Okkur berast fréttir af auknu og grófara ofbeldi en áður og fólk veltir fyrir sér hvað sé eiginlega í gangi í samfélaginu. Er þetta ofbeldi hluti af þeirri skautun sem sjá má á samfélagsmiðlum og aukinni hörku sem virðist vera í samskiptum? Ef við viljum skilja hvað er í gangi, þá verðum við að skilja valdbeitingu og ofbeldi, bæði hvað valdbeiting og ofbeldi eru og í hvaða kringumstæðum fólk grípur til slíkra úrræða frekar en t.d. að ræða málin.
I.
Ofbeldi er ein tegund valdbeitingar en ekki sú eina. Dæmigert ofbeldi einkennist af því að einhver sem er meiri máttar gerir eitthvað af ásettu ráði sem skaðar aðra manneskju sem er minni máttar. Þarna höfum við því þrennskonar atriði sem einkenna dæmigert ofbeldi:
- Valdamismun
- Viljaverk
- Skaða
Nauðgun er skýrt dæmi um ofbeldi, enda felur nauðgun í sér að ein manneskja beitir afli til að koma eigin vilja fram gegn vilja annarrar manneskju. Þegar tveir jafningjar slást af því að þeim hefur orðið sundurorða er hins vegar ekki um dæmigert ofbeldi að ræða, jafnvel þótt kringumstæðurnar einkennist ekki af friði. Ófriður er því ekki alltaf til marks um ofbeldi, jafnvel mikill ófriður. Þegar Þórður kakali og hans menn lögðu að bátum Kolbeins unga á Húnaflóa árið 1244 og flóabardagi braust út þar sem yfir 70 manns biðu bana er hæpið að segja að lið Þórðar hafi beitt lið Kolbeins ofbeldi, jafnvel þótt mannfallið hafi næstum allt verið Kolbeins megin. Lið Þórðar var varla nema helmingur af liði Kolbeins og bátarnir bæði færri og minni og því var valdamismunurinn Kolbeini í hag en ekki Þórði.
Þegar við ræðum um ofbeldi á íslensku er stundum gert ráð fyrir að um sé að ræða sama fyrirbæri og á ensku er kallað „violence“. Hér vildi ég staldra aðeins við því mér virðist að íslenska orðið „ofbeldi“ sé ekki alltaf góð þýðing á „violence“. Enska orðið er mun víðara, sem birtist m.a. í því að það er notað um ýmislegt þar sem engin viljaverk eða valdamismunur á sér stað, t.d. um fyrirbæri í náttúrunni. Straumur í á getur verið „violent“, vindurinn getur hrifið eitthvað með sér af því að hann er „violent“, en á íslensku myndum við aldrei nota „ofbeldi“ um slíkt heldur tala um „kraftmikinn“ straum eða „hvassan“ vind.
Einnig eru hverskyns handalögmál, slagsmál og ófriður dæmi um „violence“ en á íslensku held ég að venjuleg handalögmál séu ekki réttnefnt ofbeldi. Flóabardagi var vissulega dæmi um „violence“, og það mikið, þótt ég sé að minnsta kosti hikandi um að tala um „ofbeldi“ í því sambandi. Annað sem einkennir enska orðið er að það vísar gjarnan til einhvers konar brots eða að farið er yfir mörk. Lögbrot felur í sér að lögin sjálf eru „violated“, ekki bara fórnarlamb brotsins. Og ef mér finnst ég hafa orðið fyrir ofbeldi gæti ég sagt á ensku: „I felt violated“ en á íslensku myndi ég segja: „Mér leið eins og brotið hefði verið á mér“. Málfræðilega atriðið hér er að „ofbeldi“ er einungis nafnorð á íslensku, vísar til einhvers sem stundum er beitt og sumt fólk verður fyrir, en enska orðið „violence“ á sér samsvarandi sagnorð, „to violate“.
