Ég er alinn upp í Árbæjarhverfi og frá því ég var ungur þá gerði ég mér einhvern veginn grein fyrir að hverfið væri vel skipulagt. Ég bjó í Rofabæ, hluta af Hraunbæjarblokkunum sem hlykkjast upp Árbæinn þar sem eitt prósent Íslendinga bjó um tíma skömmu eftir að þær voru byggðar.
Hvert port eða hvert U var eins og lítill heimur og þar gat barn fundið sér vinahóp nánast innan lóðarmarkanna. Bílar voru eiginlega utan hverfisins, ég vissi ekki alltaf hvernig bíl vinir mínir áttu vegna þess að þeir voru geymdir norðanmegin og komu okkur börnunum í sjálfu sér ekki við. Skólinn var hinum megin Rofabæjar og það var eina gatan sem þurfti að fara yfir. Blokkirnar voru vissulega einsleitar, fjölbreytnin fólst í því að taka eftir smáatriðum, ein blokkin var kannski með bláan ferning eða gulan á svölunum eða anddyrinu.
Pabbi og mamma byggðu sér síðan hús í Seláshverfinu og þá voru húsin fyrir neðan götu öll með sama laginu, með slétta framhlið og L laga en húsin fyrir ofan götu reisuleg með hefðbundnu þaklagi. Amma og afi bjuggu neðst í Hlaðbæ þar sem amma býr ennþá en allar þær götur enda í botnlanga ofan við Elliðaár. Ég gat farið á fótboltaæfingu og í skólann án þess að fara yfir hefðbundna umferðargötu og ég gat leikið mér í Elliðaánum án þess að fara yfir götu. Stífluhringurinn er þriggja kílómetra göngu- og hjólaleið sem nánast allir í hverfinu nýta sér með því að fara í mesta lagi yfir eina götu.
Ég vann síðar hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur þar sem ég starfaði við hellulagningar og kynntist Reyni Vilhjálmssyni landslagsarkítekt sem hannaði hverfið. Mér fannst nokkuð magnað að ég hafði kynnst manninum sem hafði verið falið hið guðlega vald að leggja grunnplanið fyrir æsku mína og mitt daglega líf og umhverfi. Nokkur öðruvísi pennastrik, ein eða tvær vanhugsaðar hugmyndir hefðu verið eilífur krókur á leið í æsku minni. Af hans kynslóð voru skipulagsfræðingar sem hefðu auðveldlega sett hraðbraut meðfram Elliðaánum og nyrðri kvíslina í stokk og skorið þannig náttúruna rækilega frá öllum íbúum með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á stífluhringinn og þar með lýðheilsu.
Í Árbænum voru kjarnar, bakarí, litlar verslanir og bókabúð og fyrir þá sem bjuggu í hverfinu þá fann maður fyrir ákveðnum aga í þessu skipulagi, pabbi og mamma höfðu ekki frelsi til að byggja hvernig sem er heldur hús með ákveðnu sniði – í seinni tíð var þessi agi í hverfinu kallaður „austantjalds“ – en líklega meira sænskt – eða bara Corbusier.
Á seinni árum hefur þessi strangi agi frá 1960 og 1970 gufað upp og það sést á hverfinu. Verslunarkjarni var settur út fyrir hverfið svo að minni kjarnar innan hverfis dóu og dröbbuðust niður og urðu eins og slömm. Borgarbókasafnið var sett í kjarnann við jaðar hverfis þannig að það varð auðveldara að sækja sér bók með bíl og ný hús sem hafa risið í móanum bak við Hraunbæinn hafa verið hipsumhaps, allskonar hús, allskonar í laginu og íbúðarhúsin stundum verri að gæðum en gömlu blokkirnar. Þannig verða ný hús ekki eins og uppfærsla fyrir hverfið heldur þvert á móti. Maður spurði sig af hverju voru hús reist árið 2000, síðri hvað varðar gæði en hús reist árið 1970. Utanáliggjandi stigagangar, þverliggjandi bárujárnsklæðningar, maður spurði sig um framfarir og hafði á tilfinningu að ákvarðanir væru byggðar á skorti á heildarhugsun, skammtímaþörf fyrir húsnæði, þrýstingi um að„hefja framkvæmdir“ á niðursveifluárum en almennt eins og ekkert stórt langtímaplan væri í gangi.
Nýlega var reist stórhýsi í hverfinu fyrir 60 ára og eldri og mér tókst að særa tvær eldri vinkonur mínar sem búa í húsinu með facebook pósti um húsið. Þetta er nýtt svart hús sem gnæfir yfir gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls. Það mun vera gott að búa í þessu húsi, íbúðirnar eru góðar, útsýnið er frábært og fólkið gott. En þetta er hornsteinn hverfisins og kom í staðinn fyrir Bláfjöllin og ég velti fyrir mér af hverju mér fannst það ekki fallegt. Hvað gerir hús fallegt?
