Önnur löng grein, í þetta sinn um loftslagsmál. Það ætti að vera nóg að lesa þennan kafla en fyrir nákvæmari yfirferð þá mæli ég með því að lesa alla greinina.
Staða loftslagsmála er mjög óljós. Fjármögnun er ónákvæm, áhrif aðgerða eru óljós og markmiðin sjálf eru í ákveðinni óvissu. Á þessu kjörtímabili hafa stjórnvöld aðallega lagt fjármagn í aðgerðir gegn loftslagsmálum sem tengjast ívilnunum á vistvænum bifreiðum og uppbyggingu fjölbreyttari ferðamáta (strætó, borgarlínu og hjólandi). Á meðan góður árangur í orkuskiptum í samgöngum skiptir mjög miklu máli þá er vandinn umfangsmeiri.
Niðurstaða þessarar greinar er einfaldlega sú að enn eru of margar eyður í aðgerðaáætlun stjórnvalda til þess að hægt sé að segja að hún muni ná tilætluðum árangri. Of margar aðgerðirnar eru enn í undirbúningi og breyting á markmiði úr 40% samdrátt á losun niður í 55% samdrátt er algerlega óútfært.
Í heildina á litið er afrakstur kjörtímabilsins óásættanlegur í þessum málaflokki. Stjórnvöldum hefur einfaldlega mistekist að koma frá sér trúverðugri áætlun um aðgerðir í dag og árangur til framtíðar. Þess vegna hafa Píratar sett sér metnaðarfulla stefnu sem á að skila okkur öllum árangri í þessum málaflokki.
Staðan í dag
Stærsta verkefni framtíðarinnar eru þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga. Til þess að bregðast við þeim fyrirsjáanlega vanda þá þarf að byrja núna. Það hefði í rauninni þurft að bregðast við fyrr, en betra er seint en aldrei.
Nýlega kom út ný skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Hún sýnir hvernig forspár hafa reynst réttar, hvernig aukning á gróðurhúsalofttegundum er af mannavöldum og hvernig hlýnunin er þegar orðin 1,25°C. Markmiðið um að halda hlýnun undir 1,5°C er því í hættu og að óbreyttu mun því viðmiði vera náð snemma á næsta áratug. Þá er fyrirsjáanleg 2°C hækkun á hitastigi fyrir lok aldarinnar.
Afleiðingarnar af þessari hlýnun eru lúmskar, en gríðarlega umfangsmiklar því vandinn er hnattrænn. Það er því erfitt að segja nákvæmlega hverjar afleiðingarnar verða, sérstaklega staðbundnar afleiðingar. Það er hins vegar auðvelt að segja almennt séð hvað gerist. Hækkun sjávar, súrnun sjávar, meiri öfgar í veðri og tilfærsla vistkerfa – til þess að nefna nokkur dæmi.
Staðan í dag er að bestu vísindin sem við höfum vara við víðtækum breytingum á lífríki og vistkerfi sem mun leiða til mikillar aðlögunar ef við ætlum að viðhalda þeim lífskjörum sem við búum við í dag. Við höfum náð þeim lífskjörum á ósjálfbæran hátt fyrir umhverfið, þannig að ef við viljum viðhalda núverandi gæðum þá þurfum við að breyta því algjörlega hvernig við förum að því. Gullna reglan er að við skilum jörðinni til næstu kynslóða í sama eða betra ástandi en við fengum hana í okkar hendur.
Þetta er ekkert vandamál!
Ég vil byrja þennan pistil á því að ávarpa efasemdarfólk um loftslagsmál. Þau sem segja að jörðin hafi farið í gegnum meiri sveiflur eða þetta sé bara eðlilegur og náttúrulegur breytileiki. Já, það er satt að jörðin hefur farið í gegnum meiri loftslagsbreytingar. Það hafði gríðarleg áhrif á líf á jörðinni. Það er ekki hægt að segja að þær breytingar hafi verið jákvæðar eða neikvæðar því þær gerðust bara og lífið hélt áfram. Margar tegundir lífvera þurrkuðust út á meðan aðrar fylltu upp í skarðið í staðinn. Vandinn snýst um nákvæmlega þetta, að koma í veg fyrir þær óþörfu breytingar sem fyrirsjáanlegt er að verði á loftslagi jarðarinnar með tilheyrandi afleiðingum.
