„Ég held að við höfum sofið fljótandi að feigðarósi í þessum málaflokki,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarsson þingmaður á Alþingi í vikunni þegar fram fóru sérstakar umræður um ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup þess. Þótt því beri að fagna að stjórnmálamenn séu hættir að einbeita sér að því að greiða hluta þjóðarinnar 80 milljarða króna skaðabætur fyrir verðbólguskot úr ríkissjóði, og farnir að horfa á hópinn sem verður raunverulega fyrir skaða vegna þeirrar peningagjafar, þá verður að segja að þessi umræða er að fara af stað mörgum árum of seint.
Sú staða hefur blasað við árum saman að fullt af ungu fólki getur ekki flutt út frá foreldrum sínum vegna þess að það hefur ekki efni á því að leigja (leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 40 prósent á fjórum árum) og það hefur ekki efni á því að kaupa (íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 35 prósent á fjórum árum og gert er ráð fyrir að það hækki um 24 prósent til viðbótar á næstu þremur).
Á mannamáli þýðir þetta að íbúð sem kostar 30 milljónir króna í dag kostaði tæpar 20 milljónir króna í ársbyrjum 2011. Og hún mun kosta rúmlega 37 milljónir króna í árslok 2017.
Til að eiga fyrir útborgun í slíka íbúð þarf að eiga 6,9 til 7,4 milljónir króna.
Geturðu ekki sparað fyrir því?
Til að eiga fyrir slíkri útborgun virðist augljósast að viðkomandi spari. En er það hægt á Íslandi?
Samkvæmt nýjustu launakönnun Hagstofu Íslands voru meðaltalslaun fullvinnandi launamanna fyrir reglulega vinnu á íslenskum vinnumarkaði 436 þúsund krónur á mánuði árið 2013. Sumir geirar hífa þetta meðaltal mjög upp. Meðal annars fjármálageirinn þar sem launaskrið hefur verið meira en hjá öðrum og launin eru að meðaltali 50 prósent hærri. Nú er vert að rifja upp að þetta er sami fjármálageirinn sem setti Ísland á hliðina og hefur aðalstarf af því að þjónusta eignir sem hann tók yfir frá gjaldþrota fyrirrennurum sínum. Og rukkar þóknanatekjur fyrir það.
En aftur af þeim sem vinna ekki í peningaumsýslu. Á vef velferðarráðuneytisins er hægt að reikna út svokölluð neysluviðmið (heildarútgjöld fólks án húsnæðiskostnaðar). Þar er hægt að sjá að það kostar par með eitt barn 440.720 krónur á mánuði að lifa áður en greitt er fyrir húsnæði. Ef þetta par leigir 80 fermetra íbúð í „gömlu“ Reykjavík þá er það að borga um 160 þúsund króna í húsaleigu.
Það kostar því þessa litlu fjölskyldu um 600 þúsund krónur á mánuði að lifa og leigja, en það er um það bil sú upphæð sem tveir meðallaunaðir Íslendingar fá samtals útborgað á mánuði fyrir reglulega vinnu.
Það kostar því þessa litlu fjölskyldu um 600 þúsund krónur á mánuði að lifa og leigja, en það er um það bil sú upphæð sem tveir meðallaunaðir Íslendingar fá samtals útborgað á mánuði fyrir reglulega vinnu. Ef parið hefur gengið menntaveginn, og tekið námslán, þá bætist greiðsla af þeim við mánaðarlegar afborganir. Því virðist blasa við að það er tæpt að meðallaunamaðurinn nái endum saman án þess að drýgja tekjurnar með öðru starfi eða umtalsverðri yfirvinnu, standi hún til boða. Og það er alveg pottþétt að hann á ekkert eftir til að leggja fyrir.
Fyrir einstakling er þessi staða enn verri. Þá eru meðalútgjöld áætluð 234.564 krónur á mánuði utan húsnæðiskostnaðar. Ef maður ímyndar sér, af handahófi, að viðkomandi leigi 60 fermetra tveggja herbergja íbúð í Breiðholti (einu ódýrasta hverfi borgarinnar) þá kostar það hann um 122 þúsund krónur á mánuði. Meðallaunamaðurinn með meðalútgjöldin ræður ekki við þessa greiðslubyrði. Hann væri marga tugi þúsunda í mínus á mánuði.
Hvað ætlarðu að eiga?
Það er því nánast út úr myndinni að spara fyrir útborgun og leigja á meðan. Auðvitað er valkostur að búa hjá foreldrum sínum þangað til að búið er að nurla nægilega miklu saman fyrir útborgun, en það myndi líklega þýða að viðkomandi þyrfti að búa í foreldrahúsum þar til að hann yrði fertugur. Það er helvíti ítalskt eitthvað.
Það sem blasir því við er að fólk sníki meðgjöf frá foreldrum eða öðrum velviljuðum fyrir útborguninni. Þau hljóta að eiga eitthvað eftir að hafa harkað í öll þessi ár. Eða hvað?
