarinnar fyrir skemmstu, beint í kjölfar þess að íslenska ríkið ákvað að greiða, í fyrsta sinn, viðbótarframlag til hennar sem nemur sirka launakostnaði Gunnars Braga á ári.
Hinir útvöldu sem fengu að kaupa í banka með afslætti
Að endingu er verið að gera upp bankasölu. Strax og tilkynnt var um söluna á 22,5 prósent hlut almennings í Íslandsbanka blasti við að stórum spurningum var ósvarað. Afsláttur upp á alls 2,25 milljarða króna var gefinn af söluverðinu og hann rökstuddur með því að hann væri nauðsynlegur til að laða „hæfa“ fjárfesta að þátttöku í útboðinu.
Í lok síðustu viku kom í ljós að alls voru 209 aðilar valdir til þátttöku, þar af nokkrir stórir stofnanafjárfestar á borð við lífeyrissjóði sem við blasir að teljist langtímafjárfestar. Þeir buðu nægilega mikið til að geta keypt allan þann hlut sem var til sölu. Reyndar var umframeftirspurn heilt yfir margföld. Söluráðgjafar Bankasýslu ríkisins ákváðu hins vegar að skerða íslensku lífeyrissjóðina gríðarlega til að hleypa íslenskum og erlendum spákaupmönnum inn í útboðið á tilboðsverði. Þar á meðal voru 59 einstaklingar sem keyptu fyrir undir 30 milljónir króna, og engin þörf var á að hafa með í svona söluferli. Um er að ræða aðila sem söluráðgjafar Bankasýslunnar hringdu í og buðu inn.
Í kynningu Bankasýslunnar fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál síðastliðinn föstudag var há hlutdeild einkafjárfesta rökstudd með því að áskriftir þeirra hefðu verið skertar á kostnað almennra fjárfesta í frumútboðinu á hlutum í Íslandsbanka, sem fór fram í fyrrasumar en þá seldi ríkið 35 prósent hlut í bankanum. Þeir ættu þetta einfaldlega inni.
Listinn yfir þá hæfu opinberaður
Eðlilega hefur verið kallað eftir að allt varðandi þetta ferli verði opinberað. Að sagt verði frá hvernig hinir útvöldu voru valdir, hvað þeir heita, hverjir völdu þá og hvað þeir sem völdu fengu greitt fyrir.
Það tók tvær vikur að fá svör. Þegar listinn var birtur í gær, eftir miklar mótbárur Bankasýslu ríkisins, kom hann jafnvel tortryggnasta fólki í opna skjöldu.
Faðir ráðherrans sem var að selja bankann fékk að kaupa. Margir af stærstu eigendur bankakerfisins fyrir hrun, sem hafa saman á eftir sér tugmilljarða króna ógreidda skuldaslóð, fengu að kaupa. Erlendir sjóðir í spákaupmennsku, sem höfðu þegar farið inn og út úr Íslandsbanka með umtalsverðan skyndigróða, fengu að kaupa. Útgerðaraðallinn fékk að kaupa. Menn sem hafa hlotið dóma fyrir glæpi tengda bankahruninu fengu að kaupa. Nokkrir almennir starfsmenn Íslandsbanka fengu að kaupa. Eignastýring helsta söluráðgjafans fékk að kaupa.
Fyrir símtölin sem skiluðu þessu dreifða eignarhaldi rukkuðu ráðgjafarnir næstum 700 milljónir króna. Enn á eftir að svara því hvernig þessi hópur var valinn fram yfir aðra „hæfa fjárfesta“ og hvernig skerðingum var útdeilt.
Tilefni er til að rifja upp á ný það sem skrifað var um eignarhald í bankakerfinu í Hvítbók um fjármálakerfið sem birt var í desember 2018. Þar segir: „Heilbrigt eignarhald er mikilvæg forsenda þess að bankakerfi haldist traust um langa framtíð. Í því felst að eigendur banka séu traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við bankann þegar á móti blæs. Mikilvægt er að eigendur hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi.“
Ætlar einhver að halda því fram að ofangreindur hópur sé það heilbrigða eignarhald sem stefnt var að?
Misbeiting á opinberu valdi til persónulegs ávinnings
Hvað eiga þessi mál sameiginlegt? Eitt snýst um rasísk ummæli formanns stjórnarflokks og ráðherra sem munu að öllum líkindum ekki hafa neinar beinar afleiðingar fyrir hann vegna þess að það hentar samstarfsmönnum hans í ríkisstjórn ekki pólitískt.
Annað snýst um fyrrverandi utanríkisráðherra með stúdentspróf, sem áður hafði gortað sig af því að eiga inni greiða hjá ráðamönnum vegna pólitískra hrossakaupa, og var svo skipaður í heimatilbúna, vellaunaða og skattfrjálsa stöðu hjá alþjóðastofnun beint í kjölfar þess að íslenskir skattgreiðendur hófu að greiða sirka launakostnaðinn hans á ári til sömu stofnunar.
Það þriðja snýst um að lítill handvalinn hópur fékk að kaupa ríkiseign með afslætti án þess að nokkur vitræn rök voru fyrir því.
Öll eru þessi mál þannig að verið er að misbeita opinberu valdi til persónulegs ávinnings, með þeim afleiðingum að traust á stjórnsýsluna rýrnar. Traust hverfur. Þau eru orðabókarskilgreiningin á spillingu.
Gripið hefur verið til margháttaðra aðgerða á undanförnum árum hérlendis til að reyna að endurvekja traust á helstu stofnanir samfélagsins, sérstaklega stjórnmálin. Lög hafa verið sett og siðareglur innleiddar. Allar reynast þessar breytingar þó marklausar þegar á reynir vegna þess að það er enginn vilji hjá ráðamönnum til að skapa menningu ábyrgðar. Í þær var ráðist til að skapa ímynd breytinga. Þegar á reynir þá eru þær hins vegar ekki raunverulegar, heldur afvegaleiðandi tálmynd.
Að minnsta kosti þegar þær snúast um spillta eða óforsvaranlega hegðun og ákvörðunartöku æðstu ráðamanna þjóðarinnar.