„Ég nenni ekki að fylgjast með íslenskum stjórnmálum. Þau eru svo leiðinleg því þið eruð öll sammála um allt.“ Þegar hálfíslensk/hálfbandarísk vinkona mín sagði þetta við mig fyrir nokkrum árum horfði ég á hana í forundran. Þessi fullyrðing hennar hefur hins vegar setið í mér. Ég skil hvað hún er að fara. Það er breið samstaða um grunnáherslurnar í íslenskum stjórnmálum. Áherslur á velferð, t.d. jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og menntun. Áhersla á jöfnuð óháð kyni, atgervi, uppruna og kynhneigð. Áhersla á heilnæmt umhverfi. Áhersla á jöfnun ráðstöfunartekna gegnum skattkerfið. Áhersla á markaðsbúskap á flestum sviðum utan opinberrar þjónustu. Áhersla á opið hagkerfi þar sem vinnuafl, vörur og þjónusta flæða nokkuð óhindrað. Ég geri því ráð fyrir að líf mitt verði ágætt, hér eftir sem hingað til, þó svo fólk sé við stjórnvölinn sem ég er ósammála. Það er mikil blessun að búa í slíku landi.
Ég hef þó mínar áhyggjur. Þær snúast um tækifærin sem Ísland skapar íbúum landsins og hvernig við stuðlum að því að öll fái tækifæri. Tryggjum að Ísland sé staðurinn þar sem komandi kynslóðir vilji búa – land tækifæra.
Þegar slíkum spurningum er varpað fram er gott að við erum nokkuð sammála um grunnviðmiðin. Okkur dugar að ræða áherslur og leiðir að markmiðum fremur en markmiðin sjálf.
Í grunninn er það fólkið sem skiptir öllu. Að hæfileikar þess nýtist því sjálfu til góða og þar með samfélaginu öllu. Til þess þurfum við menntakerfi sem býður öllum tækifæri óháð bakgrunni á forsendum sem henta hverjum og einum. Menntakerfi sem er sveigjanlegt og getur tekist á við áskoranir í heimi þar sem sífellt hraðari tæknibreytingar eru stöðugt að breyta eðli starfa – skapa störf og eyða.
Við þurfum stöðugleika í efnahagsmálum, þannig að fólk geti tekið ákvarðanir til lengri tíma án þess að eiga það á hættu að forsendur breytist og rústi plönum. Geti keypt sér húsnæði. Stofnað fyrirtæki. Farið í nám. Hin Norðurlöndin gengu í gegnum breytingar á tíunda áratug síðustu aldar þar sem stöðugleiki var settur í forgang. Sambærileg áhersla hefur ekki náð fram á Íslandi. Á Íslandi sveiflast vextir mun meira, gengi sveiflast meira og verðlag er breytilegra. Stöðugleiki er flókið verkefni sem krefst samvinnu aðila vinnumarkaðarins og ríkisins. Fjölmörg ríki búa hins vegar við stöðugleika svo verkefnið er ekki óleysanlegt. Nýgerðir kjarasamningar sýna að aðilar vinnumarkaðarins á Íslandi skilja þetta vandamál og eru tilbúnir að axla sína ábyrgð. Langvarandi halli á ríkissjóði, sem hófst fyrir kórónuveirufaraldur og stendur enn þó faraldrinum sé lokið, er mikið áhyggjuefni og bendir ekki til sama skilnings hjá núverandi ríkisstjórn.
Ísland er lítið samfélag. Stundum er það frábært. Hlutir reddast hér sem víða annars staðar gætu ekki reddast. Stuttar boðleiðir og hröð ákvarðanataka gera hópum kleift að leggjast á eitt. Gallinn á þessu fyrirkomulagi er að oft skortir á gegnsæi. Stutt boðleið er ekki endilega besta boðleiðin. Alvarlegast er þegar slíkum lausnum er beitt til að úthluta eða veita aðgang að auðlindum – hvort sem um er að ræða fiskistofna, aðstöðu fyrir fiskeldi eða vindorkuver. Freistandi er að ganga í og redda málum. Halda hjólum atvinnulífsins gangandi. En við búum jafnan lengi að fyrstu gerð. Ákvarðanirnar verða viðvarandi kerfi sem eru hvorki sanngjörn né skilvirk fyrir samfélagið. Huga þarf betur að langtímahagsmunum almennings. Það eru nefnilega hagsmunir samfélagsins.