En nóg um orðanotkun í bili. Hvers vegna skyldi ég vera að tala um ofbeldi. Jú, ég hef áhyggjur af því að meðal þess sem ógni örygginu og geri samfélagið verra sé valdbeiting og ofbeldi. Kjarni lýðræðislegs samfélags er einmitt að fólk tekur ágreiningsmál sín út úr farvegi valds og aflsmunar og inn í umhverfi rökræðu og gagnkvæms skilnings; fólk reynir að leysa málin á vettvangi skynsemi og í ljósi siðferðilegra gilda frekar en að láta hendur og aflsmuni ráða. Kannski er einmitt þetta prófsteinn lýðræðisins; hvernig við bregðumst við þegar við rekum okkur hvert á annað. Og það hvernig fólk bregst við þegar það rekur sig hvert á annars horn í hversdagslegustu kringumstæðum daglegs lífs veltur á viðhorfum þess hvers til annars, hæfileikum þess til að nálgast hvert annað af virðingu, og vilja þess til að hlusta hvert á annað, skilja hvert annað og leita sátta. Ef okkar daglega líf einkennist ekki af slíkum vilja til sátta, þá munu stofnanir ríkisins – svo sem dómstólar og lögregla – ekki megna að skapa samfélag þar sem fólk treystir hvert öðru, upplifir að það sé öruggt í daglegu amstri sínu, og lítur á samfélagið sem umgjörð um gott líf. Ef ófriðurinn kraumar undir og valdbeitingu og ofbeldi er einungis haldið í skefjum af öflugu ríkisvaldi, þá mun líf fólks einkennast af ótta og tortryggni þótt friðurinn sé ekki endilega rofinn.
Þótt rætur lýðræðisins liggi þannig í hinu hversdagslega og persónulega þýðir það ekki að stofnanir samfélagsins séu því óviðkomandi. Þvert á móti. Í fyrsta lagi þá móta stofnanir samfélagsins þá farvegi sem fólk finnur lífi sínu og lýðræðislegar stofnanir hjálpa fólki að finna lífi sínu lýðræðislegan farveg, t.d. farveg sem einkennist ekki af ofbeldi. Lýðræðislegar stofnanir forða fólki frá því að beita ofbeldi og öðrum frá því að verða fórnarlömb ofbeldis. Ef tilteknar stofnanir samfélagsins, hvort heldur skólar, lögregla eða dómstólar, virðast viðhalda ofbeldi í samfélaginu, t.d. kynbundnu eða stéttbundnu ofbeldi eða ofbeldi gegn innflytjendum og flóttamönnum, þá gagnrýnum við slíkar stofnanir réttilega sem „ólýðræðislegar“ jafnvel þótt þær tilheyri því réttarkerfi sem annars er einn af hornsteinum hins lýðræðislega stjórnskipulags. Vart er hægt að hugsa sér alvarlegri gagnrýni á stofnir lýðræðislegs samfélags.
II.
Ég sagði áðan að dæmigert ofbeldi einkenndist af þrennskonar þáttum: (i) valdamismun, (ii) viljaverki, og (iii) skaða. Stöldrum aðeins við fyrsta atriðið, valdamismuninn. Við getum skipt valdatengslum í tvennt, lóðrétt og lárétt. Hið lóðrétta vald er gjarnan vel skilgreint og varðar stöðu fólks í einhvers konar stigveldi. Kennari er ofar í valdastigveldi skólans en nemandi, foreldri er ofar barni í valdastigveldi heimilisins, ráðherra ofar óbreyttum borgara á opinberum vettvangi, yfirmaður ofar undirmanni innan fyrirtækis. Slík valdatengsl eru afstæð við tiltekið svið en ekki algild; ráðherrann er ekki ofar maka sínum í valdastigveldi heimilisins, yfirmaður ætti ekki að hafa neitt vald yfir undirmanni þegar vinnunni sleppir.
En vald er líka með öðrum hætti, ekki bara eitthvað sem tiltekin manneskju hefur tilkall til í krafti stöðu, heldur sem afl eða máttur sem fólk beitir í hversdagslegustu samskiptum. Slíkt vald hefur verið kallað lárétt til aðgreiningar frá hinu lóðrétta valdi stigveldisins. Slíkt vald „er ekki réttur eða forréttindi sem einhver hefur, heldur er það einungis til þegar því er beitt í verki. Það er verklegt. Enginn hefur vald, en allir beita því.“ Mikilvægi þess að skilja hið lárétta vald í tengslum við ofbeldi er ekki bara að það hjálpi okkur að sjá valdamismuninn sem gerir valdbeitingu að réttnefndu ofbeldi, einnig er mikilvægt að skilja að valdbeitingin sem slík getur verið leið til að skapa sér valdastöðu – draga til sín lárétt vald, ef svo má segja – og koma sér þannig í aðstöðu til að beita ofbeldi.
