Fyrir réttu ári síðan birtist í Kjarnanum greinin Enn eitt stefnulaust ár eftir Rósu Bjarnadóttur, forstöðumann bókasafns og upplýsingaþjónustu Listaháskóla Íslands. Greinin var skrifuð í tilefni alþjóðlegrar viku opins aðgangs 2021 þar sem Rósa auglýsti eftir langþráðri stefnu íslenskra stjórnvalda um opinn aðgang að niðurstöðum rannsókna. Á sama tíma birtist einnig greinin Rannsóknargögn eru auðlind eftir Piu Sigurlínu Viinikka, upplýsingafræðing á Bókasafni og upplýsingaþjónustu Háskólans á Akureyri sem einnig auglýsti eftir stefnu íslenskra stjórnvalda.
Nú er liðið enn eitt ár. Enn ein alþjóðleg vika opins aðgangs er hafin. Ennþá er beðið eftir stefnu stjórnvalda. Stefnu, sem vonandi heggur á þau tengsl sem alltof lengi hafa verið samtvinnuð framgangskerfum háskóla og hagnaðardrifnum markmiðum útgefenda vísindatímarita.
En þrátt fyrir tíðindaleysi hérlendis eru hræringar erlendis. Jákvæðar fréttir af alþjóðavettvangi sem tengjast opnum vísindum og rannsóknum.
UNESCO tilmæli
Þar ber einna hæst tilmæli UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, til aðildarríkja UNESCO varðandi opin vísindi sem samþykkt voru á 41. aðalráðstefnu UNESCO þann 23. nóvember sl.
Markmið tilmælanna er m.a. að skapa alþjóðlegan ramma fyrir opna vísindastefnu og framkvæmd sem viðurkennir fræðilegan og svæðisbundinn mun á sjónarmiðum, tekur tillit til akademísks frelsis, og sérstakra áskorana vísindamanna og annarra aðila á sviði vísinda í mismunandi löndum, einkum í þróunarlöndum, og stuðlar að því að auka/efla upplýsingalæsi og draga úr þeim stafræna, tæknilega og þekkingarlega mun sem finna má á milli landa og innan þeirra.
Áhugasamir geta kynnt sér tilmælin hér.
Tilmælin eru merkur áfangi og í framhaldinu þarf hvert aðildarríki fyrir sig að skoða þau og ígrunda hvar það er statt í sinni vegferð í átt að opnum vísindum og hvaða skref þarf að taka næst.
Endurbætur á mati rannsókna
Þann 8. júlí sl. komu saman fulltrúar frá rúmlega 350 stofnunum frá 40 löndum sem lýst höfðu áhuga á að taka þátt í ferli um endurbætur á mati rannsókna. Vinnan hófst í janúar 2022 og teymið sem vann að endurbótunum var skipað fulltrúum frá European University Association (EUA), Science Europe, framkvæmdastjórn ESB og Dr. Karen Stroobants sem er sérfræðingur í rannsóknum rannsókna (e. reseach on research). Háskóli Íslands átti fulltrúa í þessum hópi. Niðurstaða þessarar vinnu er samningur um endurbætur á rannsóknamati sem kynntur var 20. júlí sl.
Meðal stofnana og samtaka sem hyggjast taka þátt í þessum endurbótum eru opinberir aðilar, einkaaðilar, stofnanir sem fjármagna rannsóknir, háskólar, samtök vísindamanna og margir fleiri. Samningurinn um endurbætur á rannsóknarmati markar sameiginlega stefnu sem varða breytingar á matsaðferðum fyrir rannsóknir, rannsakendur og stofnanir sem vinna að rannsóknum. Aðalmarkmiðið er að hámarka gæði og áhrif rannsókna.
Þeir aðilar sem undirrita skuldbinda sig til sameiginlegrar framtíðarsýnar, sem felst í því að mat á rannsóknum, rannsakendum og rannsóknastofnunum viðurkennir margvíslegan árangur, starfshætti og starfsemi sem hámarkar gæði og áhrif rannsókna. Vonandi bera háskólar gæfu til þess að breyta sínu framgangskerfi.
Hvíta húsið og niðurstöður rannsókna
Skrifstofa Hvíta hússins í Washington sem kennd er við vísindi og tækni hefur uppfært stefnu sína varðandi opinn aðgang að niðurstöðum rannsókna. Frá árinu 2013 hefur verið lögð áhersla á að gera rannsóknir sem studdar eru af opinberu fé séu opnar öllum en sá hængur verið á að tímarit gátu beðið með að opna aðganginn í allt að 12 mánuði. Á meðan þurfti að borga fyrir aðgang ef hann fékkst ekki í gegnum bókasöfn eða aðrar stofnanir. Samkvæmt uppfærðri stefnu þarf nú að gera niðurstöður rannsókna sem studdar eru af almannafé aðgengilegar bandarískum almenningi án birtingatafa (e. embargo) og kostnaðar. Allar stofnanir hins opinbera munu innleiða þessar uppfærðu leiðbeiningar að fullu eigi síðar en 31. desember 2025 og þar með binda enda á 12 mánaða birtingatöf.
Allt eru þetta jákvæðar fréttir og mikilvægir áfangar á leið okkar til að tryggja opinn aðgang að upplýsingum. Þegar samfélög og hagkerfi heimsins verða fyrir slíkum skakkaföllum sem COVID-19 hefur valdið, opnast augu okkar enn frekar fyrir mikilvægi þess að hafa hindrunarlausan aðgang að upplýsingum og þekkingu sem gerir sérfræðingum okkar kleift að leita lausna til að koma okkur út úr ástandinu. Síðan má líka spyrja: Ef hægt er að leiða saman hagsmunaaðila frá öllum heimsálfum og úr öllum atvinnugreinum og sameinast um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum varðandi COVID-19, hvers vegna er ekki hægt að gera það sama varðandi rannsóknir á krabbameini, félagslegum ójöfnuði, fæðuöryggi og loftslagsbreytingum? Öll þessi mikilvægu mál ásamt fleirum munu fela í sér miklar áskoranir fyrir heilsu manna og framtíð okkar á þessari plánetu næstu áratugi. Þess má geta að lögð er sérstök áhersla á loftslagsmál í alþjóðlegri viku opins aðgangs nú í ár.
Miðað við tímann – árin - sem stefnusmíði íslenskra stjórnvalda hefur tekið varðandi opinn aðgang/opin vísindi, hljótum við að eiga von á sérdeilis vönduðu og vel ígrunduðu plaggi sem tekur tillit til þeirra skrefa sem tekin hafa verið hjá nágrannaþjóðum okkar og víðar. Við bíðum spennt.
Póstlisti um opinn aðgang.
Twitter.
Höfundur er verkefnastjóri á Landsbókasafni-Háskólabókasafni.
Heimildir
EUA European University Assosiation. Reforming research assessment: The Agreement is now final.
Sótt 25. júlí 2022.
Smits R. & Pells R. 2022. Plan S for Shock: Science. Shock. Solution. Speed.. London: Ubiquity Press. DOI.
UNESCO. UNESCO Recommendation on Open Science.
Sótt 25. nóvember 2021.