Það þykir fréttnæmt ef kona lærir eða starfar við starfsgrein sem hefur hingað til verið karlastarf. Hitt er tæpast fréttnæmt lengur hversu hátt hlutfall kvenna lýkur hinum ýmsu háskólagráðum. Það sjá þó allir sem eru viðstaddir útskrift nemenda á háskólastigi hér á landi. Þetta má sjá á Mynd 1 en hún sýnir hversu margir hafa útskrifast frá íslenskum háskólum undanfarinn aldarfjórðung eftir kyni.
Allan þennan tíma útskrifast fleiri konur en karlar. Í heildina eru tveir þriðju hlutar útskrifaðra konur en þriðjungur karlar og hlutfall þeirra hefur heldur verið að gefa eftir á síðastliðnum árum. Til viðbótar við þennan hóp hefur stór hópur Íslendinga stundað nám erlendis og hingað til lands hefur flutt fólk með háskólamenntun. Mynd 2 gefur nokkra mynd af því hver staðan er og hvernig hún hefur þróast.
Á þeim árum sem myndin sýnir hefur íbúum landsins fjölgað mjög. Körlum á þessum aldri hefur fjölgað um tæplega 28.000 eða 39% meðan konum hefur fjölgað um 21.000 eða 30%. Körlum sem einungis hafa grunnmenntun fjölgaði um fjórðung og þeim sem höfðu háskólamenntun um fimmtung. Hins vegar eru karlar með háskólamenntun næstum tvöfalt fleiri 2020 en þeir höfðu verið 2003 samkvæmt þessum athugunum.
Hjá konunum er myndin töluvert önnur. Konum sem búsettar eru hér á landi sem hafa einungis grunnmenntun hefur fækkað um rúmlega 9.000 eða þriðjung; konur með starfs- og framhaldsmenntun voru rúmlega 7.000 fleiri 2020 en 2003 og hafði fjölgað um þriðjung. Fjöldi kvenna með háskólamenntun hafði ríflega tvöfaldast og þeim hafði fjölgað um tæplega 23.000 frá 2003 til 2020. Eins og útskriftartölurnar bera með sér eru konur með háskólamenntun á aldrinum 25-64 ára nú taldar 10.000 fleiri en karlarnir og eru næstum helmingur aldurshópsins. Hjá körlunum er staðan sú að rúmlega þriðjungur er með háskólamenntun.
Þegar horft er til vinnumarkaðarins minnkar munur milli kynjanna nokkuð því tvöfalt fleiri konur en karlar með háskólamenntun eru utan vinnumarkaðar (10,2% af hópnum á móti 5,9% hjá körlum). Þetta er sýnt í Töflu 1. Þar sést meðal annars að þriðjungur kvenna sem einungis hefur grunnmenntun er utan vinnumarkaðar en það gildir einnig um sjötta hvern karl. Ekki munar miklu á atvinnuleysi háskólamenntaðra kvenna og karla en það er meira hjá körlum sem einungis hafa grunnmenntun. Þessu er hins vegar öfugt farið ef um er að ræða fólk með starfs- og framhaldsmenntun.
Í umfjöllun um þessi efni þarf að hafa í huga að á því tímabili sem hér er til skoðunar hefur verið mikill aðflutningur fólks frá útlöndum en lítið er vitað um menntun þess. Hins vegar sést af tímaröðum að hlutfall háskólamenntaðra af heildarfjölda fólks á aldrinum 15-64 ára hefur lækkað örlítið frá árinu 2019 hjá báðum kynjum þegar það var hæst sem er vísbending um að lægra hlutfall hinna aðfluttu hafi háskólamenntun en gildir um þá sem fyrir eru.
Hin mikla fjölgun háskólamenntaðra kvenna umfram karla hefur ekki vakið mjög mikla athygli sem ég hef orðið var við. Hér á eftir verður rýnt nokkuð nánar í það mál en fyrst er fróðlegt að gera sér grein fyrir því hvort hér er um séríslenskt fyrirbæri að ræða eða hvort þetta er að gerast víðar. Hlutfall háskólamenntaðra óx í öllum löndum evrópska efnahagssvæðisins á tímabilinu 2012-2021 og hækkun á hlutfalli kvennanna var meiri en karlanna í öllum löndum svæðisins. Háskólamenntaðar konur eru fleiri en karlar að hlutfalli til í öllum löndum evrópska efnahagssvæðisins nema í Sviss[1] og Þýskalandi. Í átta löndum er hlutfall háskólamenntaðra kvenna hærra en hér á landi og að því er karlana varðar er Ísland í 14. sæti. Samanburður Íslands við hin Norðurlöndin er sýndur á Mynd 3.