Þegar Þórður kakali kom frá Noregi árið 1242 var hann lítið meira en óbreyttur sveitamaður, jaðarpersóna. Hann hafði ekkert lóðrétt vald – var hvorki höfðingi né goðorðsmaður – og þótt hann væri af ætt Sturlunga var hann enginn höfðingi, enginn eignamaður, hafði ekki um sig neina sveit manna, gat ekki gert sig breiðan við neinn. Hann hafði enga sérstaka stöðu og hann naut engrar sérstakrar virðingar. Og hvað gerði hann? Fyrst þurfti hann reyndar að flýja um landið þvert og endilangt, því Kolbeinn ungi vildi hann feigan. Þrátt fyrir allsleysi Þórðar stóð Kolbeini stuggur af honum. Eftir að hafa safnað að sér lítilsháttar liði – aðallega nokkrum ógæfumönnum og bændum sem hötuðust við Kolbein – þá tók hann sig til með þetta kostulega lið og hertók Skálholt í nokkra daga. Hann kom öllum að óvörum, læsti fólkið inni og lét eins og sá sem valdið hefur. Við getum kannski sagt að þarna hafi hann beitt ofbeldi, því hann var nógu klókur til að skapa sér kringumstæðum þar sem hann hefði völdin. Hann gætti þess að vísu að beita ekki grimmd, enda var markmið hans ekki að meiða eða valda hörmungum. Það sem hann vildi, öllu heldur það sem hann sárlega þurfti, var að skapa sér ímynd leiðtoga og þess sem valdið hefur. Og það tókst. Á ótrúlega skömmum tíma reis hann úr því að vera allslaus sonur sigraðrar ættar upp í að verða valdamesti maður landsins.
Það ofbeldi sem við sjáum í dag bliknar hjá því sem átti sér stað á Sturlungaöld þegar morð, vígaferli og limlestingar voru nánast daglegt brauð. Einkenni Sturlungaaldar var að valdið sem skipti máli var lárétt en ekki lóðrétt, við gætum líka sagt að það hafi verið fljótandi en ekki í föstum skorðum. Tíminn einkenndist af stanslausum tilraunum til að skapa sér stöðu og halda stöðu, en það var samt ekkert sem tryggði völdin og stöðuna nema áframhaldandi ofbeldi. Að þessu leyti var Sturlungaöld lík því sem ég ímynda mér að eigi við í undirheimum samfélagsins þar sem valdið er lárétt og fljótandi, og einungis viðhaldið með áframhaldandi valdbeitingu. Undirheimar heita einmitt það vegna þess að þeir eru utan sjónmáls og ríkisvaldsins. Vanmáttur yfirvalda til að taka á heimilisofbeldi bendir einnig til að undirheimarnir teygi sig stundum víðar, séu ekki bara í skuggasundum og eiturlyfjabælum heldur einnig í stásstofum. Ofbeldisfullur faðir ræður ríkjum á heimili sínu ekki í krafti formlegs valds heldur í krafti þeirrar ímyndar sem hann hefur – eða ímynda öllu heldur, því oft er ímyndin innan fjölskyldu önnur en hún er utan fjölskyldunnar. Innan fjölskyldunnar beitir hann stöðugt kúgandi valdi til að viðhalda stöðu sinni, en út á við kemur hann fram sem virðingarverður borgari til að tryggja afskiptaleysi. Þannig virkar þetta líka í undirheimunum. Ofbeldið verður nauðsynlegt til að skapa ímynd sem er svo forsenda þess að geta beitt ofbeldi – forsenda þess að njóta þeirra forréttinda að geta verið ofbeldismaður. Þannig er ofbeldismaðurinn er ekkert án ímyndar sinnar.
III.