Á maður ekki að vera stoltur af sínum samtíma og þeim húsum sem rísa núna? Æsufellið gnæfir yfir Breiðholtinu, voldugt og mikið og mér hefur alltaf þótt það myndrænt, eins og kastali. Í ljósmyndabókinni Reykjavík frá 1969 eftir Björn Th. Björnsson eru nokkrar myndir úr miðbæ Reykjavíkur en flestar úr Laugardalnum, Laugardalslaugin, Listasafn Ásgríms og himinháu Sólheimablokkirnar, honum fannst samtíminn augljóslega fallegur. Nýtt hverfi ætti að vera stolt hverrar kynslóðar. Tákn um hugmyndir hennar og metnað. En af hverju byggja menn svona mikið svart og grátt í dag? Af hverju svona mikið þverliggjandi bárujárn? Niðurstaðan af gráu verktakahúsunum sem rísa um alla borg er hreyfing fólks sem telur að nútíma arkítektúr sé almennt misheppnaður og eina mótvægið við samtímann sé afturhvarf til miðbæjar Selfoss.
En hvernig á að stýra fagurfræði bygginga? Er það hægt með valdboði að ofan og nefnd? Það er eins og eitthvað skorti í grunninum, skortur á samtali, lítil fagleg umfjöllun um byggingarlist og stóru myndina fyrir utan innlit í „glæsileg heimili“. Þeir sem stýra fjármagni hjá bönkunum virðast ekki hafa haft metnað, þeir sem byggja virðast fyrst og fremst vilja innleysa eins mikinn hagnað af hverju húsi og mögulegt er og þeir sem kaupa og koma til með að búa í húsunum koma ekki nálægt ferlinu. Þeir ná varla að skoða húsið vegna þess að skortur er á markaðnum og „allt selst“.
Núna er litið svo á að úthverfavæðingin og þar með Árbærinn hafi í heild verið ákveðin skipulagsmistök. Þótt hverfið sjálft sé vel hannað þá hafi áherslan á einkabíla og hraðbrautir með veikar almenningssamgöngur, tilheyrandi Miklubraut og aðreinaflækju við Elliðaárósa gert borgina dreifða og dýra í rekstri. Árbær og Breiðholt voru byggð samkvæmt hugmyndafræði og hugsjón sem voru síðan klappaðar í steypu og form. Á tímabili datt úr tísku að byggja svona stórt í einum stíl, menn sögðu að þetta væru einsleitar Austantjaldsblokkir. En spurningin er, hver er hugmyndafræðin núna? Hver er okkar tími?
Ég hef heimsótt vini og ættingja í nýjum hverfum sem hafa verið byggð á síðustu árum, en þegar ég leit í kringum mig þá vissi ég ekki hvaða hugsun eða heimspeki lá á bak við hverfið. Stór hverfi eru byggð, hvert hús með sínu verktakasniði, og helsti munurinn er að venjuleg íbúð er alltaf kölluð lúxusíbúð. Maður hefur ekki á tilfinningunni að niðurstaðan sé manneskjulegri en í gömlu Árbæjarblokkunum, jafnvel þvert á móti. Þétting er hugtak sem er mikið notað og í góðu skipulagi getur þétt byggð rúmað aukin gæði, en undanfarið hefur manni þótt sem hugtakið hafi verið hertekið, fyrst og fremst til að hámarka hagnað fyrirtækja, troða eins miklu byggingarmagni og mögulegt er á reiti án þess að á móti komi fjárfestingar í nærumhverfi sem skapa mannlíf og öflugt samfélag.
Maður leitar að hugmyndum, tengingum við náttúru eða gæði og sér að fólk býr í stakstæðum blokkum, hentugum verktakaeiningum með þverliggjandi bárujárni, utanáliggjandi stigagöngum meðfram götum sem virðast liggja hingað og þangað. Bílastæði beint fyrir framan jarðhæðirnar, naumur garður fyrir aftan hús og svo aftur bílastæði og oft er húsið umkringt umferð á alla kanta. Oftar en ekki einhverskonar stofnbrautir sem umlykja síðan hverfið og skera náttúruna frá fólkinu og stór þjónustukjarni við hraðbraut utan við hverfið líka helst með þverliggjandi bárujárni. Húsin virðast ekki alltaf hönnuð miðað við áttina sem þau snúa. Stundum ætti að vera dýrðlegt útsýni til Esjunnar en húsið snýr gluggalausum endagafli í þá átt, enda búið að byggja eftir sömu teikningu hér og þar um borgina svo að þau snúa ýmist út og suður eða austur vestur. Þá er niðurstaðan hverfi án þeirra gæða sem reynt var að ná í Árbænum, með öllum göllum bílaborgarinnar.
Við stöndum núna á viðmiðaskiptum hvað varðar loftslagsbreytingar. Ef við skoðum loftmynd af höfuðborgarsvæðinu þá sjáum við að best hannaða og nútímalegasta borgin var borgin sem var hönnuð upp úr 1920. Svæðið kringum Elliheimilið Grund og verkamannabústaðina við Hringbraut. Maður veltir aftur fyrir sér framförum, af hverju hönnum við ekki miklu betri borg en fátækt fólk í lítt menntuðu samfélagi fyrir hundrað árum? Að skoða leið gangandi manneskju frá Akralind í Kópavogi inn í Smáralind eða akstursvegalengd frá Hæðarseli í Breiðholti í Jórsali í Kópavogi þar sem hús í 100 metra fjarlægð hvort frá öðru eru í 6 km akstursfjarlægð ef litið er á vega- og almenningssamgöngukerfi.
