Eitt af því sem „sérstakur hernaður“ Rússa á hendur Úkraínumönnum hefur leitt í ljós er himinhrópandi máttleysi SÞ. Sem beinir óhjákvæmilega sjónum að innri gerð þeirra, eitt hundrað níutíu og þrjú ríki og þar af eru fimm með vald til að hnekkja ákvörðunum allra hinna. Sem gerir félagsskapinn í senn marklausan og hættulegan þar sem honum er ætlaður myndugleiki sem engin innistæða er fyrir. Hann er eins og spjald með mynd af lögregluþjóni í stað lögregluþjóns.
Til SÞ var stofnað í lok heimsstyrjaldarinnar síðari með því yfirlýsta markmiði að koma á umgengnisreglum sem kæmu í veg fyrir styrjaldarátök í framtíðinni. Og tóku við af Þjóðabandalaginu sem var að sínu leyti stofnað eftir hildarleik heimsstyrjaldarinnar fyrri og átti að koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig. Og nú þegar þriðja heimsstyrjöldin er komin á dagskrá standa SÞ máttvana hjá, stíað frá með banni við íhlutun í innri málefni hvers ríkis (sem ætti í raun að vera sjálfsögð skylda SÞ gagnvart þeim ríkjum sem færu ekki eftir sáttmála þess). En í skjóli þessa ógildingarákvæðis eru engin takmörk fyrir því sem átt getur sér stað, helför nasista á hendur gyðingum væri fullkomlega gerleg í dag, samanber núverandi helför Rússa á hendur nágrönnum sínum í Úkraínu.
Hvernig stendur á því að heimurinn er svona hjálparvana? Á sama tíma og öll vandamál sem að okkur steðja eru hnattræn og útheimta hnattrænar lausnir keppist hver við sínar „sérstöku aðgerðir“. Loftslagsráðstefnan í Glasgow fyrr á árinu var 26. tilraun til að koma böndum á hamfarahlýnun jarðar. Og líkt og allar hinar náði hún ekki tilgangi sínum. Athygli vakti að Rússar létu ekki svo lítið að mæta, enda áttu þeir fyrir höndum að kveikja elda sem óneitanlega ganga þvert gegn „loftslagsmarkmiðum SÞ“.
Indland og Kína vildu fá frest til að brenna kolum, Rússar þurftu svigrúm til að rústa Úkraínu.
Og Pútín fer sínu fram óáreittur í krafti kjarnavopna sem Rússar njóta þeirra forréttinda að búa yfir ásamt hinum neitunarvaldsþjóðunum að viðbættu Indlandi, Pakistan, Norður-Kóreu og Ísrael. En af hverju bara þessi níu? Af hverju ekki öll 193? Auðvitað ættu annað hvort engir eða allir að ráða yfir kjarnorkuvopnum, það er að segja engir.
Við Íslendingar eigum fulltrúa á vettvangi SÞ og höfum áður sent hann í pontu til að mótmæla gjörðum Duarte einræðisherra á Filippseyjum sem ofsótti andstæðinga sína undir yfirskini baráttu gegn eiturlyfjum. En hvað með Pútín Rússlandsforseta sem notar baráttuna gegn nýnasistum sem átyllu til landvinninga í anda gamalnasista?
Látum fulltrúa okkar kveða sér hljóðs og leggja til að hvert ríki SÞ gildi eitt atkvæði og einfaldur meirihluti ráði, líkt og þegar Rússum var vísað úr mannréttindaráðinu fyrir skömmu. Látum fulltrúa okkar kveða sér hljóðs og leggja til upprætingu kjarnorkuvopna undir ströngu eftirliti og síðast en ekki síst, látum fulltrúa okkar kveða sér hljóðs og leggja til að SÞ sé skylt að hlutast til um málefni ríkja sem ekki fari að sáttmála SÞ.
Útópía? Já, auðvitað, en hver er hinn möguleikinn? Distópía? Þarf virkilega þriðja heimshrunið áður en siðað samfélag manna verði að veruleika?
Höfundur er rithöfundur.