Þegar Þórður kakali komi til Íslands sumarið 1242 til að rétta hlut ættar sinnar vissi hann ekkert út í hvað hann var að fara. Fljótlega dróst hann inn í og var höfundur að atburðarás sem einkenndist af miklu ofbeldi. En ofbeldið var með ólíku móti. Sumu ofbeldinu verður ekki lýst öðruvísi en hreinni grimmd og óhæfuverkum, annað var kannski nær því að kallast „eðlileg“ valdabarátta. Munurinn á þessu tvennu skiptir máli. Grimmdarverkin voru tilefnislaus eða tilefnislítil morð og limlestingar þar sem tilgangurinn – viljaverkið sem er eitt einkenni dæmigerðs ofbeldis – var ekki annar en að meiða og valda tjóni. Í Þórðar sögu kakala segir frá margvíslegum ofbeldisverkum, m.a. þessum grimmdarverkum þar sem Hjalti nokkur, liðsmaður Kolbeins unga er á yfirreið um Dalina til að valda Sturlungum og þeirra liði skaða:
Þeir Hjalti sáu þá hvar menn slógu á engiteig. Lét Hjalti þá taka. Hét annar Áslákur en annar Árni. Þeir voru gamlir menn og heilsulitlir og höfðu þeir því eigi forðað sér. Hjalti lét hvorntveggja þeirra fóthöggva … Þá lét Hjalti enn brjóta fótlegg í tveim mönnum í Laxárdal. Eftir það reið hann heim suður …
Þessi lýsing frá sumrinu 1243 er af verknuðum sem kalla má hrein ofbeldisverk. Ég segi „hrein ofbeldisverk“ vegna þess að ætlunin virðist ekki hafa verið önnur en að valda skaða. Svona ofbeldisverk gæti verið freistandi að skýra með vanstillingu gerandans. Var þessi Hjalti ekki bara óforbetranlegur ofbeldismaður í sér, illmenni inn að beini? Því miður er sú skýring ekki fullnægjandi. Innrætið er vafalítið hluti af skýringunni, en illmenni eru tiltölulega sjaldgæf og ef hreinræktað ofbeldi eins og það sem Áslákur og Árni máttu þola sumarið 1243 væri einungis afleiðing illmennsku, þá væri slíkt ofbeldi sjaldgæfara en raun ber vitni. Í bók sinni Identity and Violence segir indverski hagfræðingurinn og heimspekingurinn Amartya Sen frá bernskuminningum sínum um ofbeldisöldur sem riðu yfir heimalandið.
Frá æskuárunum minnist ég óeirða á milli hindúa og múslima sem tengdust stjórnmálum sundrungar. Ég man hversu hratt hinar breiðu manneskjur janúarmánaðar umbreyttust skyndilega í miskunnarlausa hindúa og grimma múslima júlímánaðar. Hundruð þúsunda féllu fyrir hendi fólks sem var hvatt áfram af blóðþyrstum leiðtogum til að drepa aðra fyrir „sína eigin þjóð“.
Svipaða sögur mætti segja frá Rúanda, fyrrum ríkjum Júgóslavíu, Þýskalandi nasismans, borgarastríðinu á Spáni, svo fá ein hörmungartímabil mannkynssögunnar séu nefnd. Venjulegu fólki blöskrar – og jafnvel þau sem taka þátt í svona blóðbaði skilja það ekki þegar frá líður. Hvernig gat annað eins gerst? En sannleikurinn er sá að slíkar ofbeldisöldur hafa oft risið og munu vafalítið eiga eftir að rísa. Hvað er þá hægt að gera?
IV.
Ég hef verið að fjalla um ofbeldi en ekki sagt mikið um hvernig megi bregðast við því. Enda veit ég ekki hvað hægt er að gera. Samt, ef ég mætti leggja eitthvað til, þá væri það þetta: Nálgumst ofbeldi ekki sem eitthvað framandi heldur sem eitthvað nálægt, eitthvað sem er í raun hversdagslegt. Gerum samt ekki ráð fyrir að hreinræktuð illmenni séu í hverju skoti, ég held að þau séu í raun fá. Ef okkur tekst að treysta lýðræðislegar stoðir samfélagsins, og lýðræðislega menningu, þá verður ofbeldið viðráðanlegt því fólk mun líta á aðrar manneskjur sem breiðar en ekki einvíðar. Mótefnið gegn ofbeldi felst ekki í því að segja einhverjum hópum stríð á hendur, því í stríði verður fólk einvítt, þar birtast bara „við“ og „hinir“.
Höfundur er prófessor í heimspeki á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Þessi grein var upphaflega flutt sem erindi á opnum fundi mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs Reykjavíkurborgar, í Iðnó 12. desember 2022.