Við eigum að lifa upplýsta tíma en höfuðborgarsvæðið, borgin okkar, verður ekki skilið á röklegan hátt nema útskýrð séu stirð samskipti smákónga í bæjarstjórnum árið 1990 eða 2000. Álíka dæmi um órökleg og óhagkvæm landamæri er helst að finna í skipulagi þar sem forn fjandríki liggja hlið við hlið. En svona er persónulegur metnaður klappaður í malbik og form sem markar daglegt líf þúsunda í hundrað ár.
Ef við skoðum arfleifð okkar tíma, höfuðborgarsvæðið sem við höfum skapað síðustu 30 árin, horfum á bílaraðirnar sem teygja sig frá Grensásvegi langleiðina í Mosfellsbæ annars vegar og frá Kringlumýrarbraut inn í Hafnarfjörð hins vegar, þá veltir maður fyrir sér hvað hafi eiginlega gerst. Af hverju er þetta staðan þegar við höfum alla þessa tækni og vísindi, alla þessa þekkingu, tölvur og fjármagn? Svarið er örugglega misskilin einstaklingshyggja, tilviljanakennd mörk sveitarfélaga og misskilin hugmynd um frelsi á kostnað annarra, skattborgara sem byggja vegina, komandi kynslóða sem gjalda fyrir mengunina. Borg er samfélag en það verður ekki heilbrigt ef það er hugsað út frá einstaklingum, verktökum eða þröngum hagsmunum sveitarfélaga með metnað um vöxt, óháð áhrifum á nærliggjandi sveitarfélög og umferð í gegnum þau, vegna þess að verktakinn græðir, sveitarfélagið fær sitt en óhagkvæmninni er velt á samfélagið. Vegagerð ríkisins er síðan annar handleggur, þar virðast menn hafa litið á hraðbrautir og slaufur sem æðsta tjáningarform samtíma okkar.
Nú er rætt um borgarlínu, stokka, rafbílavæðingu, sjálfkeyrandi bíla og líklega erum við stödd á einhverjum skilum hvað varðar ferðamáta og þar með borgarinnviði. Það væri áhugavert að æfa sig í langtímahugsun og horfa 50 ár fram í tímann og hugsa hvernig samgöngur og byggð á höfuðborgarsvæðinu gæti þróast eða verður að þróast í ljósi loftslagsbreytinga, krafna um að koma losun niður í núll á 30 árum. Þótt hver einasti bíll verði rafbíll þá er skipulagsvandinn samt sá sami, það er ekki pláss fyrir of mörg farartæki í 300.000 manna borg. Er hægt að vinda ofan af bílaborginni? Þarf Miklabrautin að skera borgina í tvennt og þarf hún 50 m helgunarsvæði? Þarf Reykjanesbrautin sömuleiðis að skera Reykjavík frá Kópavogi og Kópavog sjálfan eins og Berlínarmúr? Á slaufan við Elliðaárósa að vera þar til allrar eilífðar? Ef við horfum á framfarir síðustu ára í örflæðinu, hlaupahjólum, rafhjólum og skyldum farartækjum – hvert leiðir þessi þróun okkur næstu 20 ár?
Við höfum normalíserað dýr mislæg gatnamót og aðra innviði fyrir þungaumferð en hvernig myndu draumainnviðir líta út ef almenna farartækið væri ekki mikið stærra en rafhjól, ásamt sporvagni en bíllinn væri í fjórða sæti á eftir gangandi umferð? Ef hægt er að byggja stokka sem rúma fjóra vörubíla hlið við hlið væri áhugavert að sjá einhvern hanna innviði fyrir létt samgöngutæki sem alvöru ferðamáta. Væri hægt að nýta jarðvarmann og hafa upphitaða stíga á stofnleiðum? Ef umferð er rafknúin, létt og mengunarlaus, væri hægt að hafa hluta hennar nánast innanhúss eða láta hana flæða gegnum byggingar? Væri hægt að búa til einhvers konar skjól eða skýli á ákveðnum meginásum? Væri fráleitt að byggja yfir flæði fólks á ákveðnum svæðum? Hver kerskáli í Straumsvík er kílómetri að lengd en það eru fimm kílómetrar frá Elliðaám niður í Háskóla. Væri ferðalag að hluta til innanhúss vitlausara en neðanjarðarlest eða jarðgöng? Kannski er bara best að ferðast í fersku lofti? Mætti ímynda sér byggð þétt upp við Miklubraut eins og á Manhattan? Allavega, hver er hugmyndafræðin? Af hverju erum við að byggja og á hvaða forsendum, hvernig eigum við að þróast, byggt á hvaða draumum og hvert langar okkur að fara?
Höfundur er rithöfundur.
Þessi pistill er hluti greinaraðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá formlegu upphafi skipulagsgerðar hér á landi með setningu laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921.