Undanfarna tvo áratugi hafa fyrirætlanir Landsvirkjunar um að reisa Hvammsvirkjun í Þjórsá verið kynntar á ýmsum stigum. Upphaflega var rætt um litla rennslisvirkjun sem varð þó fljótlega öllu viðameiri í meðförum Landsvirkjunar, þ.e. 93ja megavatta virkjun með fjögurra ferkílómetra jökullóni niðri undir miðri sveit í Gnúpverjahreppi. Eins og gefur að skilja hefur ekki ríkt sátt innan samfélagsins í Skeiða- og Gnúpverjahreppi um fyrirhugaða virkjun.
Hinn 8. mars síðastliðinn fór fram íbúafundur í félagsheimilinu Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem sveitarstjórn boðaði til, en um var að ræða kynningarfund af hálfu Landsvirkjunar á téðri fyrirætlun sinni um Hvammsvirkjun. Í lok fundar bárust spurningar úr sal og spunnust af þeim umræður sem sýndu berlega að enn sem fyrr væri ekki sátt um málið í sveitarfélaginu. Efirfarandi spurningar voru þeirra á meðal:
1) „Vorið 2007 handsöluðu þrír ráðherrar vatnsréttindin í Þjórsá yfir til Landsvirkjunar. Það sumar og fram eftir hausti þrýsti Landsvirkjun mjög á landeigendur við Þjórsá um að afsala sér landi undir virkjanir á þeim forsendum að hún ætti vatnsréttindin. Í desember 2007 hafði ríkisendurskoðun dæmt umrædda færslu vatnsréttinda ógilda. Þar sem Landsvirkjun átti raunverulega ekki vatnsréttindin árið 2007, eru þá samningar við landeigendur frá 2007 ekki líka sjálfkrafa ógildir sbr. lög nr. 7/1936, 30. og 31. grein?
2) Er Landsvirkjun bótaskyld gagnvart þeim landeigendum sem hún lét halda að samningsstaða þeirra væri lakari en hún var?“
Þrátt fyrir loforð um að svara þessum spurningum í tölvupósti, höfðu engin svör borist frá Landsvirkjun þegar þetta er skrifað, 12. maí 2022, þrátt fyrir stanslausar ítrekanir frá sveitarstjórnarskrifstofu Skeiða- og Gnúpverjahrepps og fleirum um svör. Samræmist þetta illa yfirlýstri ánægju aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar á fundinum, Kristínar Lindu Árnadóttur, með að vera í „samtali“ við íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Samkvæmt lögum nr. 7/1936, 30. og 31. gr., sem ekki er hægt að skilja öðruvísi en svo, að þeim sem er krafinn um að láta eitthvað af hendi samkvæmt gerðum samningi, beri ekki skylda til þess hafi hann verið staðfastlega rangt upplýstur eða blekktur við samningsgerðina. Þetta hlýtur því að túlkast þannig, að sé hann ( hér landeigandinn) 1) látinn halda eitthvað ósatt um réttindi mótaðilans þegar sá krefst þess að hann láti þinglýstar eigur sínar af hendi, og 2) sé boðin greiðsla fyrir, - þá hafi hann a.m.k. áreiðanlega fengið lítilfjörlegri bætur en honum bar – eða að afsal hafi átti ekki að eiga sér stað. Nema hvort tveggja væri.
Hér þarf varla að minna á skuggann af eignarnámshamrinum sem landeigendur við Þjórsá sátu undir af hálfu Landsvirkjunar við umrædda samningagerð á árunum 2007-2008, beggja vegna Þjórsár, frá efstu byggð til lágsveita, þegar fulltrúar hennar herjuðu á landeigendur með að láta lönd af hendi undir Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Með hin meintu vatnsréttindi Landsvirkjunar að vopni náðu fulltrúar hennar á þessum tíma samningum við ýmsa landeigendur um að láta land af hendi undir virkjanirnar, ekki síst þá landeigendur sem höfðu þráast við fram að því í andstöðu við framkvæmdirnar og eyðilegginguna sem þeim myndi fylgja.
Þessu til sönnunar er bréf frá Þorsteini Hilmarssyni, þáverandi fulltrúa Landsvirkjunar, til heimamanns í Gnúpverjahreppi. Bréfið er dagsett 15. nóvember 2007. Þar stendur m.a. orðrétt: „... sé ekki vilji til samninga mun Landsvirkjun bjóða fram bætur eftir því sem við á og í samræmi við kvaðirnar. Sætti landeigendurnir sig ekki við það getur þetta farið fyrir dómstóla, en þar er ekki fjallað um rétt eða réttleysi til að nýta vatnsorkuna, heldur hvernig staðið skuli við þá samninga sem landeigendur og Títanfélagið gerðu á sínum tíma.“ (Til skýringar: Vatnsréttindi Títanfélagsins fékk ríkið á sínum tíma og handsalaði síðan ólöglega til Landsvirkjunar vorið 2007).