Á öllum Norðurlöndunum er hærra hlutfall háskólamenntaðra meðal kvenna en karla og munar töluverðu. Munur milli kynjanna er mestur hér á landi en minnstur í Danmörku og Noregi.
Konur eru í meirihluta – og sums staðar í miklum meirihluta – meðal þeirra sem útskrifast úr háskólum hér á landi eins og þegar er komið fram. Síðustu 5 ár (2012/16 til 2019/20) var hlutur karla í fjölda þeirra sem útskrifuðust úr háskólum með háskólagráðu[2] sléttur þriðjungur. Af þeim 26 sviðum útskriftar sem fjölmennust voru, og þar sem 80% allra sem útskrifuðust höfðu stundað nám, voru einungis tvö svið þar sem karlar voru fleiri en konur; tölvunarfræði þar sem karlar voru ¾ hluti af 1.252 sem luku prófi og í vélfræði og málmsmíði voru þeir rúm 70% af 562 sem útskrifuðust. Af fjölmennustu greinunum var hlutfall karla lægst í hjúkrun og umönnun (2,8% af 909 útskrifuðum) og 4,9% af 689 sem útskrifuð voru í félagsþjónustu og ráðgjöf. Það stefnir því í það að karlar verði í minnihluta í stórum hluta þeirra starfa sem krefjast háskólamenntunar á næstu árum ef þeir eru þá ekki orðnir það nú þegar. Taka má lækna sem dæmi. Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu var hlutfall kvenna sem starfa sem læknar (ekki heimilislæknar eða tannlæknar) 46,5% árið 2021 en það hefur vaxið úr 37,4% frá 2015. Í flestum öðrum heilbrigðisstéttum eru konur nú þegar fjölmennari en karlar ef heimilis- og tannlæknar eru undanskildir.
Mynd 4 er nokkuð flókin en hún sýnir þátttöku ungra Norðurlandabúa í námi eða þjálfun eftir aldri og kyni. Þarna sést að þátttaka kvenna er meiri en karla í þeim þremur aldursflokkum sem þarna eru sýndir í öllum löndunum. Hlutfall karla við nám eða þjálfun er hæst á Íslandi á aldrinum 18-24 ára en lækkar svo í flokki 25-29 ára og er þar lægst allra Norðurlanda. Hjá konunum er hlutfallið einnig hæst meðal Norðurlandanna í flokki 18-24 ára en er nálægt meðaltali í eldri aldursflokkunum.
Í Evrópu er það töluvert áhyggjuefni hversu hátt hlutfall ungs fólks er hvorki í námi eða vinnu en í Evrópusambandinu í heild er ein af hverjum sjö konum á aldrinum 15-29 ára hvorki í vinnu, námi eða þjálfun. Hjá körlunum er hlutfallið rúmlega einn af hverjum átta. Verst er ástandið á Ítalíu af löndum Vestur-Evrópu en þar er fjórða hver kona á aldrinum 15-29 ár hvorki í skóla eða vinnu meðan hlutfallið er einn af hverjum fimm meðal karlanna. Þetta ástand er mun betra á Norðurlöndunum, milli 6 og 9% og Ísland sker sig ekki úr.
Þrátt fyrir að konur séu meira við nám en karlar og útskrifist síðan að því loknu er það ekki þannig að karlarnir séu miklu öflugri þátttakendur á vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka 16-24 ára kvenna var þannig meiri en karlanna árið 2021, atvinnuleysið álíka en vinnutími kvennanna styttri. Þannig voru 68% kvenna starfandi meðan hlutfallið var 63% hjá körlum. Þetta er vísbending um að konur séu í ríkara mæli að vinna með námi en karlar enda er hátt hlutfall þessa aldursflokks í skóla.
Því er von að spurt sé: hvar eru strákarnir?
Höfundur er skipulagsfræðingur.
Heimildir:
[1] Sviss er að vísu ekki formlega hluti af EES svæðinu en skilar öllum gögnum til Eurostat vegna tvíhliða samninga við ESB.
[2] ISCED 5B og 6.