Þegar hrun verður er ein megninregla sem sjaldan bregst: gömlu valda- og peningaöflin í samfélaginu styrkja stöðu sína. Þau eru einfaldlega í betri aðstöðu, vegna þekkingar sinnar á því hvernig kerfið virkar, sambanda innan fjármálageirans og tengsla við það sem er að gerast í stjórnmálunum, til að bregðast hraðar við, passa sitt og græða á uppsveiflunni sem óhjákvæmilega mun fylgja.
Í aðdraganda þess að neyðarlög og fjármagnshöft voru sett á Íslandi haustið 2008, áður en krónan féll, fluttu til að mynda margir úr þessum hópi peninga sem þeir áttu hérlendis til annarra og öruggari, og í sumum tilfellum afskekktari, landa. Í árslok 2007 áttu Íslendingar til að mynda 8,2 milljarða króna á Tortóla-eyju. Í dag hefur sú fjárhæð fjórfaldast.
Með því að koma fjármunum sínum í öruggt erlent skjól óx virði þeirra í íslenskum krónum einnig gríðarlega sökum gengisfallsins. Þeir sem voru í aðstæðum til að ráðast í svona fjármagnsflutninga voru auk þess ekki bundnir þeim klyfjum fjármagnshafta sem aðrir landsmenn voru bundnir á eftirhrunsárunum.
Þetta fólk gat síðan nýtt sér fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands til að koma aftur „heim“ með peninga og fá afslátt af þeim eignum sem nýju viðskiptabönkunum hafði verið falið að endurskipuleggja og selja. Sú leið var sniðinn til að gagnast ríku fólki. Alls fengu fjárfestar sem komu með peninga inn í landið með þessum hætti um 50 milljarða króna í afslátt af fjárfestingum sínum. Seðlabankinn hefur aldrei viljað opinbera hverjir það voru sem nýttu sér þessa leið. Fjölmiðlar hafa þó sýnt fram á að hluti hópsins eru aðilar sem léku stór hlutverk í falli íslenska efnahagskerfis haustið 2008.
Þrátt fyrir að miklir fjármunir hafi verið fluttir heim til að versla á á íslensku tombólunni er einnig ljóst að fjölmargir íslenskir einstaklingar eiga mikið fé erlendis. Í nýlegum tölum frá Seðlabanka Íslands kom til að mynda fram að Íslendingar eigi 32 milljarða króna á Bresku Jómfrúareyjunum, nánar tiltekið á Tortóla-eyju klasans. Alls eiga íslensk fyrirtæki og einstaklingar nokkur hundruð milljarða króna í erlendum eignum.
Bankarnir valdir til að endurskipuleggja
Íslenski hlutabréfamarkaðurinn nánast hvarf í hruninu, enda um 70 prósent af íslensku atvinnulífi í þörf fyrir fjárhagslega endurskipulagningu í kjölfar þess. Ýmsar hugmyndir voru uppi um hvernig ætti að fara að þessari endurskipulagningu, sem í fólst aðallega skuldahreinsun á kostnað erlendra kröfuhafa föllnu bankanna. Um tíma var undirbúin stofnun svokallaðs eignaumsýslufélags ríkisins, sem átti að geta tekið við fyrirtækjum í vanda.Á endanum var fallið frá þessum áformum og ákveðið að láta nýju bankana, sem höfðu verið búnir til með innstæðum almennings og fjárframlagi ríkissjóðs, sjá um þessa endurskipulagningu. Þeir fengu það hlutverk að „þrífa“ atvinnulífið af skuldum og öðrum yfirhengjum og selja rekstrarhæf fyrirtækin aftur þegar þeim „þvotti“ væri lokið. Kostnaðurinn við þessi "þrif" lenti á erlendum kröfuhöfum. Þetta voru að hluta skuldir óreiðumannanna sem Ísland ætlaði ekki að borga.
Eðlilegt var að álykta að sala þessarra endurskipulögðu fyrirtækja þyrfti að fara fram með opnum, gagnsæjum og sanngjörnum hætti þar sem fyllsta jafnræðis yrði gætt. Eðlilegt vegna þess sem hafði gerst á góðæðirsárunum á Íslandi, vegna þeirrar tortryggni sem ríkti í garð fjármálakerfisins í kjölfar þess og vegna þess að það var ríkið, í umboði fólksins, sem færði bönkunum þessar eignir til endurskipulagningar með handafli. Þeim var falið samfélagslegt hlutverk.
