Ég meina það. Ef internetið hefði ekki farið út fyrir veggi bandaríska hersins og háskóla væri heimurinn betri staður. Ég væri betri manneskja. Hauskúpan sem öll tilvist mín fer fram í væri töluvert verðmætari fasteign. En atburðir hafa átt sér stað sem gera mér ókleift að sofa, nema ef ég kem þeim frá mér. Með tár í auga og verk í maganum, biðst ég innilegrar afsökunar til þín kæri lesandi.
Árið er 2007 og alvarlega einhverfur maður að nafni Christian semur erótíska myndasögu um ímyndaðan vin sinn/alter-egó að nafni Sonichu, blöndu Sonic the Hedgehog (blár broddgöltur sem var vinsæll í spilakössum sinnar tíðar) og Pikachu (gult dýr úr Pokémon samtímans). Sagan er svo léleg og maðurinn sem semur þær svo aumkunarverður að hann verður að stórstjörnu á 4Chan, sem er núna aðallega tengd við hatursglæpamenn og Trump, þar sem hún er miðstöð hvítra öfgamanna á netinu.
Því fylgir stanslaus árás á Chris, sem sér ekki mun á vinum og aðilum undir fölsku flaggi. Tugir nektarmyndbanda þessa andlega skerta einstaklings er lekið ásamt heimilisfangi og persónuupplýsingum, sem hann gefur fúslega til þeirra sem hann heldur að séu vinir sínir. Það eina sem veitir honum huggun eru teiknimyndirnar sem hann semur og móðir hans. Sumt á ekki að vera til og þessi saga (sem er sönn) er ein þeirra hluta.
Ár líða og Christian gefur Sonichu upp á bátinn. Hann hefur verið sannfærður með aðstoð vina sinna að hann getur flakkað um víddir, hann hefur ráðist á starfsfólk verslana vegna litarskekkju á fígúru sem var til sölu, kveikt í sínu eigin heimili og tekið upp erótísk skrif (um vinkonur sínar). Lengi skal manninn kvelja, en árið 2014 verður Christian að Christine, sem telur sig vera gyðju og að Sonichu (Sonic og Pikachu, úr tölvuleikjum fyrir börn) sé hún sjálf og að heimarnir sem hún skapaði í myndasögu og hennar eigin munu blandast saman.
Áhugi internetsins er hinsvegar enduruppvakinn þessa daganna, því Christine hefur játað að hafa brotið kynferðislega á móður sinni og sætir núna ákærum.
Þessar upplýsingar eru einungis til vegna internetsins, ég veit þetta einungis vegna internetsins og þú veist þetta núna vegna internetsins. Ég átti gott sumar. Ég var hamingjusamur. Ég er brotin mannvera og held að það sé aðallega vegna offramboðs gagnslausra og mannskaðandi upplýsinga sem gera mér ekkert nema lífið leitt. Internetið má alveg hverfa mín vegna, ég ætla að verða einbúi í afdölum hvort sem er.
Höfundur er nemi við Menntaskólann á Akureyri.