Loftslagsvá er stærsta áskorun samtímans. Hún krefst sársaukafullra aðgerða strax sem bera óvissan ávöxt í framtíðinni. Ísland er í einstakri stöðu til þess að ná árangri á þessu sviði. Ísland hefur áður farið í gegnum orkuskipti, þegar olíu og kolum var skipt út fyrir heitt vatn til húshitunar á síðustu öld. Ísland er afar ríkt af endurnýjanlegri orku. Þær auðlindir eru þó ekki óþrjótandi né er nýting þeirra án umhverfisáhrifa. Ætlum við að auka framleiðslu eða breyta nýtingu á núverandi orkuframleiðslu? Hér ættum við að hugsa um hvatana sem ráku áfram fyrstu orkuskiptin hér á landi. Það var einfaldlega hagkvæmara að kynda með jarðvarma en olíu og kolum. Gjöld á losun er leið til þess að skapa slíka hvata. Ísland beitir gjöldum á losun enn í mjög takmörkuðum mæli þó þau séu án efa auðveldasta leiðin til að hvetja til samdráttar í losun. Enn eru þeir geirar sem standa fyrir mestri losun undanþegnir losunargjöldum. Því þarf að breyta.
Íslenska þjóðin er langlíf og hún er að eldast. Fyrirsjáanlega mun þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu aukast verulega á komandi áratugum. Útgjöld til heilbrigðismála hafa aukist mikið á undanförnum árum og munu halda áfram að aukast um ókomin ár. Heilbrigðiskerfið á nú þegar við mönnunarvanda að etja. Þessar áskoranir krefjast skipulags til lengri tíma – skipuleggja þarf fjármögnun, ákveða rekstrarform og undirbúa mönnun. Þetta er langtímaverkefni sem nálgast þarf með breiðri aðkomu og í víðtækri sátt. Sú hugmynd að setja heilbrigðisstefnu til lengri tíma, eins og síðasta ríkisstjórn gerði, er því góð. Það sætir furðu að ekki skuli unnið eftir stefnu heldur hafi heilbrigðismálunum verið leyft að verða að bitbeini á sviði stjórnmálanna með tilheyrandi stefnubreytingum og hringli.
Ísland hefur sögulega búið við afar lítið atvinnuleysi. Raunar hefur Ísland jafnan skapað fleiri störf en þjóðin getur mannað. Fátt bendir til þess að þetta muni breytast. Sem betur fer hefur ekki skort viljugar hendur til að sinna þessum störfum. Mikill fjöldi fólks hefur tekið sig upp og flutt til Íslands. Tekið til starfa hér á landi og skapað verðmæti fyrir sig og samfélagið. Við þurfum að tryggja að þessum einstaklingum sem og afkomendum þeirra standi til boða sömu tækifæri og öðrum sem hér búa. Annars er hætta á að hér skapist samfélag ójöfnuðar sem gengur þvert gegn þeim grunngildum sem við sem þjóð erum sammála um.
Hörmuleg innrás Rússa í Úkraínu markar tímamót. Vonir um að dagar landvinningastríða væru taldir hafa verið gerðar að engu. Hörmungar og dauði eru kallaðar yfir fólk sem ekkert annað hefur til saka unnið en að hafna stjórnkerfi Rússlands. Þetta minnir okkur á hvar Ísland á heima í samfélagi þjóðanna – meðal frjálslyndra lýðræðisríkja. Saga Íslands sýnir svart á hvítu hve mikilvægt það hefur alltaf verið að hafa greið samskipti við okkar nágrannaþjóðir. Þegar þau hafa verið takmörkuð, hvort sem er vegna hamfara, stríðs eða vegna ákvarðana stjórnvalda, hafa afleiðingarnar alltaf verið þær sömu. Fátækara samfélag á Íslandi. Hinn frjálslyndi heimur mun þjappa sér saman á komandi árum. Ísland þarf að vera virkur þátttakandi í þeirri þróun. Frjálst meðal vina.
Höfundur er varaformaður Viðreisnar.