Handvelja fólk til að græða fullt af peningum
Bankarnir hafa staðið sig vel við að endurskipuleggja atvinnulífið. Fyrirtækin eru flest lífvænleg og einungis örfá hafa þurft á fleiri en einum umgangi af endurskipulagningu að halda.Þegar kemur að því að endurútdeilda þessum miklu gæðum hafa bankarnir hins vegar að mörgu leyti brugðist illa. Dæmin um að valdir einstaklingar hafi fengið tækifæri til að eignast þessi gæði, oft á hlægilega lágu verði, eru allt of mörg. Hægt er að sjá nokkur þeirra hér, hér og hér. Og það virðist ekki ætla að verða neitt lát á þessum háttum.
Oft virkar ferlið þannig að ónafngreindir fjárfestar, eða aðilar sem þekkja vel til innviða fyrirtækja og hafa þar með betra færi til að átta sig á raunvirði þeirra, setja sig í samband við fjárfestingabankahluta Arion banka, Íslandsbanka eða Landsbanka og biðja um að fá að kaupa. Í öðrum tilfellum ákveða bankarnir að selja vildarviðskiptavinum sínum, eignarfólki sem er nægilega ríkt til að komast í einkabankaþjónustu hjá bönkunum, eignir sem ekki hafa verið formlega auglýstar til sölu eða leyfa þeim að kaupa hluti á lægra verði í aðdraganda skráninga á markað.
Þeir sem sjá um þessa gerninga segjast ekki sjá neitt athugavert við þessa aðferðarfræði. Eignir séu seldar með hagsmuni bankans að leiðarljósi. En augljóst er að aðrir, þeir sem fá að kaupa, hafa líka mikla hagsmuni af þessari aðferðarfræði. Og hafa mokgrætt á henni.
Skýr aðstöðumunur
Það sem blasir við öllum sem vilja sjá er sá aðstöðumunur sem er á milli hinna útvöldu sem fá að eiga og allra hinna þegar kemur að því að losa um eignirnar sem bönkunum var falið að koma í nýtt eignarhald eftir hrunið. Sumir, án þess að það sé útskýrt af hverju, fá tækifæri til að græða fullt á silfurfati, jafnvel með fjármögnun frá bönkum, á sama hátt og þeir hafa alltaf fengið.Starfsmaður í fjármálageiranum sagði nýverið við mig að þetta væri „allt sama gamla liðið sem er að gera alla dílanna“. Þannig hafi það verið undanfarin ár.
Þessi aukna auðsöfnun hinna ríku og valdamiklu er staðfest í nýjum tölum Hagstofu Íslands um eiginfjárstöðu einstaklinga, sem birt var í síðustu viku. Samkvæmt þeim jókst auður þeirra tíu prósent landsmanna sem þéna mest um 88,2 milljarða króna á árinu 2014. Tæplega þriðja hver króna sem varð til í nýjum auði á síðasta ári fór til þessa hóps. Alls á þessi tíund 28 prósent af allri hreinni eign landsmanna, eða samtals 879 milljarða króna.
Sá helmingur þjóðarinnar sem þénar minnst jók hreina eign sína um 16 milljarða króna á síðasta ári. Auður þeirra ríkustu óx rúmlega fimm sinnum meira á tímabilinu.
Þessar eignir eru þó nær örugglega vanáætlaðar því inn í þær vantar bæði erlendar eignir sem eru ekki gefnar upp á Íslandi og þær sýna nafnvirði verðbréfaeignar þessa hóps. Markaðsvirði verðbréfa hans (hlutabréfa, skuldabréfa og hlutdeildarskirteina) er mun hærra en nafnvirðið.
Hinir ríku verða miklu ríkari
Valdir hópar eignafólks, sem hið opinbera hefur ekkert gert til að opinbera hverjir eru, hefur því styrkt stöðu sína gríðarlega á undanförnum árum. Með aðstoð banka, fjármagnshafta, glundroða og að einhverju leyti hins opinbera hafa þessir hópar fengið að eignast stóra hluti í endurskipulögðum og nú arðsömum rekstrarfyrirtækjum, fasteignum og fullt af öðrum innlendum eignum. Restin, almenningurinn sem fær borgað í íslenskum krónum og skuldar verðtryggt eða á okurvöxtum, fær brauðmola af veisluborðinu.Það er ódýrt að kenna bara sitjandi ríkisstjórn, sem pólitískir andstæðingar kalla ríkisstjórn hinna ríku, um þessa stöðu. Margt sem orsakaði hana var gert á vakt síðustu ríkisstjórnar, sem kenndi sig við hreint vinstri.
Tölurnar ljúga ekki. Hinir ríku hafa orðið ríkari í kjölfar hrunsins og áhrif þeirra á daglegt líf okkar hafa vaxið. Það er staðreynd.
Svo verður hver og einn að svara því hvort honum finnist þessi sívxandi misskipting gæðanna í lagi.