Það skiptir í rauninni ekki máli hvort breytingarnar eru af náttúrulegum völdum eða mannavöldum. Ef við vissum af loftsteini sem stefni á jörðina þá myndum við tvímælalaust reyna að gera eitthvað í því að lágmarka skaðann. Annað væri ábyrgðarlaust. Sama á við um loftslagsmálin, vandinn er fyrirsjáanlegur hvað sem við tautum og raulum. Að takast ekki á við þann vanda væri óábyrgt. Það þýðir að við þurfum að skoða hvaða áhrif við getum haft og grípa til aðgerða í samræmi við það. Kannski getum við ekki sent Bruce Willis með kjarnorkusprengju á loftsteininn, en við getum rýmt þau svæði sem hann lendir á og gert aðrar varúðarráðstafanir á öðrum stöðum því áhrifin verða ekki þau sömu alls staðar en allir þurfa að hjálpast að við að lágmarka skaðann.
Breytingarnar eru hægfara miðað við líf okkar og samfélag, en þær eru gríðarlega hraðar í jarðsögulegu samhengi. Fyrri sveiflur í loftslagi hafa tekið hundruðir, ef ekki þúsundir ára að ganga til baka. Það er að einhverju leyti jákvætt, þar sem við höfum þá tíma til þess að aðlagast – en það væri auðvitað best að þurfa ekki að aðlagast neinu. Það væri best ef við gætum bara skipt yfir í sjálfbærari aðferðir til þess að viðhalda lífsgæðum okkar og láta það nægja en núverandi hlýnun mun þegar valda óafturkallanlegum en ásættanlegum skaða (að minnsta kosti miðað við það sem þjóðir heimsins hafa sætt sig við – hlýnun um 1,5°C). Öll hlýnun umfram það mun valda þeim mun meiri skaða.
Hér sé ég fyrir mér að efasemdamenn séu búnir að afskrifa mig. Það verður bara að hafa það, ég vona að sagan sýni að milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna hafi rangt fyrir sér. Ef það verður raunin, þá munum við samt búa í sjálfbærum heimi. Þess vegna skiptir það mig ekki máli hver hefur rétt eða rangt fyrir sér í loftslagsmálum, lausnin sem boðið er upp á er góð – sama hvað.
Loftslagsmál í opinberum fjármálum
Að loknum þessum langa inngangi getum við loks byrjað á því að skoða stöðu loftslagsmála hér á landi miðað við opinber fjármál. Hvernig hafa stjórnvöld ákveðið að glíma við þann vanda sem stjórnvöld bera ábyrgð á í fjárlögum?
Ábyrgð stjórnvalda
Losun gróðurhúsalofttegunda á ábyrgð Íslands er skipt í fimm flokka, eftir því hvaðan losun kemur. Það eru orka, iðnaðarferlar og efnanotkun, landbúnaður, úrgangur og landnotkun. Stjórnvöld bera ekki ábyrgð á samdrætti í losun á öllum sviðum. Alþjóðaflug og siglingar eru í sér kerfi, einnig landnotkun og sá hluti iðnaðar sem tilheyrir svokölluðu ETS kerfi.
Þessi skipting veldur oft ákveðnum misskilningi, þar sem reynt er að draga landnotkun inn í jöfnuna og sagt að ef við myndum bara moka ofan í alla skurði þá myndum við ná loftslagsmarkmiðum samkvæmt skuldbindingum á nóinu. Á meðan það væri vissulega jákvætt fyrir losun almennt þá er einmitt gert ráð fyrir samdrætti í losun frá landnotkun innan LULUCF.
Þessi skipting gerir ráð fyrir því að hver þjóð út af fyrir sig getur ákveðið sjálf hvernig á að ná samdrætti í losun á gróðurhúsalofttegundum. Umhverfisstofnun heldur utan um losun Íslands og nýjustu tölur frá 2019 sýna 2% samdrátt á milli áranna 2018 og 2019. Það þýðir 28% aukning frá árinu 1990 og 8% samdráttur frá 2005, sem eru ákveðnar viðmiðunardagsetningar í loftslagsmálum. Kyoto-bókunin gerði ráð fyrir 20% samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda miðað við losun árið 1990. Losun á Íslandi jókst hins vegar um 26% frá 1990 til 2014 og náði Ísland þannig ekki að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Kyoto-bókuninni. Í kjölfarið á Kyoto-bókuninni kom Parísarsamkomulagið. Þar voru ekki sett markmið um samdrátt í losun heldur að halda hækkun hita innan við 1,5°C. Stjórnvöld eiga að útfæra lausnir sem ná þessu markmiði innan þeirra flokka sem stjórnvöld bera ábyrgð á. Sem sagt, ekki lausnir fyrir losun iðnaðar innan ETS-kerfisins, ekki fyrir landnotkun (enn sem komið er) og ekki innan alþjóðasiglinga og alþjóðaflugs. Það eru önnur kerfi sem búið er að koma upp sem sjá um samdrátt á þeim vettvangi.