Af orðum fulltrúa Landsvirkjunar má sjá að þeir landeigendur sem þráuðust við gátu aðeins þráast við með bótaupphæðir í huga. Um rétt Landsvirkjunar til að virkja lék hins vegar enginn vafi, umræða um það óþörf og réttindin ótækt efni handa dómstólum að fást við! Hér sést glöggt hvaða völlur var á Landsvirkjun við íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps á árinu 2007.
Hinn 11. október 2007 sagði Árni Matthiesen fjármálaráðherra í ræðustól Alþingis (sbr. althingi.is): „Á þessum tíma var afskaplega mikilvægt að gert yrði samkomulag við Landsvirkjun um þessi vatnsréttindi þar [í Þjórsá]. Ef það hefði ekki verið gert, eða væri ekki gert gæti það staðið því fyrir þrifum að þessi mál gætu þróast áfram á eðlilegan hátt, meðal annars vegna þess að sveitarfélögin höfðu sett það skilyrði fyrir því að breyta skipulagi að búið væri að semja við þá sem eiga vatnsréttindi sem ríkið á ekki. Því var þetta nauðsynlegt, málið hefði getað stöðvast.“
Vegna þessa settust þrír ráðherrar við borð örfáum dögum fyrir alþingiskosningar 2007 – án þess að nokkur vissi - og færðu vatnsréttindin frá ríki (almenningi), til Landsvirkjunar með pennastrikum. Þannig „eignaðist“ Landsvirkjun yfirgnæfandi meirihluta í „húsfélagi“ vatnsréttindahafa (hverjir sumir höfðu verið óþægir að setjast við samningaborð), en án þess að Alþingi væri það kunnugt, eða fjallaði um málið.
Því næst tók Landsvirkjun illa fengin vatnsréttindin og fór um sveitir á bökkum Þjórsár og notaði þau sem þumalskrúfu á landeigendur sem höfðu þráast við. Í desember 2007 þegar úrskurður Ríkisendurskoðunar lá fyrir, kom fram í ræðu Árna Matthiesen fjármálaráðherra 10. desember 2007 að yfirfærslan hefði átt að vera samhangandi virkjanaleyfinu.
Er virkjanaleyfið ekki enn ófengið? Hvort átti að koma á undan, eggið eða hænan? Þetta er skýrust staðfesting á að Landsvirkjun fór um vatnsréttindin ófrjálsri hendi þegar hún heimsótti landeigendur á bökkum Þjórsár árið 2007, veifandi þeim: „Annars hefði málið stöðvast.“
Ég læt lesendum eftir að leita nöfn ráðherranna þriggja uppi, en hver hefði sómt sér betur við borðið meðal þeirra en Jón Hjaltalín nokkur, sá ráðagóði ráðherra?
Við að horfa á Verbúðina vorum við minnt á hvernig eignir, auðlindir og lífsviðurværi fólks á landsbyggðinni eru hirt af því - og komið fyrir í vösum annarra á suðvesturhorninu, eða í aflöndum. Landsvirkjun hefur undirritað viljayfirlýsingu um að „hjálpa hollenskum höfnum“ með orkuskipti sín. Hyggst reisa hér vetnisverksmiðju til þess. Mann setur hljóðan, og þó. Hvert ætti hún annars að selja alla umframorkuna (sem er sláandi) úr 93ja megavatta Hvammsvirkjun niðri í miðri sveit á Íslandi?
Eiga Íslendingar ekki fullt í fangi með eigin orkuskipti – og er þrýstingurinn á að virkjað sé ekki vegna þess? Hér segir Landsvirkjun eitt – en ætlar að gera annað. Hún ætlar að svelgja í sig umhverfið úr daglegu lífi lifandi fólks með fjögurra ferkílómetra jökullóni upp við stofuveggi hjá því - og nota umframorkuna til orkuskipta erlendis. Hér er nýlendugræðgi og hrávörusala á rafmagni til útlanda gegnum sæstreng færð í nýja kápu, enda margfaldar gærur Landsvirkjunar ekkert nýnæmi.
Hvammsvirkjun skorar ekki nærri hæst í Rammaáætlun sem álitlegur virkjanakostur. Til hvers er stigagjöf Rammaáætlunar ef ekki á að taka mið af henni? Hvers vegna á að ráðast í Hvammsvirkjun á undan öðrum hagkvæmari kostum? Aðrir virkjanakostir, svo og að bæta flutningskerfi, ætti að vera í forgangi í stað þess að hrifsa frá fólki umhverfið úr þess daglega lífi þar sem það býr og þar sem matvæli eru framleidd síðan í öndverðu. Subbulegir draumórar Landsvirkjunar um að koma umframorkunni í lóg í útlöndum toppa svo þetta allt saman, ásamt því að hafa ekki ansað í rúma tvo mánuði sjálfsögðum fyrirspurnum um málefnið frá íbúum og öðru heimafólki í gullhreppi.
Höfundur er sagnfræðingur og á uppruna sinn og framtíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.