Stríðsátök hafa ólík áhrif á líf fólks eftir stöðu þeirra og kyni. Á meðan karlmenn eru líklegri til að deyja í átökum eru konur líklegri til að verða fyrir kynbundnu ofbeldi, mansali og búa við skort þegar stríðsátök geisa. Þá hefur nauðgunum markvisst verið beitt sem stríðsvopni í gegnum tíðina í fjölda landa um allan heim, meðal annars í Mjanmar, Sýrlandi, Sierra Leone og Eþíópíu og nú í Úkraínu.
UN Women hefur lagt mikla áherslu á að kvenmiðuð neyðaraðstoð sé veitt á átakatímum, ekki aðeins í eigin störfum heldur einnig í verkefnum annarra viðbragðsaðila og stofnana Sameinuðu þjóðanna. En hvað felur kvenmiðuð neyðaraðstoð í sér?
Fyrst og fremst þýðir sú nálgun að tekið sé mið af þörfum allra þegar neyðaraðstoð er veitt. Fólk af ólíkum stéttum, uppruna, kyni, kynhneigð, aldri og efnahag hefur ólíkar bjargir og ólíkar þarfir á neyðartímum. „Ein stærð fyrir alla“ nýtist því ekki jaðarsettustu hópunum þegar stríð skellur á.
Nokkur dæmi um kvenmiðaða neyðaraðstoð:
- „ONE STOP“ miðstöð þarf að vera á öllum móttökustöðum/flóttamannabúðum þar sem konur fá upplýsingar um réttindi sín, fá heilbrigðisþjónustu, sálræna aðstoð, sæmdarsett og fjárhagsaðstoð ef þarf.
- Þjónusta fyrir þolendur kynbundins ofbeldis þarf að vera á staðnum og aðgengileg öllum. Athvörf fyrir þolendur heimilisofbeldis þurfa einnig að vera á staðnum.
- Starfsfólk hjálparsamtaka og friðargæsluliðar þurfa að vera af öllum kynjum svo hægt sé að tryggja öryggi kvenna. Árið 2020 voru konur aðeins 5,2% allra friðargæsluliða á vegum Sameinuðu þjóðanna. Starfsfólk þarf jafnframt að fá góða þjálfun og vera vakandi fyrir hættumerkjum.
- Kynjaskipt baðaðstaða, salerni og vatnsbrunnar þurfa að vera til staðar innan flóttamannabúða til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi. Aðgengi og lýsing á þessum stöðum þarf að vera góð.
- Skólar og dagvistunarúrræði þurfa að vera til staðar til að koma í veg fyrir brottfall úr námi og þvinguð barnahjónabönd.
- Tryggja þarf túlka af öllum kynjum svo konur geti verið óhræddar við að tjá þarfir sínar. Konur eru tregari við að tjá sig um líkamlegt heilbrigði og kynheilbrigði ef karlmaður er á staðnum.
Úkraínskar konur í hættu
Mikilvægi kvenmiðaðrar neyðaraðstoðar er augljós í því gríðarlega neyðarástandi sem nú ríkir í Úkraínu og á landamærum nágrannaríkja landsins. Þau frjálsu félagasamtök í Úkraínu sem tóku þátt í nýrri þarfagreiningu UN Women lögðu mikla áherslu á mikilvægi þess að líta sérstaklega til þarfa kvenna og barna á flótta og að tryggja þurfi fjármagn í kvenmiðaða neyðaraðstoð sem veitt er á staðnum. Verulegur skortur er á nauðsynlegum vörum eins og mat – sérstaklega barnamat, lyfjum og hreinlætisvörum líkt og bleyjum í landinu. Aðgengi að vatni, rafmagni og öðrum nauðsynjum er af skornum skammti á mörgum svæðum.
Þú getur hjálpað með því að senda sms-ið KONUR í númerið 1900.
Höfundur er framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.