Núverandi ábyrgð stjórnvalda til 2030 er 40% samdráttur á losun. Vegna samninga okkar við önnur lönd í Evrópu er okkar hlutur einungis 29% samdráttur. Núverandi aðgerðaáætlun gerir ráð fyrir því að ná 35% samdrætti hins vegar. Þegar sú aðgerðaáætlun kom út þá var markmiðið að draga saman losun um 40% og vantar því aðgerðir fyrir um 5% samdrátt í aðgerðaráætlunina. Þær aðgerðir eru einnig ófjármagnaðar. Nýlega var hins vegar tilkynnt um nýtt markmið fyrir 2030, eða 55% samdrátt á losun. Það er því staðan núna, það er á ábyrgð stjórnvalda að ná 29% samdrætti samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum fyrir 2030 en markmiðið er 55% samdráttur og svo hlutleysi árið 2040.
Fjárlög og fjármálaáætlun
Í fjármálaáætlun 2022 er umfjöllun um árangur stjórnvalda þetta kjörtímabil. Þar er sagt að mesta aukningin sé vegna loftslagsmála sem hafi áttfaldast á tímabilinu. Þar sem upphæðin var ekkert svo há til að byrja með er það kannski dálítið gildishlaðin framsetning. Hækkunin er frá 227 milljónum árið 2017 í 1,9 milljarða árið 2021. Aðgerðum stjórnvalda er skipt upp í fjóra útgjaldaflokka; bein framlög til loftslagsmála, skattalegar ívilnanir, breyttar ferðavenjur og sérstaka viðbót fyrir árin 2022-2026.
Þessi síðasti flokkur, sérstök viðbót, heitir þessu undarlega nafni af því að það er ekki búið að ákveða hvað á að gera við fjármagnið, bara búið að taka það til hliðar á táknrænan hátt fyrir kosningar en gera má ráð fyrir því að sá milljarður eigi að fjármagna óútfærðu aðgerðirnar til þess að ná samdráttarmarkmiðum. Það er óljóst hvort það er fjármögnun á þeim aðgerðum sem þarf til þess að ná bara 40% samdrætti eða 55% samdrætti í losun.
Ef auka milljarðurinn á að fjármagna óútfærðar aðgerðir þá er áhugavert að skoða þann kostnað í samhengi við aðrar aðgerðir. Aðgerðir til þess að ná 35% losun eru að kosta okkur um 12 milljarða á ári (skattalegar ívilnanir upp á 5,8 milljarða, breyttar ferðavenjur 4,8 og bein framlög til loftslagsmála 1,6 milljarð). Það væri hægt að segja að hver milljarður skili okkur um 3% í samdrætti á losun. Þess vegna er mjög áhugavert að einn milljarður til viðbótar við það eigi að ná annað hvort 5% árangri í samdrætti eða 20% (miðað við 40% eða 55% samdráttarmarkmið).
Þegar við veljum lausnir við vandamálum þá viljum við velja skilvirkustu og ódýrustu lausnirnar, ekki satt? Ef við göngum út frá því að við náum 5% árangri með þessum auka milljarði, en ekki 3% árangri eins og núverandi aðgerðaáætlun kostar, hvers vegna voru þessar aðgerðir ekki valdar fyrst? Þær eru greinilega miklu hagkvæmari – meiri árangur fyrir minna fé! Þetta sýnir það svart á hvítu að stjórnvöld hafa ekki hugmynd um hvað þau eru að gera og giska bara á þann kostnað sem þarf til þess að tækla loftslagsvandann.