Svo virðist sem helmingur þjóðarinnar eigi 750 þúsund krónur eða minna í hreina eign. Fyrir 750 þúsund krónur færðu notaða 2006 útgáfu af Citroen C3 smábíl, keyrðan 75 þúsund kílómetra. Þú færð ekki innborgun á íbúð.
Og 30 prósent þjóðarinnar á minna en ekki neitt. Þ.e. hún skuldar meira en hún á. Því fær að minnsta kosti helmingur þjóðarinnar ekki þessa meðgjöf frá sínu fólki.
Þau fimm prósent landsmanna sem hafa það best eiga tæplega helming alls eigin fjár í landinu (um 1.052 milljarða króna). Þessi hluti, um tíu þúsund fjölskyldur, getur vel hjálpað sínu fólki áfram, enda líklega nýbúinn að fá leiðréttingu frá ríkisstjórninni ofan á allt annað.
Og efsta lagið, ríkasta 0,1 prósent þjóðarinnar, eignamestu 200 fjölskyldurnar, gætu auðveldlega splæst í útborgun handa öllu ættartrénu og samt átt fyrir skíðaferð til Aspen með öllu í hverri viku það sem eftir er ævi sinnar.
Og efsta lagið, ríkasta 0,1 prósent þjóðarinnar, eignamestu 200 fjölskyldurnar, gætu auðveldlega splæst í útborgun handa öllu ættartrénu og samt átt fyrir skíðaferð til Aspen með öllu í hverri viku það sem eftir er ævi sinnar. Samanlagðar eignir þeirra nema nefnilega 182 milljörðum króna hið minnsta. Ég segi hið minnsta, því í þessum tölum á eftir að taka tillit til markaðsvirði hlutabréfaeignar þeirra, en þeir ríkustu hafa tilhneigningu til að eiga miklu meira af hlutabréfum en allir hinir. Þessi hópur er orðinn ríkur á heimsmælikvarða. Og verður enn ríkari með hverju árinu.
En þú færð að minnsta kosti lán?
Þótt viðkomandi nái, með einhverju mögnuðu kraftaverki, að eiga fyrir útborgun þá er björninn sannarlega ekki unninn. Það þarf enn að taka lán fyrir þorra kaupverðsins og borga af því láni næstu áratugina.
Það er dýrara að taka lán á Íslandi en í nokkru viðmiðunarlandi. Það er ekkert bara tilfinning, það er staðreynd. Hér eru flest húsnæðislán verðtryggð, enda ráða færri við afborganir af óverðtryggðum lánum. Auk þess eru verðtryggðu lánin hagstæðari, ótrúlegt en satt, þegar lengra tímabil er skoðað.
Þótt hér sé nánast verðhjöðnun í dag er há verðbólga jafn íslensk og ofdrykkja um verslunarmannahelgi. Sú verðbólga hækkar lánin. Stýrivextir hér eru margfalt hærri hér en annarsstaðar. Á Íslandi eru þeir 4,5 prósent. Í Noregi eru þeir 1,25 prósent, 0,5 prósent í Bretlandi, 0,05 prósent á evrusvæðinu, núll prósent í Svíþjóð og í Danmörku eru þeir neikvæðir.
Nafnvextir af lánum í Evrópu voru, á tímabilinu 1998 til 2010, að jafnaði fimm prósent í Evrópu. Á Íslandi voru þeir tæp tólf prósent að meðaltali. Íslendingar voru á því tímabili að eyða 18 prósent meiru af ráðstöfunartekjum sínum í greiðslur af húsnæðislánum sínum en Evrópubúar.
Enn hafa ekki komið fram nein lagafrumvörp til að breyta þessari stöðu. Til að laga stöðu leigjenda, gefa ungu fólki tækifæri til að eignast þak yfir höfuðið eða Íslendingum almennt möguleikann á því að taka eðlileg lán. Eina sem ríkisstjórnin, eða að minnsta kosti hluti hennar, hefur hamrað á er að hún vilji afnema verðtryggingu á íbúðalánum, einu lánunum sem þorri landsmanna hefur efni á að taka. Og þeim lánum sem eru, þrátt fyrir öll gífuryrði, hagstæðustu neytendalánin sem okkur bjóðast í einangruðu landi hafta, einhæfni og örmyntar.
En þú ert alla vega Íslendingur, er það ekki?
Nú er eðlilegt að spyrja sig aftur að því sem spurt var í upphafi þessa pistils: passar samfélagið sem við búum í við væntingar þegna sinna? Vega kostirnir upp gallana?
Svarið við þessari spurningu er alltaf einstaklingsbundið, enda misjafnt hvað það er sem fólk sækist eftir í lífinu. En heilt yfir virðast staðreyndirnar sýna að við erum ekki á réttri leið. Það er ekki verið að sníða markmiðin að langtímahagsmunum fólksins sem hérna býr, heldur einhverju öðru. Því þarf að breyta.
Því ef ríkið yfirgefur þjóðina þá er ekki langt að bíða þess að þjóðin yfirgefi ríkið.
Hægt er að lesa fyrri hluta leiðarans hér.