Nánari greining
Ef við einbeitum okkur bara að málefnasviði umhverfismála, og skoðum fjárframlögin þar, þá getum við séð að 6,9 milljörðum meira er varið í það málasvið í lok þessa kjörtímabils en 2017. Þar munar mestu um fjárlög 2021 þar sem bætt var við 3,5 milljörðum króna. Rúmur helmingur af því eru framlög í ofanflóðasjóð (sem ríkið skuldar). 800 milljónir fara í fráveituframkvæmdir sveitarfélaga, tæpar 400 milljónir í styrkingu innviða vegna óveðurs og um 450 milljónir í meðhöndlun úrgangs (endurvinnsla og úrvinnslusjóður). Þetta eru 3,25 milljarðar af auknum fjárframlögum til umhverfismála á árinu 2021. Þetta eru ekki bein framlög í aðgerðaáætlun vegna loftslagsmála. Árið 2020 fór mestallt af auknum fjárframlögum í meðhöndlun úrgangs. Það var helst árið 2019 þegar 338 milljónir voru settar í sértækar aðgerðir að frumkvæði stjórnvalda til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Afgangurinn það árið fór í meðhöndlun úrgangs og framkvæmd innviðaáætlunar um verndun náttúru og menningasögulegra minja.
Að lokum er það 2018, fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar. Þar eru upphæðirnar sem telja í málaflokkunum annars vegar meðhöndlun úrgangs og svo innviðaáætlun um vernd náttúru og minja, tæplega 1,4 milljarður þar.
Aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna loftslagsmála til 2030 er einungis árangurs- og kostnaðarmetin að hluta til. Í henni er fjallað um að fjármagn eyrnamerkt loftslagsmálum séu 10 milljarðar, skattastyrkir 20 milljarðar, breyttar ferðavenjur 62 milljarðar. Breyttu ferðavenjurnar eru sagðar vera strætó, borgarlína og göngu- og hjólreiðastígar.
Hvað þýðir þetta eiginlega?
Satt best að segja er mjög erfitt að meta hvað þetta þýðir allt saman. Eyðurnar eru einfaldlega of stórar. Ef við trúum því mati sem liggur á bak við aðgerðaáætlun stjórnvalda, og við höfum svo sem enga ástæðu til þess að gera það ekki, þá mun hún skila okkur æskilegum lágmarksárangri um samdrátt í losun fyrir 2030. Hún mun samt ekki skila okkur þeim árangri sem er nauðsynlegur miðað við sett markmið.
Það er einnig augljóst að fjármögnunin er mjög handahófskennd. Nær ógerlegt er að nálgast kostnaðarmat þannig að það er ómögulegt fyrir þingið að taka upplýsta ákvörðun um hvort verið sé að velja hagkvæmustu lausnirnar til að koma til móts við vandann. Það lýsir sér best í þeim auka milljarði sem var settur inn í nýjustu fjármálaáætlunina, rétt fyrir kosningar.
Til þess að vita hvort allt gengur samkvæmt áætlun þá þarf framvinduáætlun. Til þess að sjá að árangur sé að standast væntingar eða ekki. Það hefur áhrif þegar verið er að endurmeta hvert á að beina fjármagni á rétta staði. Framvinduáætlunin virðist samt vera til, annars væru sum línuritin um þróun losunar ansi vandræðaleg.
Allt þetta þýðir þá í raun og veru að aðgerðir stjórnvalda eru einfaldlega fálmkenndar. Það er almennt ekki vitað hversu mikið þær kosta, hver árangur þeirra verður, hvenær árangur muni sjást og hvort sé verið að velja hagkvæmustu kostina. Ef ég ætti að velja eitthvað lýsingarorð fyrir núverandi ríkisstjórn, þá endurspeglast það orð í viðbrögðum stjórnvalda við loftslagsvandanum – fálmkennt.
Stefna Pírata
Píratar hafa sett sér metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum. Fyrir síðustu kosningar var stefna Pírata metin sú besta af loftslag.is og þó það sé ekki hægt að vera betri en sá besti þá teljum við samt að stefnan okkar í dag sé bæði best og enn betri en hún var fyrir síðustu kosningar.
Píratar setja fram skýr markmið um kolefnishlutleysi með grænni umbreytingu og hringrásarhagkerfi fyrir alla. Við þurfum að tryggja vernd náttúru og hafs með áherslum á velsældar- og heimsmarkmið. Þó Ísland sé lítil eyja lengst norður í Atlantshafi þá erum við engin eyja þegar kemur að loftslagsmálum. Þar verðum við að vera í liði með öllum öðrum á jörðinni. Við viljum ná árangri með valdeflingu almennings og stjórnvöldum sem axla ábyrgð.
Höfundur er þingmaður Pírata.